22.03.1948
Neðri deild: 80. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Pétur Ottesen:

Ég hreyfði því við 1. umr. þessa máls, að tekinn yrði inn í frv. sérstakur liður, þar sem stj. væri heimilað að reisa síldarbræðsluverksmiðju við Faxaflóa. Ég afhenti fjhn. brtt., er snerti þetta. N. tók till. til athugunar, en hefur látið mig vita, að hún hliðraði sér hjá að flytja hana, enda hef ég komið till. á framfæri. Ég mun þó ekki bera hana fram við þessa umr. Ég sé það, að í n. eru úfar út af einstökum liðum þessa frv., og í umr. hafa komið fram skiptar skoðanir á 1. gr. Ég ætla því að bíða og sjá, hvernig málinu reiðir af í einstökum atriðum, og ákveða við 3. umr., hvort ég ber till. fram.

Svo vildi ég bara segja nokkur orð í sambandi við þá skýringu, sem hæstv. forsrh. gaf á væntanlegri framkvæmd á 1. lið þessa frv., en hann taldi, að stj. yrði fært að halda áfram lánveitingum til bygginga, sem þegar væri byrjað á, samkvæmt 3. kafla l. Ég veit ekki, um hvað stórar framkvæmdir er að ræða, en eins og orðalag þessa liðar er, virðist vafasamt, að hægt sé að veita fé í þessu skyni án þess að heimild sé til þess í fjárlögum, því að hér stendur, með leyfi hæstv. forseta, að fjárveitingar í þessu skyni „koma því aðeins til framkvæmda, að sérstök heimild sé veitt til þess í fjárlögum hverju sinni“. Mér virðist, að yfirlýsing hæstv. ráðh. eigi tæplega stoð í orðalagi þessa liðar. Ég hef líka skilið túlkun hæstv. fjmrh. á annan veg, og það er athyglisvert, ef ráðh. skilja á mismunandi veg framkvæmd þessa ákvæðis.

Það hlýtur líka að leiða af sér takmarkaðar lánveitingar, að felld er niður 1 millj. kr. til nýbýlasjóðs. Það helzt nokkuð í hendur, að takmarkaðar séu lánveitingar til kaupstaðanna og líka framkvæmdir í sveitum.

Þetta vildi ég láta koma fram sem mína skoðun.