23.03.1948
Neðri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja til, að einum lið verði bætt við þennan bandorm. (Menntmrh.: Mun þm. fylgja frv., ef þetta verður samþ.?).

Nú fyrir lítilli stundu ræddi hv. þm. Borgf. í Sþ. um það, hversu farið hefði um meðferð svo kallaðra áfengismála hér á Alþ. Og það er alkunnugt, að frá þeim mönnum, sem um þessi mál hafa mest hugsað, bæði á hæstv. Alþ., í Rvík og úti um byggðir landsins, þá hefur þeim mönnum helzt komið til hugar, að til nokkurra úrbóta yrði það í þessum málum, ef skömmtun væri á vini með þeim nánari skilyrðum, sem hér liggur fyrir brtt. um.

Alþ. hefur haft þann hátt á tvö þing í röð að víkja sér undan því að greiða þessum málum atkv. Þetta virðist vera ósæmileg meðferð þessara mála, og ég veit, að fjöldi hv. þm. er mér sammála um það.

Ég skal ekki fara út í að ræða þessa brtt., en ég vil gefa hv. d. tækifæri til þess að greiða atkv. um þessi mál með þessu móti. Mér þykir æskilegra og betra, að þetta sé bundið í lagafrumvarpsbreytingu, sem um þetta yrði, ef þetta yrði samþ. nú, en að það sé í einfaldri þáltill.

Það er talað um að slíta þingi á morgun, og mér finnst satt að segja, að það hafi nógu lengi setið. Vil ég því ekki hefja umr. um þetta mál nú, enda er það margrætt hér á hæstv. Alþ.

Út af því, sem hæstv. menntmrh. skaut hér inn í áðan, vil ég taka fram, að ég mun aldrei selja atkv. mitt til þess að samþ. að hverfa frá þeirri tilraun til að koma upp mannsæmandi bústöðum yfir landsmenn, og jafnvel ekki þótt gott mál sé tengt við slík skemmdarverk.