23.03.1948
Neðri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

196. mál, ríkisreikningurinn 1944

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það urðu nokkrar umr. um ríkisreikningana í Sþ. fyrir nokkru út af fyrirspurn frá hv. þm. V-Húnv., sem hann nú vísaði til. Það kom þá fram, hvers vegna reikningarnir eru svona seint á ferð, og sömuleiðis, að með þeim hætti, sem hafður er á, er verk yfirskoðunarmannanna orðið mjög erfitt og verður því tilgangsminna sem reikningarnir eru meir á eftir áætlun. En það er ekki um að ræða neinn slóðaskap af hendi yfirskoðunarmanna. Hluturinn er sá,að hin tölulega endurskoðun fer fram í endurskoðunardeild stjórnarráðsins, en það er verk okkar yfirskoðunarmanna að yfirfara aths. þaðan, bera saman reikninga og fylgiskjöl og athuga, hvort farið sé fram yfir fjárlög. Það, sem veldur því, hve reikningarnir eru seint á ferð, er það, að ríkisstofnanir ýmsar eru svo seinar fyrir með reikninga sína og endurskoðun þeirra er langt á eftir áætlun. Hefur þetta gengið svo langt, að við yfirskoðunarmenn höfum orðið að láta athugun fara fram án þess að fá alla endurskoðun allra ríkisstofnana. T.d. vantar skýrslu Tryggingastofnunarinnar fyrir árið 1944. Ég get nefnt annað dæmi varðandi okkar aðstöðu. Við sendum út okkar aths. 11. júní 1947, en svarið kom fyrst 27. febr. 1948. Varðandi aths. okkar að öðru leyti þá er það svo, að Alþ. hefur aldrei viljað leggja verk í að athuga þær vegna þess, hve reikningarnir voru orðnir gamlir, og eins og hv. þm. V-Húnv. benti á, höfum við vísað sumum atriðum til Alþingis, og er þá til þess ætlazt, að hæstv. ríkisstj. athugi þau atriði, og ekki er óeðlilegt, að Alþ. geri um þau einhverjar till. — Varðandi það, að vísað sé til bréfa, sem ekki fylgi, þá er það ekki regla að birta slík bréf með till. okkar, en gert var ráð fyrir, að fjhn. hefði aðgang að þeim, og það hefur hún og getur athugað þau, ef tími vinnst til.

Þessar athugasemdir vildi ég láta koma fram, þar sem ég hef orðið var við, að margir hefðu rangar hugmyndir um, hvernig málið horfir við, og jafnvel hefur verið gefið í skyn, að við yfirskoðunarmenn ættum einhverja sök á því, hve reikningarnir eru síðbúnir.