23.03.1948
Neðri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég gat þess, þegar þetta mál var til 1. umr., út af gagnrýni frá hv. 2. þm. N-M., að það væri fyrst og fremst undir þeim mönnum komið, sem stofnað hefðu þetta félag og lagt sitt fé þar til, og alveg undir hælinn lagt, hvort þeir gætu sætt sig við það að hafa þarna engan forgang. En á hinn bóginn vænti ég þess, og ég mun fyrir mitt leyti vilja vinna að því eftir því sem ég get, að það, sem þessu skipi er ætlað að gera, geti orðið sem þægilegast í meðferðinni fyrir þá menn, sem ekki ættu í skipinu.

Ég er sammála hv. þm. Ísaf., sem talaði um það, að vegna forgangs, sem þessir menn hafa þarna, þá yrði öðrum aðilum frekar opnaður aðgangur að þeim verksmiðjum, sem hér starfa væntanlega við Faxaflóa.

Ég fyrir mitt leyti vil ekki leggjast á móti brtt. frá hv. 2. þm. Reykv., ef hægt er að samræma þau sjónarmið, þegar til kemur, við skoðanir þessa félags, sem hér er um að ræða, og ef þeir vilja sætta sig við það, að Síldarverksmiðjur ríkisins verði hluthafi með einhver slík skilyrði, og er rétt að freista þess. En hitt er náttúrlega til í málinu, að þetta komi einhverjum glundroða af stað, ég þori ekki um það að segja. Ég er ekki riðinn við þennan félagsskap á nokkurn hátt, hvorki beint né óbeint, og ég veit ekkert, hvernig þessir menn snúast við till. En ég tel það ekki óeðlilegt, þó að reynt sé að fá eitthvað rýmkaðan aðgang að þessum tækjum fyrir aðra en þá, sem þarna hafa forgang eftir frv.

Ég hef orðið var við að menn vilji. að ríkið tæki slíkan þátt í fleiri verksmiðjum og mér skilst á landinu yfirleitt, en með því get ég ekki mælt. Ég álít, að það væri ekki heppilegt, að ríkið væri þátttakandi í slíkum fyrirtækjum og smáverksmiðjum, sem byggðar væru á ýmsum stöðum. Ef þær verksmiðjur þyrftu á stuðningi að halda, þá yrði hann að vera á annan hátt en að ríkið gerðist þar aðili.

Ein hugmynd, sem komið hefur fram, er sú að gera það að skilyrði, að það væru engin takmörk fyrir því, hve margir mættu fá að gerast hluthafar í þessu síldarbræðsluskipi, og væri þannig opnuð leiðin fyrir alla. En mér hefur skilizt, að þessi leið væri opin fyrir alla, sem hafa viljað taka þátt í þessum félagsskap.

Ég vona, að hv. d. geti komið sér niður á samkomulag um afgreiðslu á þessu máli, sem menn geti unað við, þannig að afskipti hæstv. Alþ. af málinu þurfi ekki að verða til trafala.