23.03.1948
Efri deild: 87. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

196. mál, ríkisreikningurinn 1944

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og benda hv. þm. Ráð. á það, að þær gr., sem hann var að tala um. eru um allt annað efni. Þá hefur verið rætt um það hér, að ekki hafi verið innheimt sektarfé, sem einstaklingar eða félög hafa verið dæmd til að greiða. Það er alveg rétt, að ríkið á óinnheimt sektarfé, er nemur hundruðum þúsunda kr., sem togarar hafa verið dæmdir til að greiða fyrir landhelgisbrot, og þessar sektir koma aldrei til ríkisskattan. Skal ég ekki lengja umr. með því að fara frekar út í það atriði, en vil hins vegar minnast á tvennt annað í sambandi við þessar umr. Það er afar algengt, að kosningaréttur sé dæmdur af mönnum, en síðan eru þeir ekki strikaðir út af kjörskrá og kjósa eftir sem áður hvar á landinu sem er. Ég vil því benda hæstv. ríkisstj. á, að hún þarf að gera ráðstafanir til þess, að slíkum dómum sé fullnægt. t.d. með því að tilkynna viðkomandi yfirvöldum, þegar slíkir dómar eru felldir yfir mönnum úr þeirra umdæmi. — Í öðru lagi finnst mér ástæða til að breyta um fyrirkomulag á endurskoðun opinberra fyrirtækja frá því, sem nú er. Mér finnst ekkert vit í því að hafa endurskoðendur, sem kosta hundruð þúsunda króna, við ýmis fyrirtæki, sem eru ekkert annað en útangar af ríkisrekstrinum og reikningar þeirra síðan endurskoðaðir og færðir sem undirliðir á ríkisreikninginn sjálfan. Hefði ég talið hyggilegra, að endurskoðendur ríkisreikninganna endurskoði þetta allt saman og væru fastir menn.