22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram, að mig furðar ekki á því, þó að hæstv. ríkisstj. hafi flutt frv. eins og það, sem hér liggur fyrir. Öllum hv. þm. er það ljóst, að á undanförnum árum hafa ríkissjóði verið bundnar ýmsar þungar fjárhagslegar byrðar, m.a. með lagasetningu, og verður það ekki sízt ljóst, þegar kemur til afgreiðslu fjárlaga og gerðar eru tilraunir til þess að færa niður fjárútlátin. Þar sem fjárveitingavaldið hefur nú rekið sig á það, að erfitt er að skera niður á fjárlögum, þá hefur það farið þá leið, sem getur að líta í frv. því, sem hér liggur fyrir. Enda þótt ég skilji þessa viðleitni og nauðsyn, þá kemst ég ekki hjá því að hafa sérstöðu um eitt atriði frv. sérstaklega, og ég vil benda á það, hversu raunverulega er farið þar inn á hæpna braut. Það, sem ég á hér við, er 1. liður 1. gr. frv., þar sem lagt er til, að fjárframlög og lánveitingar af hálfu ríkissjóðs til sveitarfélaga komi því aðeins til framkvæmdar, að sérstök heimild til þess sé veitt í fjárlögum hverju sinni. Þessi löggjöf var sett á þingi 1946 og var um aðstoð ríkissjóðs við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Þessi lagasetning vakti miklar vonir í hugum manna. hæði í kaupstöðum og kauptúnum. Þarna kom fram skilningur á hinni miklu þörf, sem víðast hvar er ríkjandi á bættu og auknu húsnæði. Með l. var gripið til róttækra og markvissra ráðstafana, sem gáfu fyrirheit um, að snúizt væri með festu og djörfung að útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og er 3. kafli l. glöggt vitni um það. Í 27. gr. l. er sú skylda lögð á bæjar- og sveitarstjórnir að ráða bót á húsnæðisvandræðunum, og stendur í gr., að til þess skuli þær njóta aðstoðar ríkisins. Í samræmi við þetta voru bæjar- og sveitarstjórnir skyldaðar til að láta fara fram rannsókn á heilsuspillandi íbúðum og gera till. um úrbætur. Í 31. gr. I. voru svo ákvæði um, hvernig ríkið skyldi hlaupa hér undir bagga, og er það á þá lund, að ríkissjóður láni sveitarfélögum, sem byggja íbúðir samkv. l. þessum, 75% af byggingarkostnaði. Lán þessi skulu veitt til 50 ára með 3% ársvöxtum. Ríkissjóður leggur enn fremur fram 10% af byggingarkostnaðinum sem vaxtalaust lán til 50 ára. Lán þessi eru afborgunarlaus fyrstu 15 árin, en greiðast upp á 35 árum. Það var því engin furða, þótt bæjar- og sveitarfélög hygðu til hreyfings í þessum málum, og það er óþarft að rekja hina brýnn nauðsyn á þessum lögum. Öllum hv. þm. er kunnugt, hversu ástandið í húsnæðismálunum er slæmt í þorpum og bæjum víða um land. Hundruð manna lifa við svo ófullkomið húsnæði, að það hæfir fremur skepnum en siðuðum mönnum. Ég hef sjálfur séð slíkar íbúðir. Ég hef séð stórar fjölskyldur kúldrast í einni torfbaðstofu, þar sem allt er gert, eldaður matur, sofið, borðað og unnið. Þessar myndir eru svo margar, að ekki var að furða, þó að löggjöfin legði skyldur á bæjar- og sveitarfélög og þó að það kostaði ríkissjóð nokkrar fórnir. Ég hygg, að þessi löggjöf hafi verið einhver þarfasta ráðstöfunin, sem sett var á þinginu 1946. Ég fagnaði henni mjög og batt við hana miklar vonir.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að framkvæmdum þeim, sem gerðar hafa verið samkvæmt l. þessum, en þær eru nú á þriðja ári.

Segja má, að eitt bæjarfélag hafi aðallega ráðizt í framkvæmdir í þessu efni, en það er Rvík. Þar hafa nú verið byggðir tugir og jafnvel hundruð íbúða. Ég hygg, að ég fari þar með rétt mál, þó að hv. 6. þm. Reykv. gerði í þessu aths. við orðið „hundruð“. Það er áreiðanlega hundrað eða hundruð íbúða með þeim, sem eru í smiðum. Það hefur aðallega verið höfuðborgin, sem bolmagn hefur haft til framkvæmda. Hvort tveggja er, að hér er ekki aðeins þörf til endurbóta á byggingum, heldur krefst hinn öri vöxtur borgarinnar stóraukins húsakosts. Fyrir utan þessar byggingar hefur verið ráðizt í margar fleiri framkvæmdir. — Segja má, að þó að Rvík hafi haft þörf fyrir þessa löggjöf, þá er hennar þörf í þessum efnum þó ekki eins rík og margra annarra staða á landinu, en ég er þó ekki að deila á það, þó að Rvík hafi hagnýtt sér þessi lög, því að vissulega hafði hún þörf fyrir, að leyst væri úr húsnæðisvandræðunum.

Utan Rvíkur er aðeins einn kaupstaður, sem hagnýtt hefur sér l. að mun, en það er Ísafjarðarkaupstaður. Svo að segja um leið og l. voru sett 1946, fól bæjarstjórnin heilbrigðisnefnd að rannsaka íbúðir í bænum. Rannsóknin fór fram á skömmum tíma, og leiddi hún í ljós, að í bænum voru 32 heilsuspillandi íbúðir. Í samræmi við þetta gerði bæjarstjórnin heildaráætlun um, hvernig úr þessu yrði hætt, og fjallaði áætlunin m.a. um það, að byggðar skyldu 32 íbúðir. Áætlun þess9 var svo lögð fyrir þm. Ísaf., en hann hafði fullan skilning á málinn. Ég hygg, að ég fari þar rétt með, að áætlunin hafi verið samþ., og svo hóf Ísafjarðarbær framkvæmdir með því að ráðast í byggingu á 12 þriggja herbergja íbúðum fyrir nm 80 manns. Framkvæmdir þessar hafa haldið áfram, og gert er ráð fyrir, að íbúðirnar verði tilbúnar á þessu ári eða því næsta.

Fjárhagsleg hlið málsins er sú, að bærinn hefur fengið 400 þús. kr. úr ríkissjóði til þessara framkvæmda. Þó að segja megi, að þetta sé bráðabirgðalán, þar sem ekkert heildarlán hefur fengizt, þá hefur það orðið að samkomulagi að fresta fjárgreiðslum í þessu skyni, þar til heildarlán hefur fengizt. Þessar 400 þús. samsvara ekki því fé, sem ríkissjóður átti að greiða, svo að bærinn hefur borgað meira en sinn hluta með beinum fjárframlögum. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður greiði þetta eins og lög standa til, og ég lít þannig á, að þótt frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá yrðu aldrei látnar falla niður greiðslur úr ríkissjóði til þessara bygginga, sem hafnar eru. Ég veit þó, að það er ætlun ráðh., að svo verði, en ég tel allsendis óverjandi af ríkinu að ætla að hlaupast þannig frá þessu. Það eru aðeins tvö bæjarfélög, sem í þetta hafa ráðizt samkvæmt l., og það getur ekki verið álit þingsins, að skilja eigi þannig við það.

Með þessu er þó ekki öll sagan sögð. Ég veit um sveitarfélög, sem ráðast vildu í framkvæmdir samkvæmt lögunum. Ég veit t.d. um eitt sveitarfélag á Vesturlandi, sem ætlaði að ráðast í framkvæmdir á þessu ári, ef allt hefði verið með felldu. Á þessum stað hafa ekki verið byggð ný hús í tvo áratugi, og meginþorri fólksins lifir þar við ófullnægjandi húsnæði. Frá þessum framkvæmdum yrði að hverfa, ef þessi liður frv. yrði samþ. Annan stað veit ég um, þar sem svipað stendur á.

Ég vil nú benda á það, að þótt aðeins Rvík og Ísafjörður hafi ráðizt í framkvæmdir, eru það e.t.v. ekki endilega þeir staðir, sem mesta þörf hafa fyrir að hagnýta sér umrædd l., og meira að segja hafa þeir meiri möguleika til að leysa þennan vanda en margir aðrir staðir, því að þótt til séu hinar herfilegustu íbúðir bæði í Rvík og á Ísafirði, þá held ég samt, að vandfundnar séu aðrar eins gripastíur og þær, sem getur að líta í smáþorpunum. Hinir margumræddu Pólar hér í Rvík mundu jafnvel kallast gott húsnæði þar. Það vill svo til, að ég hef kynnt mér Pólana, og ég hygg, að þeir, þótt slæmir séu, geti kallazt salarkynni samanborið við sumt húsnæðið í þorpunum. Það væri því illa og ómaklega að farið, ef kippt væri nú í taumana hvað þessi lög snertir og skrúfað fyrir fjárveitingar, einmitt þegar hinir smærri staðir, sem stöðugt berjast við Reykjavíkurþrána og reyna að halda í fólkið, ætluðu að fara að hefja framkvæmdir og hagnýta sér með því sett lög. Ég bygg, að þessi þróun væri eins öfug og hugsazt gæti, ef 1. liður 1. gr. þessa frv. yrði samþ. Og það liggur við, að ég álíti, að h hefðu verið betur ekki sett, ef afnema á þau nú á þessu stigi málsins.

Ég byrjaði á að lýsa yfir því, að ég skildi nauðsyn ríkisstj. á að létta nokkrum fjárútlátum af ríkissjóði. Ég viðurkenni ekki, að þetta sé fær leið að leggja til, að þessi lög verði afnumin. Stj. verður að byrja á öðrum enda en þessum, ef hún ætlar að spara, því að það er engu betra að setja ákvæði, sem fresti þeim, heldur en að afnema þau algerlega. Ég geri ekki ráð fyrir, að á næstu fjárlögum verði gefin heimild til að framkvæma þessi lög. Þess vegna þýðir þessi liður frv. aðeins afnám þessa kafla l. Ég get því ekki annað en verið á móti þessum lið frv. og flyt brtt., að 3. liðurinn falli burt úr frv. Ég vil benda á, að þetta er ekkert annað en brigðmæli við þær bæjarstjórnir, sem ráðizt hafa í aðgerðir til útrýmingar slæmum íbúðum. Tvær bæjarstjórnir, bæjarstj. í Rvík og bæjarstj. á Ísafirði, höfðu gert áætlun um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Á Ísafirði var fyrirhugað að byggja 32 íbúðir, og hafði samþykki ráðherra fengizt fyrir því. Ég held því, að þótt þessum bæjarfélögum sé leyft að halda áfram byggingum, séu brotin á þeim gefin loforð. Ég vil í þessu sambandi segja það, að það vakti miklar vonir hjá Ísfirðingum, að þessi rannsókn var hafin, og þessu var tekið jafnvel af heilbrmrh. og þm. þeirra, og hafa bæjarbúar ríka ástæðu til að ætla, að fulltrúi þeirri muni framvegis styðja að því, að þessi áætlun verði haldin. Þess vegna vænta Ísfirðingar þess, að þm. þeirra stuðli að því, að ekki verði tekið með vinstri hendinni það, sem sú hægri gaf. Ég vænti því þess, að hæstv. ríkisstj. fylgi því ekki fast fram, að þessi liður verði samþ. Það er ýmislegt, sem er heppilegra að spara, og þetta er að ráðast á garðinn þar. sem hann er lægstur. Og ég held, að ríkisstj., sem sýnt hefur áhuga á að flytja fólk úr heilsuspillandi íbúðum, hreysum og grenjum, geti ekki stutt þetta. Ég vildi eiga þátt í því. að fundinn yrði nýr tekjustofn í stað þess að fresta þessum lögum um óákveðinn tíma, sem er raunar það sama og afnema þau. Ég veit að vísu, að það eru margir pinklar á Skjónu, en ef um mikil nauðsynjamál er að ræða, er lengi hægt að finna tekjustofna sem gætu staðið undir slíku. Og ég hef ekki orðið var við mikla tregðu á því á Alþ. að leggja skattabagga á þegnana og jafnvel þótt um minni vandamál væri að ræða en leysa húsnæðisvandamálið í bæjum og byggðum. Eins og þetta frv. var upprunalega lagt fram, var ekki gert ráð fyrir því, þó að ríkissjóður losaði sig við sínar skyldur, að sveitarfélögin væru ekki leyst af þeirra skyldum að vinna að byggingarframkvæmdum. Þessu sé ég, að hv. Ed., hefur breytt, og er það nokkru skaplegra. En mér er spurn: Hafa bæjar- og sveitarfélög beiðzt þess að vera leyst af þessari skyldu? Hafa einstök sveitarfélög beðið hæstv. ríkisstj. þess? Ég held varla. En ef ríkisstj. ætlar að skjótast undan sinni skyldu, er það sjálfgert fyrir hina. Mér finnst, að hæstv. Alþ. megi ekki fara þessa leið, sem hér er lagt til. Ég held, að það verði samkvæmt eðli málsins og sóma síns vegna að láta af þessari ætlun sinni. Á árunum 1944–46 voru sett mörg nytsöm lög, sem lengi munu í heiðri höfð, um framfarir og umbætur með þjóðinni, sem þjóðin mun sækja styrk og þrótt til. Ég held, að það sé ekki tími til að ganga til baka í þessum efnum og ekki heppilegt að ráðast á garðinn þar, sem hann er lægstur. Þess vegna vona ég, að brtt. frá mér verði samþ. og liðurinn, eins og hann er nú í frv., verði felldur niður.