22.03.1948
Neðri deild: 80. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf mér, sem ég þóttist nú að vísu geta ráðið í, að hann mundi gefa. sem sagt, að ráð væri fyrir því gert, að þær byggingar, sem þegar væru hafnar framkvæmdir á samkv. III. kafla laganna, nytu þeirrar aðstoðar, sem þessi viðkomandi lög gera ráð fyrir, enda þótt þessi 1. tölul. 1. gr. þessa frv. væri samþ., sem ég þó vona, að verði ekki samþ. — Hins vegar lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að hann teldi vafasamara um áætlanir ýmissa kaupstaða í byggingarmálum, þó að samþ. hefði verið af hæstv. ríkisstj., að styrkur sá, sem l. gera ráð fyrir, næði framvegis til hinna áætluðu framkvæmda í byggingarmálum bæjanna, — ef 1. liður 1. gr. frv. þessa yrði samþ. Það er þess vegna auðsætt, að þau bæjarfélög. sem hafið hafa framkvæmdir samkvæmt þessum HI. kafla l., verða að verulegu leyti stöðvuð, ef þessi liður verður samþ., og að útrýming á heilsuspillandi íbúðum samkv. ákvæðum þessara l. nær miklu skemmra en menn gerðu sér vonir um, sem að þessari lagasetningu stóðu og hófu framkvæmdir í skjóli hennar.

Ég vil sérstaklega benda á eitt atriði og lýsa óánægju minni yfir því. Það er afgreiðslan á þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstj., að það er flutt, þegar komið er að þinglokum, þetta ákvæði, sem vitað var um, að skoðanamunur ríkti um innan ríkisstj., sem sést bezt á því, að þm. bæði úr Alþfl. og Sjálfstfl., fleiri en einn, hafa lýst andstöðu sinni við það. Og þetta er sérstaklega óheppilegt vegna þess, að e.t.v. hefði getað tekizt fyrr á þessu þingi — og ég hefði gjarnan viljað eiga hlut að því að vinna að því — að finna nýjan tekjustofn, sem hefði getað staðið undir þessum framkvæmdum. Ég skil vel þá erfiðleika, sem hæstv. ríkisstj. á í með að veita lán til þessa. Hv. þm. vita, hve möguleikar til öflunar lánsfjár hafa dregizt saman undanfarið, og ég skil vel að því leyti afstöðu hæstv. ríkisstj. En þess vegna hefði þá líka verið eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hefði lagt þetta frv. fyrr fram á þinginu, til þess að tækifæri hefði gefizt til þess að leita uppi möguleika á að finna nýjan tekjustofn til þessara framkvæmda. En mér skilst, að slíkt sé alveg útilokað, þegar málið kemur svona seint fram.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Ísaf. sagði áðan og eins hv. 7. þm. Reykv. í sinni ræðu, að það verður að vænta þess, að hæstv. fors.- og félmrh. og hæstv. fjmrh. hafi ekki gersamlega gefizt upp við þetta mál, heldur sýni þeir fullan vilja á því að gera það kleift, að haldið verði áfram framkvæmdum í þessum etnum, og þá á grundvelli nýrra lagasetninga, ef þessi háttur verður á hafður. sem hér er lagt til í þessu frv.

En varðandi hitt atriðið, sem hv. þm. Ísaf. minntist á, að þessi lagasetning um opinbera aðstoð við byggingar hefði sætt andmælum innan Sjálfstfl. á sínum tíma, þá er það atriði, sem ég ætla ekki að vekja hér umr. um. Það væri tilgangslítið. En ég vil benda á, að fyrsta till., sem minnir á, að nauðsyn sé á aðgerðum í þessum efnum, var flutt þó nokkru áður en frv. hæstv. félmrh., og var hún flutt af hv. þm. Snæf. og mér 1943 eða 1944. Það var nokkru áður en hreyft var við þessu máli af hæstv. ríkisstj. Og þar var lagt til, að rannsakað yrði, hvernig bætt yrði úr skorti á íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Þessi till. okkar hv. þm. Snæf. var, ef ég man rétt, samþ., en framkvæmdir á efni hennar urðu engar. Áframhald þessarar till. var, að hæstv. núv. dómsmrh. flutti till. svipaðs efnis. Samkv. þeirri till. var hafinn undirbúningur núgildandi löggjafar, sem hv. þm. er nú boðið upp á að verulegu leyti að afnema. Ég vil ekki vekja þrætur við minn góða heimaþingmann, hv. þm. Ísaf., um hlut Sjálfstfl. að þessu máli, en vil benda á þessa forsögu málsins, vegna þess að hann hóf hér umr. um það, að það hefðu fundizt andmælendur innan Sjálfstfl. á sínum tíma gegn frv. til þeirrar löggjafar um opinbera aðstoð við byggingar í kaupstöðum og kauptúnum, sem hér er boðið upp á að verulegu leyti að afnema. Það voru menn ekki aðeins innan Sjálfstfl., heldur líka innan annarra flokka, sem að þessari löggjöf stóðu, sem töldu, að með þessari löggjöf, sérstaklega III. kafla hennar. væri e.t.v. farið nokkuð rausnarlega af stað. Mér fannst ekkert of mikið til um það. Hitt gat maður reyndar sagt sér, að hin mikla aðstoð, sem þarna var ákveðin, væri of góð til þess að hún gæti verið sönn, of rifleg til þess að hægt væri að framkvæma hana. Og mér skilst, að það sé það, sem sé á leiðinni að sannast. Ég vona, að það muni ekki sannast, en ýmislegt virðist samt sem áður benda til þess, að það muni sannast.

Ég vil svo vænta þess, eins og hv. 7. þm. Reykv. tók fram, að það, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta, verði ekki orðin ein, heldur verði, ef þessi liður 1. gr. frv. verður samþ., snúizt að því að finna nýjar leiðir í þessum málum. Það er mikið þjóðfélagslegt vandamál, sem þarna bíður óleyst. Og ég efast ekki um, að flestir hv. þm. skilja það og vilja leggja lið sitt á einn eða annan hátt til þess að greiða fyrir því, að það verði leyst. Og ég vænti, að á milli okkar hv. þm. Ísaf., sem höfum báðir sérstakra hagsmuna að gæta í þessu efni, megi ríkja góð samvinna um það í fyrsta lagi að koma í veg fyrir, að sú leið verði farin, sem hér er lagt til, og í öðru lagi, ef ekki verður í veg fyrir það komið, að þá verði fundnar nýjar leiðir til úrbóta í þessum byggingarmálum.