01.10.1947
Sameinað þing: 0. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (1)

Minning látinna þingmanna

Aldursforseti (BK):

Frá því að síðasta þing sleit hafa tveir alþingismenn látizt, þeir Garðar Þorsteinsson, 2. þm. Eyfirðinga, sem var einn margra, er fórust, þegar flugslysið mikla varð nálægt Héðinsfirði 29. maí síðastliðinn, 5 dögum eftir þinglausnir, og Ingvar Pálmason, fyrri þm. Sunnmýlinga, sem andaðist að heimili sínu í Neskaupstað 23. júní síðastl. — Um leið og þingið tekur nú til starfa vil ég minnast þessara manna nokkrum orðum.

Garðar Þorsteinsson fæddist 29. október 1893 að Víðivöllum í Fnjóskadal, sonur Þorsteins bónda og skipstjóra, síðar í Svínárnesi, Gíslasonar bónda í Hrísgerði í Fnjóskadal Jónssonar og konu hans Maríu Guðrúnar Guðjónsdóttur bónda á Þórustöðum í Kaupangssveit Einarssonar.

Garðar lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1917 og stúdentsprófi í Reykjavík 1920, settist síðan í lagadeild háskólans og lauk þar lögfræðiprófi 1925. Næstu 7 árin gegndi hann fulltrúastarfi í málaflutningsmannsskrifstofu hér í bænum, en 1932 varð hann hæstaréttarlögmaður og setti á fót sjálfstæða skrifstofu, sem hann stjórnaði síðan. Hann gerðist brátt jafnframt lögfræðistörfunum ötull og umsvifamikill fésýslumaður, átti m.a. þátt í ýmsum útgerðarfyrirtækjum og var annar aðaleigandi kvikmyndahússins Gamla Bíó í Reykjavík. Um skeið, 1933, var hann settur borgarstjóri í Reykjavík. Landskjörinn þingmaður var hann 1934–1942, en síðan 2. þm. Eyfirðinga til dauðadags og átti því sæti á Alþingi í samtals 13 ár.

Garðar Þorsteinsson var maður vel viti borinn. góður lögfræðingur og hygginn fjármálamaður. Á þingi var hann enginn málrófsmaður, en einbeittur í skoðunum og ljós og rökvís í ræðum, beitti sér fyrir fjölmörgum hagsmunamálum héraðs síns og var laginn að koma þeim fram, enda leitaði hann um þau samstarfs jafnt við andstæðinga sína sem flokksbræður. Síðustu árin var hann fyrri varaforseti neðri deildar og gegndi störfum aðalforseta í fjarveru hans síðustu vikur þingsins í vor sem leið, þegar stórmálin hrúguðust upp til umræðu og meðferðar í deildinni, en áformað var að slíta þinginu fyrir hvítasunnu. Oss þingmönnum er minnisstæður dugnaður hans þá og skörungsskapur í fundarstjórn og glöggskyggni í úrskurðum, samfara lipurð og sanngirni á alla bóga.

Vér hörmum sviplegt fráfall þessa manns á bezta aldri.

Ingvar Pálmason fæddist 26. júlí 1873 á Litla-Búrfelli í Ásum í Húnavatnssýslu, sonur Pálma bónda þar, síðar á Yztagili í Langadal, Sigurðssonar bónda í Rugludal Helgasonar, og konu hans Guðrúnar Bjargar Sveinsdóttur bónda á Yztagili Jónssonar. Eftir fermingaraldur fór Ingvar í vinnumennsku og var annarra hjú næstu 10 árin, fluttist á þeim árum, 1891, að Nesi í Norðfirði, reisti þar bú 1896 að Ekru og rak það til dauðadags, en lagði jafnframt stund á útgerð lengst af. Hann gerðist brátt einn helzti forvígismaður sveitunga sinna þar eystra í félagsmálum, og fólu þeir honum hvers konar trúnaðarstörf. Hann var hreppsnefndarmaður og síðar bæjarfulltrúi á Nesi í Norðfirði 1901–1938 og oddviti hreppsnefndar um langt skeið. Sýslunefndarmaður var hann í rúm 20 ár. Hann átti og þátt í stofnun ýmissa framfarafyrirtækja, svo sem Lifrarbræðslufélags Norðfirðinga árið 1905 og Íshúsfélags Norðfirðinga 1921, var formaður þeirri lengst af. Hann var og einn af stofnendum Sparisjóðs Norðfjarðar 1920 og átti upp frá því sæti í stjórn sjóðsins. Sunnmýlingar kusu hann á þing 1923, og var hann fulltrúi þeirra síðan til dauðadags eða í samfleytt 24 ár, en sat ekki á síðari hluta aukaþings 1946 né á aðalþinginu 1946–47 sakir heilsubrests. Aldursforseti þingsins var hann síðustu 10 árin. Af öðrum störfum, er hann hafði á hendi, má nefna, að hann var einn þriggja framkvæmdastjóra Síldareinkasölu Íslands 1928 –30.

Ingvar Pálmason var í senn ötull fulltrúi bænda og sjávarútvegsmanna. Hann átti sæti í sjávarútvegsnefnd öll þau ár, sem hann sat á þingi, og lét mjög til sín taka í margháttaðri löggjöf um fiskveiðimál, enda var hann þeim hnútum kunnugur af langri reynslu. Góðvild, rósemi, gætni og prúðmennska einkenndu alla framkomu hans. Í ræðum sínum á þingi hélt hann sér jafnan við efni málanna. Þó að hann væri fastur fyrir og hvikaði ekki frá skoðunum, var hann orðvar og óáleitinn, enda lenti hann sjaldan í illvígum orðasennum.

Sunnmýlingar eiga á bak að sjá mikilhæfum málsvara og forustumanni þar sem Ingvar Pálmason er, og öllum þykir oss skarð fyrir skildi. er þessi hógláti og virðulegi fulltrúi er horfinn úr þingsölunum, þar sem hann átti svo lengi sæti.

Ég vil biðja hv. þingmenn að votta minningu þessara látnu þingbræðra vorra virðingu sína með því að rísa úr sætum. – [Þm. risu úr sætum.]

Að þessu loknu mælti