13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Ég held, að það sé ekki að öllu leyti heppilegt að láta þetta frv., eins og það er nú, ganga óbreytt gegnum d. Ef það verður, þá verður það þeim til leiðinda síðar, sem þess hafa beðið, vegna þess að þetta mál er talsvert lítið undirbúið, en minna hugsað af þeim, sem standa að því. Þetta mál, sem hér er um að ræða, er ekki lítið fjármál, og þjóðmál líka. Hér er um að ræða, að sjóð:. sem er 1300000 kr., verði varið til þess að ljúka við leikhús í Reykjavík. Ef farið væri að eins og skynsamlegt væri, mundi þessum sjóði varið til þess að hjálpa öllum landslýð utan Reykjavíkur til að koma upp samkomuhúsum, þegar Reykjavíkurhúsinu er lokið. En í staðinn fyrir þetta leggur hæstv. menntmrh. að n., sem fjallar um málið, að hér verði hafður á annar háttur, það verði ekki einu sinni helmingur fjárins látinn ganga til þess að koma upp samkomuhúsum utan Reykjavíkur. Það á að hætta við það starf, sem sjóðurinn hafði, að ráða fram úr peningavandræðum, en ef þessu er hætt, þá má telja víst, að það komi óánægja í hina stærri kaupstaði með það að vera að leggja fé í þetta, en fá engan stuðning af því fé, sem varið er til leikstarfsemi í Reykjavík. Það er eðlilegt að Akureyri, sem nú leggur 140 þús. kr. í skemmtanaskatt, og Ísafjörður, sem leggur fram 80 þús. kr. — þeir staðir séu óánægðir með það, að Reykjavík fái helming af þessu fé. Það væri eðlilegt, að þessir staðir segðu: Nú viljum við fá okkar sjóð. Þess vegna má segja um þessa aðferð, sem hæstv. menntmrh. mælti með, að það sé útilokað, að það verði nokkuð úr samkomuhúsbyggingum meðal fólksins, sem býr utan Reykjavíkur. En af því að hér er mjög ógætilega að farið í fjármálum, þá finnst mér ekki ár vegi að minna hæstv. ríkisstj. á það, að einn af stuðningsmönnum hennar sagði við mig fyrir fáum vikum. er ég spurði hann, hvernig gangi hjá stjórninni. Hann sagði: „Ég held, að fiskurinn drepi okkur“. Ég hitti annan stuðningsmann stjórnarinnar og spurði hann. hvort hann væri bjartsýnn á framtíðina. Hann sagði: „Ég held, að tryggingarnar frá í fyrra og skólafyrirkomulagið drepi okkur.“ En hvað er það, sem er að drepa okkur? Það er hin óskaplega ógætilega meðferð á fjármunum s. l. 2 ár, og ég mun leiða rök að því, að það, sem hér er verið að gera, er alveg sama ógætnin. Hér er óundirbúið mál og ekkert tillit tekið til þeirrar reynslu, sem menn hefðu átt að vita um, heldur er farið þveröfugt að. Mér kæmi ekki á óvart, þó að það færi svo um þetta mál, að ég væri sá eini. sem leyfði sér að standa á móti þessum grundvelli fyrir þjóðina. Þegar tekin var ábyrgð á fiskinum, var það ákaflega ógætilegt, og það mun leiða til óheilla, sem gert var þá á löggjafarþinginu. Þá var flaustrið svo mikið, að saltfiskurinn var tryggður of hátt í hlutfalli við það, sem var miðað við frosinn fisk. Það er rétt að benda hæstv. ráðh. á það, að nú eru fjöldamargir þm. að fá samvizkubit af þessu. Það, sem gert var í vetur með fiskábyrgðina, er einsdæmi.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fá um leið nokkra fræðslu hjá hæstv. ráðh. um annað mál, sem lagt var fram sem þáltill., en var ekki rædd. Þetta mál var um héraðsskóla og húsmæðraskóla í sveitum, en þeir eru nú orðnir gjaldþrota. T. d. eru 2 skólar í Þingeyjarsýslu, héraðsskólinn og barnaskólinn, komnir undir þessi nýju fræðslul. Ég það er lagt á sýsluna að greiða það mikið í laun við þessar stofnanir, að sýslan mundi verða að láta allan sinn sýslusjóð í það. Hér er verið að gera eins mikið óhappaverk og það er einstakt. Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. ráðh., hvernig hann ætlar ríkisstj. að bæta úr þessu. Ætlar hann að láta suma af kennurunum ekki fá nein laun? Í stuttu máli, nokkrir af gagnlegustu skólum landsins eru gjaldþrota stofnanir, sem enginn vill eiga, og það er engum um að kenna nema andvaraleysi þeirra manna, sem höfðu forgöngu um þetta, en voru ekki menn til þess. Kem ég þá að þessu máli.

Ríkisstj. ætlar hér að byrja alveg nýjar leiðir, sem hún ætlast til, að hefjist hér í Reykjavík með ríkisrekstri á stóru leikhúsi. Það, sem hér er gert af hæstv. menntmrh., er fordæmalaust. Það hefur enginn lagt út í að hefja ríkisrekstur á leikhúsi undir svona kringumstæðum. Meira að segja í Englandi, þar er ekki til eitt einasta þjóðleikhús. Við skulum taka Noreg. Þar er leiklistin gömul. Í Bergen eru mikil og fræg leikhús. Björnson stjórnaði þar leikhúsi. Nú skyldu menn halda, að þessi mikli gáfumaður hefði lagt áherzlu á að koma Bergenleikhúsi á ríkið, en hann gerði það ekki og í Noregi er ekkert leikhús til undir svipuðum kringumstæðum og hér um ræðir. Norðmenn, sem eru 3 millj., telja ekki heppilegt að fara inn á ríkisrekstur í þessum efnum. Ef við förum svo til Danmerkur, þá er þar eitt ríkisleikhús, en þó Danir séu 40 sinnum fleiri en við, þá hafa þeir með skömm getað haldið því sem ríkisfyrirtæki. Í Árósum er leikhúsið einkafyrirtæki. Í Svíþjóð er óperan ríkiseign, en yfirleitt eru leikhús einkafyrirtæki með styrk. Þess vegna er mér það ráðgáta, hvers vegna maður eins og hæstv. ráðh., sem hefur aldrei haft nein skipti af þessum málum, vill nú fara að ráðleggja ríkinu að taka upp það, sem er forkastað af öllum öðrum. Það er líkt og hafi verið bundið fyrir augu hæstv. ráðh., þegar hann fór að koma nærri þessu. Þess vegna er það, að það gæti kannske hafa gerzt eitthvað merkilegt hjá okkur, sem skýrði þetta. En hvernig hefur gengið með þennan skatt hér. Það vantaði samkomuhús í Reykjavík, og þrátt fyrir það að ýmsir dugandi menn, eins og Indriði Einarsson, reyndu að leggja í hús, þá hefur það ekki gengið, fyrr en þessi leið var farin og mér er það mikið kunnugt um undirbúninginn, að ég neita því, að það hafi verið meining okkar, að skatturinn yrði notaður til langframa til annars en að koma upp þessu húsi. — Nú vita hv. þm., að það má heita, að það sé ekki til eitt einasta verulegt samkomuhús á öllu landinu, af því að fólkið hefur ekki efni á að byggja slík hús, og þannig var það hér í Reykjavík. En það virðist vera metið meira af hæstv. ríkisstj. að setja 40 menn í Reykjavík á föst laun en að halda áfram að byggja úti um allt land. — Það er þá bezt að benda hæstv. ríkisstj. á það, hvernig hún á að fara að í þessum efnum. Hér er farið fram á að taka hálfan sjóðinn, 600000 kr., og leggja það fram til þess að launa menn, sem eiga að vera leikarar við leikhúsið. En þetta er ekki nóg, ef hér á ekki að verða stórkostlegur tekjuhalli. Nú skulum við athuga þessi fáu ár. sem við höfum verið að basla við þetta. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. menntmrh. hafi gert sér grein fyrir því, hvernig framtíðin muni verða fyrir okkur, ef við litum á það, sem nú er.

Alþingi ákvað 1923 að leggja skemmtanaskattinn til leikhúsbyggingar í Reykjavík, en árið eftir kom Jón Magnússon með till. þess efnis að taka helminginn aftur, og þegar safnað hafði verið í 3–4 ár, logaði allt upp og ekkert vit þótti að leggja í leikhúsbyggingu. En hæstv. menntmrh. var svo ágætur að líkja mér við ógætna menn, þótt ég vildi, að sjóðurinn héldi áfram. En ég man, þegar ég þurfti að beita mér, til að húsið yrði byggt, og sagði: ef ekki strax, þá verður að skipa nýja nefnd. En árið 1932 var húsið fokhelt, en þá komu menn eins og hæstv. menntmrh., og þá kom stjórn, sem stal fénu frá árinu 1923. Árið 1932 voru Íslendingar svo fátækir, sagði Alþingi, að þessi upphæð þyrfti að renna í ríkissjóð. En þegar hæstv. menntmrh. var fjmrh., sagði hann ekkert um þetta. Hann brúkaði þessa peninga, og að ég sagði ekkert, var vegna þess, að mér fannst hæstv. ráðh. hafa lítinn sjóð. Og úr því að menn vildu níðast á leikhúsinu 1932, þá beið ég bara rólegur, en ég hef ekki gleymt þessu. Nú var svo komið, að hæstv. fyrrv. menntmrh. setti nefnd á laggirnar í sambandi við málið, og þó að ég gagnrýni hæstv. núv. menntmrh. fyrir ógætni, þá gagnrýni ég ekki hæstv. fyrrv. menntmrh., því að frá hans sjónarmiði gerði hann rétt. Það liggur fyrir vitnisburður um það, að ráðherrar sósíalista hafi umgengizt landssjóð eins og óvin sinn. Þeirra takmark hefur alltaf verið að eyðileggja og eyða kapítalinu. Mennirnir í n. voru leikari og útvarpsþulur og Halldór Kiljan Laxness og svo einn maður, sem játaði, að hann hefði aldrei séð leikhús. Var Halldór Kiljan Laxness eini maðurinn í n., sem maður gat hugsað sér að hefði séð leikhús, en hann sendi alltaf upplognar sakir í blöðin, og varð byggingarnefnd að sýna honum staðinn til að þagga niður í honum. Hann sagði t. d., að svölum væri þannig fyrir komið, að þaðan væri ekkert hægt að sjá. En þegar farið var með hann upp á svalirnar og hann spurður, hvað hann sæi, þá viðurkenndi hann, að hann sæi allt sviðið. Þetta var sá maður, sem búast mátti við, að mesta þekkingu hefði, en hann var opinber ósannindamaður um málið. Nú hefði mátt búast við, að n. sendi skýrslu um málið. Nei, þingið fær ekkert að vita, heldur er samið frv. upp á 20 fasta leikara. Upplýsti n. að 45 fastir leikarar störfuðu í Osló. En það er táknrænt, að gert er ráð fyrir 20 föstum leikurum hér strax í byrjun en 45 í Noregi, en hér eru 130 þús. íbúar, en í Noregi eru um 3 millj. En þetta aðgæta ekki hinir ágætu menn. Nú eru hér 5 hæstaréttardómarar. Það svarar til, að í Danmörku væru þeir 300. Þessar aðgerðir segja því, hvaða áhrif þetta hefði. á fjárhag landsins. Svo kom sá maður til að hafa þessi mál með höndum. sem með lífi og sál hefur reynt að láta kapítalið hverfa, og er hann þar í samræmi við skoðanir sínar. En svo kemur núv. hæstv. menntmrh., og hefði mátt búast við, að hann væri ekki erfingi fyrrv. menntmrh. En hvað gerist? Hann tekur frv. fyrrv. menntmrh. og breytir því örlítið, og svo eru þessi skjöl prentuð, sem kommúnistar hafa ungað út. Núv. ríkisstj. skoðar sig þess vegna sem löglegan erfingja fyrrv. ríkisstj. Það er einnig auðséð, að málið hefur ekkert verið rannsakað og ekki borið undir neina aðila nema leikara. Flýtir málsins er ógætilegur vegna gjaldeyrisskorts, og er óhætt að bíða. þar til séð verður fyrir, hvernig gjaldeyrismálum okkar verður háttað. Og áður en atkvgr. fer fram, mun ég flytja rökstudda dagskrá um að vísa málinu frá, og vil ég beina því til hæstv. ríkisstj., að hún hlutist til um, að safnað sé heimildum um, hvernig leikhús séu rekin.

Það, sem mest er vanhugsað í frv., er mismunurinn, sem gerður er milli Reykjavíkur og annarra staða á landinu. Ég sé, að hér er einn þm., sem hefur verið með mér á fundi úti á landi í algerlega ófullgerðu samkomuhúsi, og þar í fólkið þar og víðs vegar um landið að búa við þess konar skilyrði. En svo er aftur á móti sagt, að 40 menn eigi að vera á föstum launum í Reykjavík til þess að skemmta fólki þar. Er þetta byggt á slæmum misskilningi, vegna þess að í Reykjavík og annars staðar á landinu er sams konar fólk, sem allt hefur gaman af sjónleikjum. Það er einnig óþarfi að halda, að það verði annað en „amatörar“, sem leika hér, og hafa þeir leikið vel margir, en ekkert verr á öðrum stöðum á landinu. T. d. á Akureyri, Ísafirði og Vestmannaeyjum er fólk með góða leikarahæfileika eins og hér. Hæstv. menntmrh. verður að gera sér grein fyrir því, hvort leikarar eigi að vera á föstum launum hér, en ekki annars staðar á landinu. Nú veit ég, að þeir, sem stiga í sömu sporin og stigin voru árið 1932, munu fá réttlátan dóm. Og ég er ánægður, ef þjóðleikhúsið getur risið upp, vegna þess að þá fá þegnarnir betri húsakynni fyrir leikstarfsemi sína, — en hvers vegna þá ekki líka annars staðar á landinu?

Það er dálítið einkennilegt með kommúnistana. Þeir segja, að það komi ekki til mála, að leikfélagið reki leikhúsið, og þeir hafa sigrað ráðherrann. Þessu félagi, sem verið hefur á hrakhólum og orðið að borga háa leigu fyrir mjög ófullkomið húsnæði, býðst nú fullkomið húsnæði ókeypis, salur, sem tekur 800 manns í sæti, og auk þess tveir minni salir, sem rúma um 200 manns. Ef gert er ráð fyrir, að það verði leikið þrjú kvöld í viku, þá er hægt að leigja stóra salinn 4 kvöld, bæði fyrir kvikmyndasýningar, söng o. fl. Sú leiga ætti að geta verið stórfé, eftir því sem nú fæst fyrir þau hús, sem fyrir eru. Í stuttu máli. leikfélagið hefur aldrei dreymt um slíka sali og slíka möguleika, sem með þeim skapast, og væri vel á haldið, ætti það enga styrki að þurfa í framtíðinni frá ríki eða bæ, nema í hæsta lagi ókeypis ljós og hita frá bænum. Svona standa þá málin. En nú ætlar menntmrh. bara að ráða þarna 40 leikara. og í það á skemmtanaskatturinn að fara, í stað þess að skipta honum til hinna ýmsu landshluta eftir þörfum, sem virtist ekki nema sanngjarnt, þar sem búið er að byggja þetta glæsilega hús hér. Það hefði verið bezt fyrir núverandi menntmrh. að taka upp óbreytt frv. fyrrv. menntmrh., úr því að hann velur þessa leið, því að það var vel útbúið frá hans sjónarmiði.