22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hefði talið mjög æskilegt, að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur, þegar ég ræði þetta mál, og vildi ég biðja hæstv. forseta að láta athuga, hvort ráðh. væri svo upptekinn, að hann mætti ekki vera að hlýða á mál mitt. (Forseti: Ég skal gera honum aðvart). Ég vildi vita, hvort líkindi væru til þess, að ráðh. mundi koma. (Forseti: Hæstv. ráðh. hefur fengið skilaboðin).

Ég get vel skilið, að hæstv. ríkisstj. leggi fram frv. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. og telji sér nauðsyn að fara fram á við hæstv. Alþ. að fá heimild til ýmissa sérstakra ráðstafana. En ég hefði haldið, að þær ráðstafanir, sem væru nauðsynlegar nú, væru af öðrum toga spunnar en þær, sem í þessu frv. felast. Og þar sem þetta er fyrsta og aðalumr. málsins og ég býst við, að þessu máli verði vísað til fjhn., sem ég á sæti í. þá finnst mér það vera það minnsta, sem hæstv. ríkisstj. getur gert, þegar hún leggur svona frv. fram, að vera viðstödd, þegar d. ræðir málið.

Ég var nýlega staddur á fundi í n., sem ég var kosinn í af Alþ., landsbankanefnd, þar sem sérstaklega var rætt um, hve brýn þörf væri að ráða fram úr þeim vandræðum, sem nú steðja að útveginum vegna lánsfjárskorts. Þar var lýst yfir því af formanni bankaráðs, að ríkisstj. hefði verið tilkynnt, að nauðsynlegt væri, áður en þingi lyki nú, að ráðið yrði fram úr þeim vandamálum, sem nú steðjuðu að sjávarútveginum vegna þess. Það var undirstrikað, að fram úr þessu yrði að ráða nú, bæði af bankastjórum Landsbankans og fjárhagsráði. Það var og upplýst, að það mundi vanta um 60 millj. króna lánsfé til borgunar á 7 togurum, 20 mótorbátum og fjölda hraðfrystihúsa og margra annarra bygginga, sem verið væri að koma upp, en engar ráðstafanir gerðar til þess að ráða fram úr þessu. Þarna voru margir hv. þm. og hæstv. sjávarútvegsmálaráðh. viðstaddir. Og maður skyldi halda, að það fyrsta, sem um væri fjallað. þegar sérstakar ráðstafanir væru gerðar, væri að tryggja, að menn gætu fengið þetta fé. Og það hvílir því meiri ábyrgð á ríkisstj. að gera slíkar ráðstafanir sem hún hefur beinlínis með eigin fyrirskipan látið taka 8 millj. króna móti vilja bankastjórans úr stofnlánadeildinni til þess að lána ríkum togaraeigendum í Rvík, meðan aðrir útvegsmenn, sem minni efni hafa, koma til með að skorta fé. Ég hafði þess vegna vænzt þess, að sú fyrsta till., sem flutt yrði, væri um sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja stofnlánadeildinni aukið fé og sjá þannig um, að sjávarútvegurinn yfirleitt gæti haldið áfram með fullum krafti. En ég sé nú, að það liggur ekki við, að svo sé. Ég sé, að þær ráðstafanir, sem hér er lagt til að gerðar verði, ganga allar í þveröfuga átt. Og engar ráðstafanir koma þarna fram, sem miða að því að auka eða bæta aðstöðu útvegsins til þess að geta staðið undir því mikla hlutverki, sem hann á að vinna fyrir þjóðina.

Mér fannst það þess vegna koma úr hörðustu átt, þegar hæstv. fjmrh. talaði um, að núv. ríkisstj. hefði gert verulegar ráðstafanir og verið fyrst allra ríkisstj. til þess að lækka vextina fyrir útveginn. Ég veit ekki betur en einmitt fyrrv. ríkisstj. hafi gert þær mestu og beztu ráðstafanir, sem enn þá hafa verið gerðar á. Íslandi til þess að fá handa útveginum hagkvæmt lán og lága vexti. Ég held, að það sé heldur lítið fyrir núv. hæstv. ríkisstj. til þess að státa af í þessum efnum. En hún getur státað af því að hafa látið vexti hækka bæði gagnvart sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum landsmanna.

Ég endurtek það, að ég hefði kosið, að hæstv. fjmrh. hefði viljað vera viðstaddur þessa um., og hefði ég þá viljað biðja um nánari upplýsingar um þessa vaxtalækkun, sem ráðh. talaði um, og meðferð ríkisstj. á þessu máli gagnvart bönkunum, sem hæstv. ráðh. finnst ástæða til að vera stoltur af. Í vetur fluttum við till. um vaxtalækkun í sambandi við dýrtíðarlagafrv. Það var neitað að samþ. hana. En þá var samt vitað, að Landsbankinn mundi um áramótin hækka vexti. Og það var vakin eftirtekt á þessu og sýnt fram á, að hægt væri að hindra þessa vaxtahækkun. Hæstv. ríkisstj. vildi það ekki. Hvaða ástæða var til þessarar hækkunar, kemur helzt fram í því, að gróði Landsbankans var 1946 um 16 millj. kr., en árið þar áður 14 millj. kr. Þær miklu skattaálögur á þjóðina og vaxtahækkun, ekki aðeins frá hálfu ríkisins. heldur líka frá hálfu ríkisstofnana, ættu að sýna, að það er sannarlega ekki ástæða til þess að kvarta undan því, að það vanti fé til þess að efla sjávarútveginn og aðra atvinnuvegi í landinn. Ég held þess vegna, að það, sem hæstv. fjmrh. var að ræða um, að bankarnir væru einráðir í þessum efnum, það sé nú vægast sagt að reyna að skella skuldinni yfir á þá af því, sem ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hér í þinginu gætu ráðið við, eins og þetta, hvað vextina snertir. Þetta er á valdi Alþ., að ákveða um það, hvað vextir hjá bönkunum megi hæstir vera gagnvart sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum, og það er því ekki til neins af Alþ. eða hv. þm. að vísa til þess. að í þessum efnum séu bankarnir einráðir. Ég vil enn fremur minnast á í þessu sambandi, eins og hæstv. fjmrh. er vafalaust kunnugt um. að það var eitt af samkomulagsatriðum í síðustu ríkisstj.. að ef fé vantaði til nauðsynlegs rekstrar í landinu, þá skyldu lögð skyldulán á þá ríkustu í landinu í hlutfalli við þeirra eignir. Það eru ákvæði, sem enn þá er hægt að taka upp og hæstv. fjmrh. hefði a.m.k. möguleika til þess að fara inn á og leggja til einhverja till. um bráðabirgðabreyting nokkurra laga, heldur en að gefast upp við verkefnin, sem liggja fyrir og snerta sjávarútveginn, nauðsynlegasta atvinnuveg landsmanna. Ég veit líka, að hæstv. fjmrh. hefur verið bent á í umr. um þessi mál í hv. Ed., að það væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi, ef hann þyrfti að fá fé í ríkissjóðinn, m.a. með því — og það mun einn af flokksmönnum hans hafa komið með till. um í hv. Ed. — að spara það fé, sem nú fer til fjárhagsráðs, og leysa þjóðina um leið úr þeim einokunarfjötrum, sem hún er hneppt í, sem mundi aftur leiða til þess, að atvinnuvegirnir í landinu blómguðust. Það vantar ekki, að ráðin séu nægileg. Spursmálið er hitt, hvort það sé einhver vilji fyrir hendi til að nota þau.

Hæstv. fjmrh. ræddi hér nokkuð um 6. tölul. 1. gr. frv., og var þar einkum að ræða við hv. 2. þm. S-M., sem gagnrýndi réttilega, að ekki væri tryggt jafnrétti landsmanna í sambandi við þau framlög, sem ríkið lætur í té til þeirrar síldarverksmiðju, sem hér á að stofna. Ég þarf ekki mörgum orðum að bæta við það, sem hv. 2. þm. S-M. sagði í þessu sambandi. Ég vil aðeins minna á það í viðbót, að það er ekki ríkissjóður einn af opinberum aðilum, sem leggur þarna fram fé, heldur Reykjavíkurbær. Þannig að helmingur af öllu framlaginn, sem kemur til þessa fyrirtækis, er frá opinberum aðilum. Og strax frá því sjónarmiði er það það minnsta, sem hægt er að krefjast, þegar það opinbera leggur fram helming af þessum framlögum, að tryggt sé jafnrétti allra til þess að fá að leggja upp í þetta fyrirtæki. — Ég sé, að hæstv. fjmrh. kemur nú inn í fundarsalinn. Ég hafði beint nokkrum spurningum til hans. (Fjmrh. fer út aftur). Það er slæmt, ef ekki er hægt að fá að ræða málið við hæstv. fjmrh. Þetta er fyrsta og aðalumr. málsins og ég býst við, að það fari til fjhn. og vildi hafa fengið svarað ýmsum spurningum af hæstv. fjmrh., þegar málið verður rætt þar. — En í sambandi við 3. tölul. þessarar 1. gr. frv., um að fresta um 10 ár greiðslu á 1 millj. króna framlagi til nýbýlasjóðs, þá sagði hæstv. fjmrh., að ríkisstj. hefði komizt að samkomulagi við fullfrúa landbúnaðarins um þetta mál. Ég veit ekki betur en þrír hv. þm. þessarar hv. d. eigi sæti í nýbýlastjórn, Hv. þm. A-Húnv., sem er forstjóri hennar, og báðir hv. þm. Skagf., sem kannske eru hér ekki inni nú, en væri æskilegt, að væru hér. Ég vildi leyfa mér að skora á þessa hv. þm. að lýsa hér yfir, hvort þeir séu aðilar að þessu samkomulagi, og skora á hæstv. fjmrh. að upplýsa, við hverja fulltrúa landbúnaðarins hann hefði gert samkomulag þetta, sem sætti sig við það að fella niður greiðslu þessarar 1 millj. króna. Þegar við í nýbyggingarráði vorum að samþ. þessi lög og þegar þau komu í þingið, þá sótti Framsfl. það fast fram að þessi l. væru samþ., enda eru þetta ein hin beztu lög, sem samþ. hafa verið fyrir landbúnaðinn. Nú þætti mér gott að fá að vita, hvort þessir fulltrúar í nýbýlastjórn hafi samþ. að sleppa þessari milljón eða hvort þessi aðili, sem átt sé við af hæstv. ráðh., að sé þessu samþykkur, sé Framsfl., sá flokkur, sem hefur þótzt helzt berjast og harðast fyrir hagsmunum landbúnaðarins, og hvort sá flokkur hefur útnefnt sjálfan sig til þess að vera fulltrúi í þessum málum, til þess að slaka til í þeim málum, sem hann hefur þótzt sjálfur sækja harðast eftir að fá framkvæmd.

Þá er 1. Tölul. 1. gr. frv., sem snertir l. um íbúðarhúsabyggingar. Ég held, að þar geti ekki verið um það að ræða, að geta ríkissjóðs sé svo lítil, að hann geti ekki lagt fram eða lánað það, sem þyrfti í þessum efnum. Ég veit ekki annað en það liggi fyrir okkur nú á dagskránni m.a. mál um lánsfjáröflun, þar sem hugsað er, að ríkið taki lán í Annríkt, og að svo eða svo mikið af því láni eigi að veita í innlendu fé og til aðila hér innanlands, sem eigi að leggja fram fé á móti. Bara strax við öflun slíks láns ætti að koma nokkurt fé, sem ríkisstj. ætti að geta ráðið yfir og ráðstafað. Þar að auki er vitanlegt, að fyrirtæki ríkisins, eins og t.d. bankarnir, græða ekki aðeins milljónir, heldur svo að skiptir tugum milljóna kr. á hverju ári. Landsbankinn hefur á tveimur síðustu árum grætt 30 millj. kr. Og ég get ekki hugsað mér, að ríkið geti rekið endalaust fyrirtæki, sem græði tugi milljóna kr. á hverju ári, og tekið þó aldrei neitt af því handa sjálfu sér. Og þegar þetta væri tekið í sambandi við það, sem ég hef lagt til, að tekinn sé skattur af þeim ríkustu, þá á ríkið ekki að þurfa að vera í vandræðum með framlög til nauðsynlegustu framkvæmda handa íbúum sínum. Og þá er ekkert nauðsynlegra en það, að landsmenn hafi þök yfir höfuð sin. Ég hygg, að það þyrfti ekki nema 10 af hundraði af gróða slíkra fyrirtækja á einu ári til þess, bara ef ríkissjóður skaffaði þetta. É g hef tekið eftir því í sambandi við umr. um að fetla þetta niður, sem í 1. Tölul. gr. er gert ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf. talaði eindregið á móti þessum lið, og lagði hann till. fram um, að þetta ákvæði félli niður úr frv. Ég hlustaði því miður ekki á ræðu hv. þm. Ísaf. En ég býst við, að hann muni, ef að líkum lætur, hafa tekið ekki ósvipað á málinu og ég hef gert. Enda verð ég að segja, að skörin væri nú farin að færast upp í bekkinn, ef menn úr Sjálfstfl. berjast á móti niðurfellingunni, sem gert er ráð fyrir í þessum 1. lið þessa frv., þar sem stefnt er að því að skerða gagnsemi ágætra laga, sem sett vorn hér fyrir tveimur árum, en ef svo Alþfl. ætlaði að hjálpa til þess að fella þau úr gildi. Og þess vegna á ég bágt með að trúa því, að slík till. eins og sú, sem hér felst í þessum bandormi, geti fengið samþykki þessarar hv. þd. En viðleitnin, sem kemur fram í öllu þessu frv., er hin sama, þ.e. niðurrif og aftur niðurrif, meira og minna, á öllum þeim umbótal., sem gerð hafa verið á tveimur undanförnum árum. Og mér þykir vægast sagt undarlegt að heyra nú ekki þá menn, sem t.d. í Alþfl. réðust harðvítuglegast á stefnu fyrrv. ríkisstj. og þótti hún ekki nógu umbótasinnuð og róttæk, heyra þá nú ekki segja eitt einasta orð við þeim niðurfærslum, sem stefnt er að í þessu frv. Ég hygg, að nokkuð lítið verði úr því, sem kallað hefur verið vinstri mennirnir í Alþfl., ef þessi bandormur gengur í gegnum þessa hv. d. án þess að af þeim mönnum sé kvakað við því. Það hafa engin rök verið færð fram fyrir nauðsyn þeirra mála, sem hér er komið inn á. En það hefur ekki verið lítið við því að reyna að bæta úr þeirri nauðsyn, sem lánsfjárþörf útvegsins er. En það virðist eiga síðustu daga þingsins að brjóta niður alla viðleitni landsmanna til þess að halda uppi atvinnuvegunum, ekki aðeins að brjóta niður þær umbætur, sem gerðar voru í tíð fyrrv. ríkisstj., heldur og umbótalöggjöf á öðrum sviðum. Þetta frv. gengur á öllum sviðum í þveröfuga átt við það, sem þjóðin þarf á að halda. Það er engin viðleitni sýnd þar til þess að bæta úr þeim hlutum, sem þjóðin óskar, að bætt sé úr. En þar er ráðizt á kjör útvegsmanna, bænda, verkamanna og landsmanna almennt, til þess að rýra þau frá því sem verið hefur og fella úr gildi þá umbótalöggjöf. sem samþ. hefur verið. Það hefði þess vegna verið æskilegt, að hæstv. fjmrh. hefði fengizt til þess að ræða þessi mál. En ég get vel skilið, að hann kjósi að ræða þau sem minnst. Það er ekki skemmtilegt að hafa verið við riðinn að skapa umbætur og verða nú sjálfur að ganga fram fyrir skjöldu í því að höggva þær niður. — Ég treysti því, að hv. þd. sýni það við meðferð þessa máls, að þau l., sem hún setti fyrir síðustu kosningar, séu sett til þess að koma að gagni, en verði ekki felld úr gildi, þegar þjóðin þarf mest. á þeim að halda.