19.12.1946
Efri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

45. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 239 borið fram brtt. við frv. til l. um breyt. á l. um menntaskóla. Hún hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta. Við 1. gr. Greinin orðist svo: „Fræðslumálastjórn ákveður kennsluskyldu skólastjóra og kennara.“ Þegar l. um menntaskóla voru til umr. á s.l. Alþ., þá áleit ég, að þetta væri eðlilegast að ákveða með reglugerð, en ekki ákveða það í l., hvernig kennsla skyldi ákveðin. Þetta ætti að heyra til lagabálksins um skyldur embættismanna. það hefur upplýstst við þessar umr., að þetta frv. er borið fram til þess að koma á samkomulagi milli núverandi kennara og fræðslumálastjórnar. það hefur verið gengið á rétt núverandi kennara með ákvæðum l. um menntaskóla. Mér skilst eftir þeim umr. að dæma, sem hér hafa farið fram, að fyrir hendi sé samkomulag um það, hvernig þetta skuli vera í framtíðinni. Þess vegna álit ég rétt, að þessi brtt. verði samþ. og fræðslumálastjórn verði látin ákveða kennslustundafjöldann. Það hefur komið í ljós, þótt ekki sé liðið nema eitt ár, síðan þessum l. var breytt, að þörf er á að breyta þeim aftur, og hætt er við, að enn þurfi að gera það. Þess vegna er eðlilegast, að þetta sé í höndum fræðslumálastjórnar, meðan þetta ástand ríkir í landinu. Ég held þetta geti orðið að samkomulagi milli mín og þeirra, sem halda því fram, að nauðsynlegt sé að breyta þessu. Ég vænti þess vegna, að mín brtt. verði samþ.