18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. flutti hér brtt. á þskj. 573, þar sem farið er fram á heimild fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins til þess að gerast hluthafi í Hæringi h/f og taka þannig þátt í kaupum á síldarbræðsluskipi og síðan rekstri þess, og eiga þær að leggja fram 1250000 kr. í hlutafélag þetta. Eins og ég gat um í dag í umræðum um annað mál, tel ég nauðsynlegt, að þegar hið opinbera ver almanna fé til þess að gerast hluthafi í slíkum fyrirtækjum, í þessu tilfelli að hálfu, þá sé tryggt, að þeir, sem skipta við fyrirtækið, njóti fullkomins jafnréttis. Ég gerði því ráð fyrir því, að ef ráðh. leitaði þessarar heimildar, þá mundi ég flytja brtt. þess efnis, að öllum síldarútvegsmönnum væri jafnt gefinn kostur á að leggja síld í verksmiðjuna. Ég legg því fram brtt. þess efnis, að við till. fjmrh. bætist: „enda fái þeir síldarútvegsmenn, sem á hverjum tíma óska að skipta við þessa síldarbræðslu, jafnan aðgang til löndunar síldveiði sinni, svo sem verið hefur hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.“ Ég þarf í raun og veru ekki að fjölyrða um þetta. Ég lýsti skoðun minni á þessu í dag og hef meðal annars tekið það fram, að vegna þátttöku hins opinbera álít ég, að allir síldarútvegsmenn eigi að hafa þarna jafnan aðgang, eins og farið er fram á í till.

Varðandi þetta mál að öðru leyti, þá lýsti ég skoðun minni við 1. umr. og andmælti því, að horfið væri frá framkvæmd þeirra laga, sem frv. fjallar um, og vísa ég til þess, sem þá var sagt, að ég tel síður en svo rétt af Alþ. að taka aftur lög, sem það hefur sett fyrir einum tveimur árum, því að ég tel ekki, að neinar þær breyt. hafi orðið síðan, sem réttlæti það að kippa nú að sér hendinni um framkvæmd þessara laga.

Hæstv. fjmrh. andmælti í ræðu sinni þeirri skoðun, sem hæstv. 4 . landsk. lét í ljós um þetta, og hélt því fram, að gjaldgeta ríkissjóðs hafi breytzt síðan l. voru sett, og frestun á framkvæmd þeirra sé því nauðsynleg. En ég man nú ekki betur en á báðum þessum árum hafi orðið allverulegur tekjuafgangur og á síðasta ári um 30 millj. kr., og mér finnst því varla rétt að slá því fram, að gjaldgeta ríkissjóðs sé svo lítil orðin, að ekki sé hægt að framlengja lög, sem Alþ. setti fyrir tveimur árum, og það jafnþarfa lagasetningu og þessi er. Ráðh. hélt því fram, að það hefði ríkt allt of mikil bjartsýni, þegar lögin voru sett, og talaði um það, að með þessum l. væri svo langt gengið, að ákveðið væri að byggja yfir menn án þess að þeir bæru nokkurn verulegan hluta kostnaðarins. Þetta er rangt; menn áttu að bera kostnaðinn, en aðstoð ríkisins átti að vera sú að útvega mönnum lán, með hagkvæmum kjörum að vísu, svo að byggingarnar yrðu þeim ódýrari en ella. Kostnaðinn báru viðkomendur eftir sem áður. Það, sem sósíalistum þótti ábótavant, var einkum það, að ekki var tryggt, að lánsféð til framkvæmdanna væri útvegað, og það hefur sýnt sig, að ríkisstj. hefur ekki staðið við það að útvega lánin, og á því hafa framkvæmdir strandað að mestu. Að vísu hefur ríkisstj. tekið 5 millj. kr. að láni og hið sama inn í fjárl. til að greiða vaxtamismun, en framkvæmdir hafa þó ekki verið í samræmi við tilgang l. En þótt ekki hafi gengið betur en raun er á að framkvæma þessi lög, réttlætir það engan veginn, að hætt sé að framkvæma þau. heldur þyrfti nú einmitt að gera átök til þess að útvega meira lánsfé á grundvelli l. og útrýma heilsuspillandi íbúðum algerlega, því að það er þjóðarsmán, að fólk skuli þurfa að neyðast til þess ár eftir ár að hafast við í húsakynnum, sem að dómi lækna valda því heilsutjóni. Og ef svo væri, sem hæstv. fjmrh. heldur fram, að fjárhag ríkisins sé svo komið, að draga þurfi úr ýmsum framlögum, þá bæri fyrr að hefja þann sparnað á mörgum öðrum sviðum, áður en hætt er við framkvæmd slíkra laga sem þessara.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekar að umtalsefni það sem hæstv. ráðh. færði fram sem rök fyrir því að fresta framkvæmd þessara laga. Ég tel einsætt, þrátt fyrir ræðu hans, að þessi sparnaður sé engan veginn óhjákvæmilegur fyrir ríkissjóð, og þótt svo væri, bæri þá fremur að ráðast á garðinn annars staðar en gert er í 1. og 3. lið þessa frv. Mun ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en skila hæstv. forseta þeirri brtt., sem ég lýsti áðan.