21.10.1947
Efri deild: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

28. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til umr. og ég gerði nokkra grein fyrir því frá hendi fjhn., þá gaf ég þess, að n. hefði þá ekki tekið það til þeirrar athugunar, sem n. ber að gera um mál, sem til þeirra er vísað, heldur hefði hún flutt það að beiðni fjmrh. Hins vegar lofaði ég því, að n. mundi taka það til athugunar á milli umr. og hafa þá eitthvað um það að segja sem n. Nú hefur það atvikazt svo, að við getum ekki fullkomlega staðið við þetta loforð, sem ég gaf. Að vísu hafa verið haldnir fundir og þetta mál tekið til umr., en nægileg athugun hefur ekki farið fram. Þess vegna er það svo, að n. hefur óskað að athuga málið milli 2. og 3. umr. og taka þá sína endanlega afstöðu við 3. umr. málsins. Því hefur n. fengið nokkrar upplýsingar um þetta mál, sem lágu fyrir á fundi hennar, þar sem hún ræddi málið. M.a. liggja fyrir upplýsingar um, hvað benzínnotkun íslenzkra flugfélaga hefur verið mikil undanfarið á mánuði, og mundi þetta gjald, sem hér er farið fram á að létta af flugfélögunum, nema kr. 23598.85 á mánuði með sömu notkun. Verður það að vísu yfir árið allhá upphæð, en þó ekki svo, að neinum úrslitum ráði fyrir ríkissjóð. Hins vegar gæti það ráðið úrslitum um rekstur flugfélaganna. Og talið er af kunnugum mönnum, að útlendar flugvélar mundu auka viðkomur sínar á íslenzkum flugvöllum, ef þetta gjald væri lækkað, og mundu þá þær tekjur, sem þær gæfu, að einhverju leyti koma upp á móti þessu. Ég skal játa, að þetta eru ekki svo veigamiklar upplýsingar, sem ég hér get gefið. að á þeim verði byggðar endanlegar niðurstöður, og þess vegna óskar n. að bíða enn til 3. umr. með brtt., sem hún kynni að bera fram í málinu, og er það till. hennar, að n. fái óbundna afgreiðslu til 3. umr. og að þá verði það tekið til rækilegrar meðferðar.