22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg, sérstaklega varðandi það atriði, sem hefur spunnizt inn í umr. varðandi fjárframlag til h/f Hærings til að eignast og reka síldarbræðsluskip.

Þegar þeir aðilar, sem að þessu máli hafa staðið, voru að undirbúa þetta mál, komu fram tvö sjónarmið: Annars vegar frá Síldarverksmiðjum ríkisins, sem lögðu fram þá ósk sína, að skipið yrði leigt verksmiðjunum vegna síldveiða fyrir norðan land a.m.k. til að byrja með um 5 ára skeið. En strax á fyrsta stigi málsins, þegar verið var að ræða við útgerðarmenn um hugsanlega möguleika á, að Reykjavíkurbær og ef til vill fleiri aðilar legðust á eitt til að koma upp þessari verksmiðju, þá komu þau sjónarmið fram, að eðlilegast væri, til að fá undirtektir í þessu efni hjá útgerðarmönnum, að þeir, sem vildu leggja fram hlutafé í þetta fyrirtæki, hefðu þann forgangsrétt til löndunar, sem um hefur verið talað. Um þetta var rætt á fyrsta stigi málsins. Mönnum var ljóst, að slíkur réttur hafði ekki tíðkazt fyrr við síldarverksmiðjur, en þó var enginn ágreiningur um þetta atriði. Það var upplýst af útgerðarmönnum þegar í upphafi, að hver, sem gerðist hluthafi, fengi slíkan forgangsrétt, og það hefur enginn orðið frá að hverfa, sem um það hefur beðið. Það komu fyrst nokkru fleiri en gert var ráð fyrir og voru settir á biðlista, en þó fór svo, að allir komust að, sem þess óskuðu.

Þá má segja eins og Þjóðviljinn gerir, að þessi verksmiðja sé stofnuð aðeins fyrir þá ríku. En ég vil taka það fram, eins og hefur líka verið bent hér á áður, að það er ekki fyrr en alveg nú nýlega, að þessi úlfaþytur hefur komið upp. Um það var rætt, að bátar legðu fram ýmist 15 eða 30 þús. kr. í hlutafé eftir stærð bátanna, en þyrftu ekki að greiða nema 1/3 af hlutafénu á þessu ári, en gert ráð fyrir, að hitt mætti greiðast í afla á næstu tveimur vertíðum. Það var gert ráð fyrir, að þeir bátar mundu lítt færir um að standa undir sínum útgerðarkostnaði, sem ekki væru aflögufærir um 5–10 þús. kr. í hlutafé, enda hefur ekki heyrzt, að neinum hafi þótt boginn með þessu móti of hátt spenntur, þegar bátar þurftu aðeins að greiða 5–10 þús. nú, en hitt mátti greiðast í afla á næstu tveimur vertíðum, enda hreyfði ekki fulltrúi frá nokkrum flokki í bæjarstjórn Rvíkur andmælum. Ég held því, að hv. þm. þurfi ekki að kippa sér upp við það, þó að þessa síðustu daga hafi verið gerður þessi úlfaþytur af hálfu sósíalista og síður en svo, að nein þörf sé að stinga við fótum.

Það var einkum þetta atriði, sem ég vildi víkja að og undirstrika það, sem fram hefur komið í þessu sambandi, að jafnframt þessari nýju verksmiðju er á ferðinni mikil stækkun á verksmiðjunum við Faxaflóa, og gerir það að sjálfsögðu þennan forgangsrétt allt annan og miklu minni en mönnum kann að sýnast og vilja halda fram, þegar þeir eru að sýna fram á, að verið sé að útiloka suma báta frá síldveiðum hér syðra. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Ísaf., að það eru 15 þús. mála afköst ráðgerð á næstu vertíð fyrir utan það, sem þetta skip kann að koma til með að bræða.

Þá er eitt annað atriði í þessu frv., en það er frestunin á framlögum til byggingarmála. Ég verð að segja, að þetta ákvæði hlýtur að fela það í sér, að það geti haft veruleg áhrif á aðstöðu bæjarfélagsins og valdið miklum breyt. á þeim áætlunum, ráðagerðum og stefnu, sem bæjarfélögin hafa haft. Mér er ekki kunnugt, að hve miklu leyti bæjarfélög hafa hagnýtt sér þetta, en þau munu ekki vera mörg. Rvík hefur gert það í nokkuð stórum stíl. Er nú verið að vinna að byggingum og gert ráð fyrir að fá fé til þeirra samkv. þessum l. Hér vil ég sérstaklega taka fram, að áætlanir og stefna bæjarstjórnarinnar á þessu ári var sérstaklega miðuð við það, að enginn misbrestur yrði á fjárframlögum á þessu sviði. Ég get að vísu fullkomlega skilið þær ástæður, sem koma fram hjá hæstv. fjmrh. Fjárhagsástæður geta verið svo, að það sé ókleift fyrir ríkissjóð að standa við skuldbindingar sínar, nema þær séu á hverjum tíma takmarkaðar við það, sem stendur í fjárl. Þetta kemur auðvitað mjög illa við bæjarfélögin, en þó er það hót í máli, að þetta kemur ekki til greina í sambandi við þær byggingar, sem nú eru í smíðum, því að ríkissjóður stendur áfram við skuldbindingar sínar gagnvart þeim húsum, sem nú er farið að vinna við. Þetta kemur því illa við þau bæjarfélög, t.d. Rvík í þessu sambandi, og af þeim sökum mun ég ekki geta fylgt þessum brtt., sem hér er gert ráð fyrir, þó að ég skilji þær ástæður, sem fram eru fluttar.