15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð til hv. þm. Barð. til að vita, hvort hann getur öðlazt réttan skilning. Hann var að ávíta landbn. fyrir, að hún hefði fellt till. fyrir honum. Mér skildist á honum og hæstv. fjmrh., að þetta væri mikil yfirsjón. Ég vil benda á, að til eru ýmsar greiðslur úr ríkissjóði, sem hafa verður á fjárlögum án þess að upphæðin sé ákveðin. Við skulum taka sem dæmi, að ríkisstj. ákveði að verðlauna minkadráp með 30 kr. á hvert skott. Hvernig á nú að setja þetta og ákveða upphæðina án þess að vita, hve mörg skottin verða? Eins er það með jarðabótastyrk, enginn veit fyrirfram, hve miklar jarðabætur verða á hverju ári, og verður því upphæð sú, sem til þeirra er varið, alltaf áætlun. Enginn veit heldur fyrirfram, hve mikið þarf að greiða í verðlaun, þegar ég fer á nautgripasýningar, þegar ríkissjóður leggur fram 50 aura á hverja kú gegn sama framlagi úr sveitarsjóði. Í hittiðfyrra hlaut ekkert naut 1. verðlaun á Austurlandi, og hið sama skeði á Norðurlandi í sumar. Maður veit ekki fyrirfram, hvað mikið eyðist, hve oft maður þarf að greiða 100 kr. 1. verðlaun, og það sést ekki fyrr en svæðið er búið. Í sumum hreppunum eyðist ekki allt féð, annars staðar gengur það allt upp. Og greiðslur, sem ekki er hægt að segja, hve miklar verði, verða ætíð að vera áætlaðar, þótt leitt sé, og tekur engu tali að setja það eins og nú er í fjárlögum. Það á að vera regla Alþ. að gera fjárl. sem réttust og sönnust. En nú er vitandi vits sleppt því, sem allir vita, að á að vera þar, vitandi vits falsað í fjárl., til þess að þau líti betur út, og nefndi hv. þm. Barð. mörg dæmi þess og er ég honum sammála í því, að fjárl. eigi að vera sem sönnust. Suma útgjaldaliði verður að áætla, en það verður að vera sem næst hinu sanna.