18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 6. landsk. hefur nú lagt fram brtt. þá, er hann boðaði í dag, en það er brtt. við brtt. mína á þskj. 573. Ég verð nú að taka fram í þessu sambandi, að þetta félag, sem hér er um að ræða, er stofnað með sérstökum sáttmála á milli þeirra aðila, sem að því standa, og þátttaka ríkissjóðs er aðeins hugsuð einn fjórði af hlutafénu. Þessir aðilar höfðu myndað samtök, sín á þeim grundvelli, að skip þeirra útvegsmanna, sem legðu fram hlutafé, hefðu forgang um afgreiðslu hjá síldarvinnsluskipinu eftir nánari ákvæðum um það. Hins vegar batt ég hitt við borð, að á sumrum yrði þetta síldarverksmiðjuskip nothæft við norðurströndina, og þá fyrst og fremst í hvert sinn þar sem síld veiddist og lengst væri að flytja hana til verksmiðja í landi, og að þá hafi öll veiðiskip jafnan aðgang að því. Á þessum grundvelli geri ég ráð fyrir, að unnið sé að málinu, og því get ég ekki mælt með brtt. hv. 6. landsk. Ég vildi gjarnan, að ég gæti það, en ég hef ekki vald til þess. Ég þarf svo ekki að fjölyrða meira um þetta atriði, og inn á aðra hluti í ræðu hans er óþarfi að fara, enda var ég raunverulega búinn að svara því. En varðandi fyrsta lið 1. gr. frv., um framlög og lánveitingar til íbúðarhúsabygginga, þá vil ég bara benda á, að hv. sósflþm. þurfa ekki að halda því fram, að verið sé að eyðileggja l. um opinbera aðstoð við íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum með þessari breyt., heldur er framkvæmd þeirra lögð í vald fjárveitingavaldsins á hverjum tíma. En l. verða vitaskuld framkvæmd eftir sem áður, þegar hægt er. Þetta fjas um heilsuspillandi íbúðir, — ég geri ráð fyrir, að aðrir þm. hafi ekki síður hug á að bæta úr því, þó að þeir fjasi minna um það. Og það er fjárveitingavaldið, eða þingið sjálft, sem alltaf hefur beztu yfirsýnina yfir það, hvað hægt er að gera og hvenær það er hægt, og hér er aðeins verið að leggja framkvæmd téðra laga á vald þingsins, en síður en svo verið að eyðileggja lögin, eins og komið hefur þó fram í ræðum sósíalista.