21.10.1947
Efri deild: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

28. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði nú búizt við, að n. hefði meiri upplýsingar um málið nú til 2. umr.. en skal ekki hafa á móti því, að málið fái að ganga hindrunarlaust til 3. umr. En samkvæmt grg. og framsöguræðu frsm. er óljóst, hvort n. er samþykk þessu frv., því að í grg. segir, að n. sé óbundin um málið, og það er ekki hægt að vita, hvort hún er samþykk því eða ekki. Það, sem ég óska eftir að fá upplýsingar um, áður en gengið er til endanlegrar afgreiðslu, er:

1. Er það alheimsregla, að benzín, sem flugvélar nota, njóti annarra tollkjara en benzín almennt? Ef þetta frv. verður samþykkt, kemur benzín undir tvenns konar tolla: Benzín, sem er til bifreiða, og benzín, sem er til flugvéla. Mig langaði til að vita, hvort benzín, sem notað er til flugvéla, almennt nýtur betri kjara. Sé það almenn regla, finnst mér meiri ástæða til þess, að þetta yrði gert hér.

2. Hvernig er hagur íslenzku flugfélaganna yfirleitt? Er ástæða til vegna hags þeirra að gera þessa lagabreytingu? Mér er tjáð, að árið 1946 hafi hagur flugfélaganna verið prýðilegur og eins þetta ár. Nú vil ég ekki setja fótinn fyrir það, að þeim gangi vel, en finnst, að við þurfum að vita, hvernig hagur þeirra er.

3. Ég vildi fá upplýsingar um. hverjar afleiðingar þetta mundi hafa fyrir ríkissjóðinn. Frsm. gat þess, að fyrir íslenzku flugfélögin mundi þetta nema rúmlega kr. 270 þús. á ári, en hvað fá aðrir? Ég hef lesið bréfið frá formanni flugráðs og kann illa við þá hótun, sem fram kemur í því, að aðrir aðilar hætti að gera svo eða svo, ef ekki sé gert svo eða svo. Og sé farið fram á annað en gerist, þá er síður ástæða til að láta undan. Mér finnst nær að breyta þessu í það horf, að gjaldið, sem kemur inn, skuli notað til að starfrækja flugvöllinn yfirleitt, eins og benzíntekjurnar eru notaðar til veganna.

Þessar upplýsingar vildi ég fá, en mun greiða atkv. með frv. til 3. umr.