16.05.1947
Neðri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég vildi minna á tvennt. Fyrst það atriði, sem hv. þm. S-Þ. kom inn á, hvort nú lægi nokkuð á að setja löggjöf um skiptingu skemmtanaskattsins, og svo hitt, um rekstur þjóðleikhússins. Ég bendi hv. þdm. á það, að það er mjög þýðingarmikið að gera þetta nú, fyrst og fremst af því, að það er aðkallandi að fá hluta af skemmtanaskattinum til félagsheimila. En ef löggjöf er ekki sett um þetta nú, rýrir það mikið félagsheimilasjóð. Og hér hefur verið lögð fram till. um að hækka hlut félagsheimilanna af skemmtanaskattinum.

Viðvíkjandi þjóðleikhúsinu er það að segja, að það er rétt, að brugðið getur til beggja vona um það, hvenær þjóðleikhúsið verði tilbúið til rekstrar. Fyrir rúmum mánuði gerðu ýmsir sér vonir um, að það gæti orðið um næstu jól. Nú er víst óhætt að segja, að vegna gjaldeyrisörðugleika getur það ekki orðið. En vonandi líða ekki mörg misseri, þangað til þjóðleikhúsið er alveg tilbúið. Og rekstur þjóðleikhússins þarf mikinn undirbúning. Það er því óhæf aðferð að setja löggjöf um þjóðleikhúsið rétt áður en leikhúsið er opnað til afnota. Sú löggjöf verður að koma löngu áður, til þess að allur undirbúningur rekstrarins geti farið skipulega fram. Sá undirbúningur er mikill. Og við erum landnemar í þessum efnum, og þess vegna ríður okkur á því umfram allt að hafa tíma fyrir okkur í þessu efni, því að annars gæti allt farið í handaskolum, ef menn létu bíða til síðustu stundar að ákveða, hvernig þessum rekstri verði fyrir komið. Ef menn athuga þetta rólega, held ég, að menn verði mér sammála um, að því fyrr sem menn gera ákvarðanir um það, hvernig reka skuli leikhúsið. því betra.

Þá er hitt atriðið, að hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. Snæf. hafa lagt til, að breytt verði hlutfallinu á skiptingu skemmtanaskattsins, þannig að í stað 45% renni í félagsheimilasjóð 50% af skattinum, og 40% í rekstrarsjóð þjóðleikhússins í stað 45%. Það má segja, að ekki sé gífurlegur munur á þessu, sem þarna er farið fram á, og því, sem ætlazt er til eftir frv. En ég hef verið að reyna í nokkrar vikur að ganga á milli þeirra manna, sem vilja draga sem mest af þessu til félagsheimilasjóðs, og hinna, sem vilja draga sem mest af þessu að þjóðleikhúsinu. Og eftir að hafa gengið milli manna vegna þessa í margar vikur, lagði ég þetta hlutfall til, sem í frv. greinir. Ég var farinn að vona, að þetta gæti gengið þannig, að allir gætu orðið sammála um þessa miðlun. En það auðnast sýnilega ekki, því að tveir hv. þm. hafa lagt til annað. Og hv. þm. Borgf. hefur lagt til enn annað, sem kollvarpar þessu öllu, ef samþ. væri, og jafnast ekkert á við brtt. þeirra tveggja hv. þm., sem ég áður nefndi. Ég vildi nú halda mig við það, sem er í frv. um þetta. En ef samþ. brtt. hv. þm. N-Ísf. og hv. þm. Snæf. gæti orðið til þess, að stærri hópur hv. þm. yrði til þess að fylgja því, sem í þeirri brtt. er gert ráð fyrir, þá er langt frá því, að það raski í nokkru verulegu því, sem ég hef fengið sem árangur af þeim jafnvægisgangi, sem ég hef reynt að fara í þessu máli, og setti ég mig ekki upp á móti þeirri skiptingu. Þó að ég vildi helzt, að hlutföllin gætu haldizt eins og ég hef lagt til í frv., þá tel ég þetta ekki grundvallarröskun, og mundi ekki fylgja nein þykkja frá minni hendi út af því, þó að þetta væri samþ., sem í brtt. er farið fram á, ef menn þá fylktu sér um málið betur en áður, svo að því yrði þá augljóslega borgið. Ég skal ekkert segja um, hvort það verða 40% eða 45% af þessum skatti, sem þjóðleikhúsið þarf til síns rekstrar. Ég býst við, að reynt verði að koma rekstrinum á með svo mikilli ráðdeild sem unnt er, og svo verður reynslan að skera úr. Ef komast mætti af með minna, er það gott. En ef meira þyrfti með, verður að taka það til athugunar.