18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég þarf ekki að bæta miklu við þær athugasemdir, sem hv. 6. landsk. gerði við ræðu hæstv. fjmrh., né heldur bæta við þau orð, sem ég sagði hér í upphafi. Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að það hafi orðið mikil breyt. á fjárgetu ríkissjóðs síðan þau l., sem hér um ræðir og lagt er nú til að verði að verulegu leyti felld niður, voru samþ., og að sömuleiðis hafi orðið mikil breyt. að öðru leyti á fjárhag landsmanna og lánsfjármöguleikum. Ég held það sé mjög fjarri því, að fjárgeta ríkissjóðs sé nokkru lakari en þegar þessi lög voru samþ. Og ég get ekki yfirleitt séð, að það hafi verið færð rök fyrir því, að ekki sé rétt, sem ég sagði, að breyt. sú, sem á hefur orðið, sé sú, að afurðir okkar hafi selzt með hækkandi verði í fyrsta lagi. Og í öðru lagi, að það hefur verið aflað nýrra framleiðslutækja til landsins, sem hafa fært þjóðinni mikinn auð. Og við þetta má svo bæta því, að það hefur orðið stórkostlegur tekjuafgangur á fjárlögunum. Hvað lánsfjármöguleika snertir, var það alveg eins vitað þá eins og nú, að það var verið að festa fé í ýmsum fyrirtækjum, þannig að það, sem ekki var hægt að sjá fyrir þá, það hefur ekki komið fram nú. Þegar lögin voru sett, var alveg fyrirsjáanlegt, að það var mikið fé fest í ýmsum fyrirtækjum. Og það hefur ekki neitt nýtt skeð hvað þetta snertir. Ég er líka þeirrar skoðunar, að það sé til nóg fjármagn í landinu. Form. fjvn. nefndi nokkur dæmi til að sanna þetta, sem ekki hafa verið hrakin, og það er hægt að nefna fjölmörg fleiri dæmi. Það, sem þarf að gera, er að finna leið til að bjóða þessu fjármagni út. En það er enginn vandi leystur með því að leysa ríkisstj. undan skyldum, eins og fjmrh. leggur til. Það verður aðeins til þess, að ekki verður reynt að leysa vandann. Hæstv. ráðh. neitaði því ekki, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða. Ef svo er, hvers vegna á þá Alþingi að „leysa vandann“ innan gæsalappa á þann hátt að leysa ríkisstj. undan þeirri skyldu að reyna það' Ég skil það nú ekki heldur, að það geti neinn neitað, að hér er um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að það verði að leysa. Það er skylda Alþ. og ríkisstj. að leysa málið. því hefur ekki verið mótmælt, að hér í Rvík einni saman eru allt að því þúsund heilsuspillandi íbúðir. Hvernig er hægt að skorast undan að leita allra ráða til að leysa þennan vanda? Hæstv. ráðh. sagði, að það væri hinn mesti misskilningur, að hann sjái ekki nauðsyn þessa, og að það sé verið að gera slíkt að gamni sínu að draga saman seglin að því er þetta snertir. Nú, hvernig stendur þá á því, að þessi sami ráðh. ræðst þarna á fyrst, þegar hann kemur með till. um að spara fé ríkissjóðs? Hvers vegna dettur honum þetta fyrst í hug af öllu, ef hann sér nauðsynina eins vel og hann vill vera láta? Hann sagði, að ekki væri um að ræða annað en að framkvæmdin yrði lögð í hendur fjárveitingavaldinn á hverjum tíma. En má ég spyrja: Ef l. um byggingu íbúða í kauptúnum og kaupstöðum er fullnægt nú, hvaða ástæða er til að samþ. þetta nú, að leysa ríkisstj. undan skuldbindingum að því er þetta snertir á næsta ári og í framtíðinni? Er ekki nógur tími að setja l. þá? Hvaða tilgangur er í því að leggja kapp á í þinglok að samþ. þetta? Ég sé ekki annan tilgang en þann, að hér sé um stefnu að ræða. Það er ekki verið að bjarga fjárhag ríkissjóðs í ár með þessu ákvæði. Það er ekki hægt að skýra þetta á annan hátt en að hér sé um stefnu að ræða. Og um þessa stefnu verða greidd atkv. hér í deildinni.

Það má segja nokkuð svipað um 3. liðinn. Ef það er rétt, að hér sé aðeins verið að leggja til, að í þetta eina skipti skuli fresta greiðslu á einnar millj. kr. framlagi til byggingarsjóðs, þá mundi þetta þýða það sama og að ríkissjóður tæki einnar milljónar kr. lán hjá byggingarsjóði til tíu ára, eins og bent var á í upphafi þessara umr. Þetta er nú næsta broslegt. Á þetta nú að vera aðalráðstöfunin til að bjarga fjárhag ríkissjóðs? Hér er um slíka smámuni að ræða, að slíkt getur ekki verið tilgangurinn. Þetta er ekki hægt að skýra á annan veg en þann, að um stefnu sé að ræða, stefnu gegn þessum þætti laganna, sem ég tel þó þann merkasta í l. — og einhvern merkasta í íslenzkri landbúnaðarlöggjöf um langan aldur.

Hæstv. ráðh. sagði, að tekjur ríkissjóðs hefðu vissulega ekki verið of lágt áætlaðar, heldur meira að segja það gagnstæða. Ég veit ekki, eftir hvaða reglum hæstv. ráðh. hefur áætlað tekjurnar. Ég veit t.d. ekki, hvaða ástæða er til að áætla, að tekju- og eignarskattur verði 4.4 millj. kr. lægri 1948 en reyndist s.l. ár, o.s.frv. En svo mikið er víst, að bæði minni hl. fjvn. og form. hennar telja, að tekjurnar séu of lágt áætlaðar. Minni hl. hefur fært fyrir því gild rök og form. margendurtekið, að hann telji ekki neina nauðsyn vegna afgreiðslu fjárl. að gera neinar sérstakar ráðstafanir.

Þá var hæstv. ráðh. að minnast nokkuð á þau atriði, sem ég nefndi sem dæmi þess, sem fyrr mætti gripa til að spara en snerta þessa nauðsynlegu löggjöf, sem hér um ræðir og lagt er til, að felld verði niður. Hann minntist á dómgæzlu og lögreglustjórn o.s.frv., liði, sem hafa hækkað á síðustu fjárl. samtals um hátt á þriðju milljón kr. Ráðh. svaraði, að til þess að spara á þessum liðum þurfi lagabreyt. Hvers vegna er það? Eru þessar hækkanir til komnar vegna lagabreytinga? Mér er ekki kunnugt um það. En ef þessir liðir geta hækkað án sérstakra laga um allt að 3 millj., hvernig stendur þá á, að ómögulegt er að lækka þá nema með sérstökum lögum? Í öðru lagi vil ég spyrja að því, hvort það sé ekki lagabreyt., sem hér er farið fram á, til þess að ná þessum sparnaði, bæði að því er snertir fyrsta liðinn, l. um íbúðarhúsabyggingar í kauptúnum og kaupstöðum, og l. um landnám og nýbyggðir. Hvað er voðalegra, þó að það þyrfti að samþ. l. til að spara á þessum liðum, sem ég áður nefndi? Sama er að segja um fjárhagsráð, sem hæstv. ráðh. minntist ekki á, en hv. þm. Barð. hefur nú haldið um langa ræðu. Það þarf lagabreyt. og það er einfalt. Það er ekki annað en að samþ. till. hv. þm. Barð., og með henni mun ég greiða atkv. Enda þótt ég sé ekki ánægður með það fyrirkomulag, sem hann leggur til, tel ég það stórkostlega framför.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ríkissjóður hefði orðið fyrir því að þurfa að borga 20 millj. kr. vegna fiskábyrgðarlaganna. (Fjmrh.: Meira en það.) Meira en það, bætir ráðh. við nú. Nú er það svo í fyrsta lagi, að það er mjög mikill ágreiningur um þessa tölu, og kunnugir fullyrða, að þetta geti ekki verið rétt, upphæðin sé miklu minni. Og ég veit ekki til, að fjvn. hafi fengið neina sundurliðaða skýrslu um þessar greiðslur. En svo er líka fullkomlega fyrir þessu séð. Á núgildandi fjárl. er gert ráð fyrir þessum greiðslum. En það skyldi þó aldrei vera, að í þessum eina lið sé svo mikil skekkja, að það muni jafnmiklu og þeim sparnaði, sem hér er lagður til, eða jafnvel meira? Ég get vitaskuld ekkert um það sagt, en hæstv. fjmrh. ætti að vita það. En ég endurtek, að kunnugir fullyrða, að upphæð þessi sé allt of hátt tilgreind. Ég veit ekki til, að komið hafi neinar sundurliðaðar skýrslur, og þess vegna leyfi ég mér að efast stórlega, að þessi tala sé rétt.