22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Lúðvík Jósefsson:

Það eru hér nokkur atriði, sem ég vildi ræða, þar sem mér sýnist frv. einkennilegt og er því mjög andvígur. Ég vildi því beina til hæstv. fjmrh. nokkrum fyrirspurnum.

Það er þá fyrst það, að í 2. tölul. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að gjöld útgerðarinnar vegna skipaeftirlitsins hækki allverulega. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að hækka þessi gjöld. Sjávarútvegurinn á í vök að verjast, og stórmál hafa verið fyrir þinginu honum til hjálpar, en svo er á sama tíma borið fram frv., sem þyngir á honum álögurnar. Ég býst við, að því verði til svarað, að skipastóllinn muni standa undir þessu, en það er bara svo, að þegar saman er safnað, munar útveginn um það, og það er vert, að hv. þm. geri sér ljóst, að rekstrarkostnaður útgerðarinnar hefur hækkað alltilfinnanlega á þessu ári. Vaxtahækkunin frá áramótum hefur íþyngt útveginum allverulega, því að á honum hvíla svo miklar lausaskuldir. að útgjöldin hækka tilfinnanlega. Þá var einnig samþ., að veituskatturinn næði til margra vara. er útvegurinn þarf. Síðan um áramót hafa margar vörur hækkað í verði, eins og t.d. olía. Nú er enn í þessu frv. gert ráð fyrir því að hækka útgjöld útvegsins, þótt ríkið í fjölda mörgum öðrum greinum greiði beint kostnaðinn við almennt öryggiseftirlit. Mér þykir þetta allskrítið og vildi spyrja hæstv. ráðh., hvort hann telur þetta skipta svo miklu. Það er rétt, að menn geri sér það ljóst, að svo þröngt sem var fyrir dyrum útgerðarinnar um síðustu áramót, er nú enn þrengra fyrir dyrum af þeim ástæðum. sem ég hef getið um.

Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins sé heimilað að fengnu samþykki sjávarútvegsmálaráðherra að leggja fram 1250000 kr. hlutafé í Hæring h/f til kaupa og rekstrar síldarbræðsluskips. það hefur verið tilkynnt í þessu sambandi, að nokkrir útgerðarmenn fái forgangsrétt um síldarlöndun. Það er því vert að staldra við í sambandi við þetta ákvæði. þar sem ákveðið er, að síldarverksmiðjurnar leggi mest fram. Það hefur ekki þekkzt áður, að ríkið væri þátttakandi og nokkrir útgerðarmenn hefðu forgöngu fram yfir aðra. Nú mun það vera svo, að nokkrir útgerðarmenn í Rvík hafa þarna notað aðstöðu sína, og sagt er, að mönnum hafi verið synjað um að gerast félagar. Svo er það vitað, að enn eru miklu fleiri. sem ekki hafa handbært fé og hafa því ekki geta orðið þátttakendur. Þetta tekur náttúrlega engu tali. Það kemur ekki til mála, að verksmiðjurnar leggi fram fé, ef þessi skilyrði eiga að gilda. Ef verksmiðjurnar eiga að leggja fram þetta fé, verða allir útvegsmenn að hafa jafnan rétt, og forgangsréttindi geta ekki komið til greina. því síður getur slíkt komið til mála, þar sem um svo mikla ríkisíhlutun er að ræða, en nú liggur fyrir þinginu frv. um erlent gjaldeyrislán í þessu skyni. Það er líka kunnugt, að útgerðarmenn á Norðurlandi, Austfjörðum og Vesturlandi hafa mótmælt þessu og talið, að á þeim væri brotinn réttur. Ég vil skora á hæstv. ráðh. að sjá til, að þessu ákvæði verði breytt. Það er hægast að setja inn þau skilyrði, að því aðeins sé ríkisverksmiðjunum þetta heimilt, að öllum sé veittur sami réttur að leggja inn.

Um aðra liði þessa frv. þarf ég ekki að vera margorður á þessu stigi. Ég vil þó lýsa yfir, að mig furðar á, að hér skuli koma fram frv., sem gerir ráð fyrir að fresta greiðslu á einni millj. kr. í sambandi við lög, sem nýlega hafa verið samþ. hér á Alþ. um framlög til nýbyggða í sveitum, og gerir ráð fyrir því á þann hátt, sem gert er hér í þessu frv., sem sagt þannig, að frestað verði greiðslu 1 millj. kr. í 10 ár, eða sem jafngildir því, að ríkið taki að láni hjá þessum sjóði eina millj. kr. til 10 ára. Maður hefði getað skilið þetta, ef þetta hefði verið á þá lund, að hér hefði verið tekin 1 millj. kr. á ári um verulega langt tímabil. Þá hefði kannske verið hægt að réttlæta þetta með því, að hér hefði verið um svo mikla fjárþörf ríkisins að ræða, að ríkið hefði þurft að leggja á sig þann krók. En ég get ekki fallizt á, að það séu nein rök fyrir því að taka 1 millj. kr. úr þessum sjóði í eitt ár til þess að eiga að skila henni aftur eftir 10 ár. Mér sýnist þetta aðeins vera gert til þess að skerða þessi lagaákvæði, sem þarna hafa verið sett, til þess að draga nú á fyrstu árunum eftir að lög þessi hafa verið sett úr þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar hafa verið og þessi lög áttu að styðja. Og líklega ber þetta að skoða sem upphafið að því, að meiningin sé að hverfa alveg frá framkvæmd þessara laga og höggva þau kannske að fullu og öllu á næsta ári.

Þá verð ég að segja, að það ákvæði hér í þessu lagafrv., sem gerir ráð fyrir að fresta alveg um óákveðinn tíma ákvæðum laga um útrýmingu á heilsuspillandi íbúðum, það þykir mér líka al ég stórfurðulegt. Þetta voru lagaákvæði, sem sett voru rétt fyrir kosningar, þar sem fólkinu var lofað með lögum frá Alþ., að það skyldi fá að njóta ákveðinna hlunninda í sambandi við þessi nauðsynlegu mál. Hins vegar er kunnugt, að þessi lög hafa enn lítið náð að koma til framkvæmda, vegna þess að ríkið hefur ekki lagt fram fé í þessu skyni nema að sáralitlu leyti. En svo, þegar von er á því, að l. geti farið að koma til framkvæmda, þá á að kippa þeim til baka. Þetta hefur sem sagt verið sýnd veiði, en ekki gefin fyrir þá aðila, sem þessara lagaákvæða áttu að njóta, því að þegar þetta átti að fara að koma til framkvæmda, þá á að svíkja gefnu loforðin og fresta framkvæmd l. þessara.

Ég geri að vísu ráð fyrir, að þetta frv. gangi til n. og gefist þá væntanlega betri tími til að ræða það hér nánar síðar. En ég vildi láta þessar aths. koma hér fram strax við 1. umr. Og alveg sérstaklega vildi ég leggja áherzlu á það, að ákvæðin í 6. tölul. frv., í sambandi við síldarbræðsluskip, verði tekin til athugunar í þeirri n., sem fær málið til meðferðar.