23.03.1948
Neðri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hafði lagt fram skrifl. brtt. við 2. tölul., þar sem gert er ráð fyrir, að gjöld í sambandi við skipaeftirlit verði aldrei hærri en svo, að þau gjöld, sem voru 1939, verði innheimt með fullri verðlagsuppbót. Gjöldin voru hækkuð á síðastliðnu ári, og nú er komið með lið, sem heimilar að hækka þau um 200%. Ég tel þessa hækkun óréttmæta og vil því reyna að fá þetta leiðrétt, þannig að gjöldin hækki þó ekki meira en brtt. mín fer fram á.

Viðvíkjandi 6. lið 1. gr. frv., um heimild handa ríkisstj. til að veita S.R. 11/4 milljón sem hlutafé í Hæring h/f, þó kom hér fram við atkvgr., að mikill meiri hl. hv. þdm. taldi, að forgangsréttur einstakra útgerðarmanna væri óverjandi, þegar um slíka ríkisábyrgð væri að ræða. Þó var till. um jafnan rétt útgerðarmanna felld, vegna þess að þdm. óttuðust, að ef breyt. væri gerð á frv., þá væri hætta á, að skipið yrði alls ekki keypt. Ég vil af þessari ástæðu flytja brtt., sem felur í sér viljayfirlýsingu Alþ. svipaða því, sem kom í ljós hjá hv. þdm. við atkvgr. En brtt. mín gerir ráð fyrir. að ríkisstj. leitist við að tryggja útvegsmönnum sem jafnasta aðstöðu til að leggja upp hjá h/f Hæringi, og er þá ekki hægt að segja, að málinu sé stofnað í hættu, þó að farið sé fram á við stj. að tryggja þetta. Ef forgangsréttarmenn hóta að eyðileggja málið, þá verður það útgerðinni dýrt.

Ég legg því fram brtt. um, að við 6. lið 1. gr. bætist: „Ríkisstjórnin skal jafnhliða þeirri fyrirgreiðslu, sem h/f Hæringi verður veitt til kaupa á síldarbræðsluskipi, leitast við að tryggja öllum íslenzkum síldveiðiskipum sem jafnasta aðstöðu til síldarlöndunar í verksmiðjuna.“ Ég vænti þess, að þessi till. verði samþ., því að þá á stj. hægara með að koma þessu réttlætismáli fram, sem nauðsynlegt er, ef vel á að fara um framkvæmd málsins.

Ég vil láta þess getið, að ég er samþ. till. hv. þm. Borgf., en mér skilst, að hún verði dregin til baka. Ég skil ekki, af hverju á að synja síldarverksmiðjunum við Faxaflóa, sem afkasta um 15 þús. málum, um það sama og félaginu. Það er enn óskiljanlegra, ef þess er gætt, að bátaútvegsmenn almennt standa að byggingu þeirra og gert er ráð fyrir auknum afköstum. Ég vil því taka undir áskorun hv. þm. Borgf. um. að stj. sjái sér fært að veita þessum aðilum hliðstæða fyrirgreiðslu. Það er víst, að útvegsmenn yfirleitt hafa meiri von um það, að þær verði betur til taks en skip Hærings. Ég er ekki á móti því að Hæringur fái skip, en ég er á móti forgangsréttindum.

Ég leyfi mér svo að leggja fram þessa till. mína og vænti þess, að hæstv. forseli fái veitt afbrigði, svo að hún megi koma til umr.