23.03.1948
Neðri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

196. mál, ríkisreikningurinn 1944

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það liggur fyrir nál. frá fjhn. á þskj. 653, og skrifaði ég undir það með fyrirvara, sem ég gat ekki gert grein fyrir við 2. umr., vegna þess að ég var kallaður í síma, er málinu var vísað til 3. umr. En fyrirvari minn byggist á því, að mér geðjast ekki að meðferð málsins. Það er blátt áfram hneyksli, að í marz 1948 sé verið fyrst að samþ. ríkisreikninginn fyrir árið 1944. Ég skal þó ekki fjölyrða um þetta nú, því að ég hef áður gert þetta að umfalsefni í Sþ. Nú, fleira mætti segja um þessa reikninga. Þeir eru lagðir fram í gær, þegar 2 eða 3 dagar eru eftir af þingtímanum og allir í önnum. Síðan er þeim vísað til fjhn., en hún hefur engan tíma til að athuga reikningana og hefur gefið út nál. án þess að líta á þá, en hv. frsm. sagði að hann mundi biðja skrifstofu Alþingis að athuga, hvort tölur reikninganna væru rétt teknar í frv. á þskj. 623, því að n. gafst ekki tími til að bera það saman. Nokkrar aths. frá hinum þingkjörnu yfirskoðunarmönnum fylgdu reikningunum og svör hæstv. ríkisstj. við þeim, en sum þeirra voru svo, að lítið var á þeim að græða, því að fylgigögn vantaði, t.d. var 3. aths. um það, að einu félagi hafi árið 1944 verið selt vín frá Áfengisverzlun ríkisins með kostnaðarverði fyrir 43 þúsund kr. Er um þetta vísað til meðfylgjandi bréfs, en það fylgir ekki með og yfirskoðunarmennirnir telja þessa viðskiptareglu nokkuð vafasama, enda sést ekki, af hvaða ástæðum þetta félag hefur fengið áfengið með svo góðum kjörum. Á 5 stöðum öðrum í svari ráðh. er vísað til bréfa, sem ekki fylgja. Þá er og í till. yfirskoðunarmanna málum vísað til Alþingis, en fjhn. hefur engan tíma haft til þess að athuga málið og gera um það till. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vegna meðferðar málsins hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara, því að málsmeðferðin er mjög á annan veg en hún ætti að vera.