16.05.1947
Neðri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls, þá áskildum við hv. þm. Snæf. okkur rétt til þess í menntmn. að flytja síðar brtt. við þau ákvæði þessa frv., sem fjölluðu um skiptingu skemmtanaskattsins milli þeirra aðila, sem þar um ræðir. Ég hafði kosið, eins og ég gat um við 2. umr., að allmiklu hærra hlutfall af þessum skatti yrði ætlað félagsheimilum eða samkomuhúsum utan Reykjavíkur en þar er gert ráð fyrir. Nú er það hins vegar þannig, að samkomulag hefur í aðalatriðum náðst um þessa skiptingu. En þar sem þetta hlutfall er svo miklu lægra en ég hafði kosið, eins og ég hef áður lýst, þá höfum við hv. þm. Snæf. ákveðið að bera hér fram brtt., sem fer fram á að breyta þessu hlutfalli nokkuð, en þó ekki verulega og þá á þann hátt. að í staðinn fyrir. að í frv. er gert ráð fyrir, að 45% skattsins renni til þjóðleikhússins, komi 40% og í staðinn fyrir 45% til félagsheimilanna komi 50% af skattinum. Það er sem sagt till. okkar, að hlutfallið af skattinum til félagsheimilanna hækki um 5%, en þá lækki aftur hlutfallið til þjóðleikhússins að sama skapi.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa brtt. Ef hún yrði samþ., finnst mér það mjög hæfileg skipting á þessum tekjustofni milli þjóðleikhússins og félagsheimilanna.

Það hefur verið á það bent með réttu, að það er mjög hæpið að segja nokkuð um það fyrir fram, hversu mikill halli verður á rekstri þjóðleikhússins. Það virðast allir sammála um það, að hann verði nokkur, og mér virðist ekki varlegt á þessu stigi málsins að leggja til, að félagsheimilin fái meiri hluta af þessum skatti en hér er lagt til, enda þótt þörfin sé mikil fyrir félagsheimili dreifbýlisins.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.