23.03.1948
Neðri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, og viðvíkjandi grg. minni áðan vil ég taka fram, að í vetur kom hæstv. sjútvmrh. að máli við okkur ráðh. frá Framsfl. og spurðist fyrir um það, hvernig við mundum taka því að styðja fjárframlög af hendi ríkisins í hlutafélag til þess að kaupa síldarbræðsluskip, sem á haustin og vetrum væri ætlað að vera við Faxaflóa, en Síldarverksmiðjur ríkisins gætu fengið það leigt — þá var talað um tvö ár — til notkunar á sumrin. Og hæstv. ráðh. upplýsti nokkru nánar, hvernig þetta væri hugsað, og ýmsir útvegsmenn mundu fúsir til þess að leggja fram hlutafé. en óskuðu hins vegar eftir að hafa forgangslöndun. Eftir að við höfðum borið okkur saman við flokksmenn okkar. álitum við rétt að styðja þetta mál, en tvennt vildum við fá breytt. Annað, að leigan næði yfir lengri tíma, en forgangsstríðið tekið burt. Ráðh. taldi ef til vill líkur til, að hægt væri að koma þessari leigu á sumrin upp í 5 ár. en hinu atriðinu mundi ekki kleift að breyta. Þá sagði ég við hæstv. ráðh., að þótt við værum óánægðir með það ákvæði, mundum við ekki setja það fyrir okkur til úrslita, og mundum við styðja þetta mál samt. Og á þessu byggði ég grg. mína við atkvgr. Af þessu leiðir, að ég mundi vilja styðja allt það, sem gengi í þá átt að rýmka það ákvæði, að menn gætu lagt upp í þessa verksmiðju, sem ekki hafa þó lagt fram hlutafé, og fái þar helzt fullkomið jafnrétti, en þó þannig, að það stefndi málinu ekki í hættu. Og ég mun fyrir mitt leyti mjög vilja athuga þá brtt., sem kom hér fram áðan frá hv. 2. þm. Reykv., að ríkið áskilji sér nokkurn rétt fyrir sitt framlag eins og einstaklingar hafa áskilið sér fyrir sitt. Og ég vil eindregið skora á hæstv. sjútvmrh. að athuga, hvort ekki sé hægt að finna einhverja slíka leið út úr þessu máli.