16.05.1947
Neðri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að vara hv. d. við því að ganga nú frá þessu máli í kvöld, hvort sem það er gert eins og hæstv. ríkisstj. leggur til eða samkv. brtt. hv. þm. N-Ísf. Og það, sem ber til þess, er, að bæði er málið lítið undirbúið og hefur verið lítið rætt hér, og í öðru lagi er þannig útlitið með fjármál landsins og í raun og veru þjóðleikhússins líka, að það er síður en svo ástæða til að flýta svona mikið þessari lögbindingu. Mér þykir rétt að skýra hv. d. frá því, af því að ég er í byggingarn. þjóðleikhússins, að það er í raun og veru ákaflega ósennilegt, að þjóðleikhúsið verði tilbúið mjög fljótlega, og valda því margar ástæður. Hvað sem íslenzkum peningum líður, þá koma til aðrar hindranir, svo sem gjaldeyrisörðugleikar, sem valda því nú, að byggingin er nálega stöðvuð. Eftir mikla baráttu var lofað yfirfærslu á 500 þús. kr. (sænskum), sem kom sér ákaflega vel, enda þótt slíkt væri alls ekki nóg, en þegar á átti að herða, þá sá gjaldeyrisnefnd sér ekki fært annað en að draga mikið úr þessu, svo að jafnvel þessi takmarkaða upphæð er ekki fáanleg. Og það er ekki hægt að segja annað en að samningar um efni og vinnu eru því miður í yfirvofandi hættu að stranda, að því er snertir um helming útboðsins, sökum gjaldeyrisleysis landsins. Er þó ekki um annað að ræða en tiltölulega litla yfirfærslu til Danmerkur og Svíþjóðar, og það mun vera enn þá meiri tregða á yfirfærslu til Danmerkur sem stendur.

Ofan á þetta bætist svo það, sem ég álít rétt, að hv. d. viti, að það er ákaflega dýr öll smíðavinna hér og erfitt að fá smiði og þess vegna hefur verið fluttur inn fjöldi af erlendu starfsfólki, bæði faglærðu og ófaglærðu. Þetta er náttúrlega nokkuð merkilegt atriði. Enn fremur hefur verið sökum þessarar dýrtíðar undanfarin ár leyfður mjög mikill innflutningur á húsgögnum, og hefur mér verið sagt, að í því skyni hafi verið leyfðar yfirfærslur fyrir um 8 millj. kr. og það til einstakra manna á ekki löngum tíma. Og í viðbót við þetta hafa íslenzkir smiðir mjög mikið að gera.

Þegar þjóðleikhúsnefnd fór að hugsa um að fá húsgögn, stóla o. fl., þá er það vitanlegt, að þar þurfti að athuga, hvar mundi bezt að gera slík kaup, bæði hvað gæði og verð snerti, og var ekkert undarlegt, þó að hún leitaði einnig til erlendra og stærri þjóða. Þá kom gott tilboð, bæði frá Danmörku og Svíþjóð, og taldi n., að um stórfelldan sparnað væri þar að ræða að taka þeim, borið saman við smíði hér. Íslenzku húsgagnasmiðirnir vildu ekki eiga þátt í útboði þessu. Þeir treystu sér ekki til að bjóða slík kjör, sem gætu staðizt samanburð, vegna þess hve vinna væri hér dýr og miklu dýrari en annars staðar, svo að þeir skrifuðu þjóðleikhúsn. og lýstu þar yfir. að þeir treystu sér ekki til þess að bjóða í þessa vinnu, þeir mundu vera til með að vinna að þessu verki eftir reikningi. þ. e. að vinna að þessu í tímavinnu. en ekki ákvæðisvinnu. Þessir menn tóku ekki þátt í samkeppni þessa útboðs og sinntu því ekki. En þáttur þeirra fulltrúa í félögum þeirra var skipulagður á þá lund að reyna að fá önnur félög í lið með sér til þess að gera ólöglegt þetta útboð, ef það kæmi til greina. Þegar svo útlendingarnir vissu um þetta, að hér lægi við, að ofbeldi yrði kannske beitt af íslenzkum smiðum til þess að hindra þessa smíði, þá gera þeir ef til vill líka ráðstafanir til þess að vera þá ekki bundnir hér í ákvæðisvinnu. Nú er ekki vitað, hvernig þetta fer, en auðvitað getur þjóðleikhúsn. ekki lagt til annað en að hér sé réttarríki, þannig að verkalýðsfélög hafi sín samtök. En samt sem áður er ekki vafi á því, að það vaka ofbeldishugmyndir fyrir þessum mönnum hér. Og ef það bættist nú ofan á, að ríkið hefði hvorki yfirfærslumöguleika til þess að geta tekið þeim tilboðum, sem það ætti kost á erlendis, eða gæti valið um þá menn, sem væru löglegir til þess að vinna þetta, þá sé ég mjög litla ástæðu til þess að vera að flýta sér svona með þetta frv. Þess vegna mun ég koma með dagskrártill., þar sem lagt er til að málinu verði frestað.

En úr því að ég minntist á ofbeldisáætlanir sumra smiða hér í bænum, þá er ekki úr vegi að minnast á það, sem hér er að gerast í þessum málum að öðru leyti. Það eru hér fleiri þús. erlendir menn í vinnu, margir faglærðir smiðir, sem auðvitað gætu tekið vinnu frá íslenzkum smiðum, en það er ekkert skipt sér af því. Og svo er hitt, að hingað til lands hafa verið flutt húsgögn fyrir millj. kr. Hefur verið mikið amazt við því af íslenzkum smiðum? Ég held ekki.

Ég vil leyfa mér að snúa mér til hæstv. menntmrh. og spyrja hann um það, hvers vegna hann sæki þetta mál með svona miklu kappi nú í þinglokin og hvort hann geti tryggt það, að þessi vinna, sem nauðsynlegt er að framkvæma, ef þjóðleikhúsið á að ná fram að ganga, geti farið fram fyrir ofbeldi annarra manna, og hvort ráðh. getur tryggt, að hér sé réttarríki, sem aðrar þjóðir geti samið við, eða ekki. Ef hann ekki getur tryggt þetta, hvers vegna vill hann þá yfirleitt flýta sér svona með slíkt mál, sem náttúrlega er ómögulegt að segja um hvernig fer?

Þó að þetta sé nauðsynjamál og kannske samningsmál, þá hygg ég ekki, að of oft sé kveðin sú vísa, að þetta mál er undarlega flutt og hroðvirknislega hjá hæstv. menntmrh. Það kom líka í ljós við 2. umr., að það var með nauðung hægt að knýja fram atkvgr. Það var auðséð, hver tregðan var gegn þessu máli, enda skilst mér, að málið sé með nokkurri nauðung fram komið.

Þá, langar mig einnig til þess að gera fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort framgangur þessa máls hafi verið eitt af samningsatriðum stjórnarinnar, og ef svo væri, hvaða ástæður liggi til þess, að þannig er farið að eins og hér er gert.

Nú er ekki hægt að láta þetta mál fara gegnum 3. umr. án þess að benda á það, að það er ákaflega illa undirbúið. Það er búið þannig um það, að fyrrv. menntmrh. fékk H. K. Laxness og Þorstein Ö. Stephensen sem aðalmenn til þess að undirbúa frv., og þetta frv. var ekki byggt á neinni rannsókn og því fylgdi engin skýrsla um það, hvaða kostnaður mundi verða af rekstri leikhússins, og heldur engin skýrsla um það, hvernig þessum hlutum er háttað í öðrum löndum. Það er yfirleitt ekkert gert nema að kasta þessu frv. svona illa gerðu inn í þingið, sem er um það, að sett verði á stofn fyrirtæki á kostnað ríkisins.

Nú hef ég, síðan síðasta umr. fór fram, aflað mér upplýsinga um það, að þetta mál stendur þannig, að það er ekki hægt að segja, að neitt fordæmi sé fyrir framkomu hæstv. menntmrh. og hv. n., svo að það er ekki furða, þó að treglega gengi hér við atkvgr. í d. um þetta mál, því að hér er líka verið að veita vatni upp brekkuna. (Forseti (SB) : Ég vil benda hv. þm. á, að það er 4. dagskrármálið, sem er til umr.) Ég vænti þess, að hæstv. forseti gangi þess ekki dulinn, að það eru hér menn á Alþ., sem vita, að ef búið er að samþykkja þó ekki sé nema 7–8 millj. kr. útgjöld til ríkisrekstrar þjóðleikhúss, þá er ekki ástæðulaust að reyna að vekja athygli þm. á því, hvað er að gerast, og væri ekkert úr vegi fyrir hv. þm. N-Ísf. og hæstv. forseta að geta átt þess kost að athuga þetta mál.

Það er engin ástæða til þess fyrir þm., þegar einhverjir menn eru fengnir til þess að undirbúa mál, sem þeir hafa ekki vit á, að samþykkja það án þess að athuga, hvað er í raun og veru á ferðinni, og það kemur bókstaflega við þeirri d., sem á að greiða atkv. um það, hvort hún vill hafa ríkisrekstur eða ekki, þó að ekki sé búið að leggja fram nema 7–8 millj. kr. þarna á einn lið útgjaldanna.

Út í sams konar fen og hér er um að ræða hefur norska ríkið ekki þorað að ganga. Og ekkert fordæmi er til um það frá Norðurlöndum. að ríkisrekstur sé hafður á leikhúsum, nema eitt leikhús í Danmörku er rekið af ríkinu og er rekið með stöðugum halla og óánægju. Í Svíþjóð er eitt eða ekkert dæmi um þetta. Yfirleitt alls staðar á Norðurlöndum er það einkaframtakið, félög og sjálfstjórnarstofnanir, sem reka leikhúsin. Svo er það og á Englandi, sem ég vona. að hv. þm. og hæstv. menntmrh. viti. Ég vona, að þeir viti það, að á Englandi hefur sjónleikagerð og leiklist lengi verið stunduð og með miklum árangri. En samt sem áður hefur Englendingum aldrei dottið í hug, að enska ríkið geri það, sem hér er lagt til, að íslenzka ríkið geri á þessu sviði. Frá Ameríku er sama að segja. Þar getur enginn maður hugsað sér að gera þetta, sem hér er stefnt að nú, því að það er álitið, jafnvel í svo ríkum löndum og stórum borgum, að bezt fari á því, að leiklistin sé rekin á frjálsum grundvelli, en með stuðningi þess opinbera.

Ég mun kannske við meðferð annarra frv. geta bent á dæmi um, hvað hér er í hættu. Í hættu er það, að með ríkisrekstri verði eyðilagðir þeir kraftar, sem við höfum hér á þessu sviði, þannig að menn, sem hafa lagt það á sig að vinna sem áhugamenn fyrir leiklistina og eiga að geta gert það betur með betri húsakynnum, verði rólegir og áhugalitlir, ef það fyrirkomulag kemst á, sem hér er stefnt að. — Ég mun þess vegna leggja fram í þessu máli till. til rökst. dagskrár, þess efnis, að þar sem þetta mál sé órannsakað af stjórnarinnar hálfu, sem hefur lagt það fram, og af því að þess stefna er í mótsögn við þá stefnu, sem er í þeim löndum, sem við þekkjum mikið, þá sé þessu máli vísað til hæstv. ríkisstj. til frekari athugunar og fyrirgreiðslu.