03.11.1947
Efri deild: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

28. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og lofað hafði verið við 2. umr. þessa máls hér í deildinni, þá hefur fjhn. haft málið til meðferðar aftur og athugað það með flugmálastjóra. Niðurstaðan af þessari athugun varð sú, að meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með brtt., sem nefndin flytur. En ætlun brtt. n. er að koma í veg fyrir misrétti vegna þeirra birgða, sem til eru hjá hinum ýmsu benzínsölufyrirtækjum.

Þegar ákvörðun var tekin um þetta mál í nefndinni, var 7. landsk. ekki viðstaddur, en ætla má, að hann sé sammála afstöðu nefndarinnar. Hins vegar tók 1. landsk. ekki afstöðu til málsins. vegna þess að hann taldi sig vanta upplýsingar.

Út af aths. þm. Barð. og fyrirspurnum, sem hann lagði fyrir nefndina, í fyrsta lagi um það, hvort alþjóðareglur séu um að leggja ekki hærri gjöld á flugvélabenzín en hér er ráð fyrir gert, skal ég geta þess, að n. hafði því miður ekki aðstöðu til að fá fullar upplýsingar um þetta atriði, en flugvallastjóri gaf þær upplýsingar, að þar, sem hann þekkti til, væru þessi gjöld ekki hærri.

Þá spurði hv. þm. Barð. um það, hvernig hagur íslenzkra flugfélaga mundi vera nú, og taldi sig hafa ástæðu til að ætla. að hann væri sæmilega góður. Flugvallastjóri skýrði frá því, að síðastliðið sumar hafi verið ákaflega erfitt fyrir starfrækslu flugfélaganna, sérstaklega innanlands, sökum veðurfarsins, og að hagur þeirra sé því langt frá því að vera góður, heldur þvert á móti að hann sé slæmur. Og hann taldi það sem dæmi, að félögin hefðu alls ekki getað greitt áskilda leigu fyrir flugskýli hér á Reykjavíkurflugvellinum. Ég held, að það hafi verið ég, sem benti honum á, að flugfélögin hefðu greitt ofurlítinn arð af hlutabréfum, og játaði hann það rétt að vera, en að það hefðu þau gert eiginlega án þess að geta það, til þess að spilla ekki fyrir því, að hlutabréf í þessum félögum væru keypt. En veigamikið atriði í þessu máli, sem hér liggur fyrir, — þó að ég vilji ekki segja, að það sé aðalatriðið. — er það, hvernig þetta horfir við frá sjónarmiði ríkissjóðs. Og þegar um það er að ræða, þá færði flugvallastjóri, Agnar Kofoed-Hansen, mikil rök fyrir því, að miklar líkur væru til þess, að ríkissjóður missti einskis í, en jafnvel bætti við sig tekjum með því, að samþ. yrði þetta frv. Og ástæðan er sú, eftir því sem hann sagði og ég hef ekki ástæðu til að rengja, að vegna hins háa benzíntolls hér forðist útlendar flugvélar að koma við hér svo sem þær frekast geta. Og hann sagði, að viðkomur erlendra flugvéla hér — að þeim flugvélum slepptum, sem tilheyra Bandaríkjunum og viðkomur hafa eftir sérstökum samningum — væru ein til fjórar á dag og yfirleitt, að farþegaflugvélar, sem flygju yfir Atlantshaf norðanvert, tækju miklu frekar þann kost að fylla sig það af benzíni, að þeim entist það alla vegarlengdina. heldur en að koma hér við, meðan benzín er hér svo dýrt. — Lendingargjöld eru víst eitthvað mismunandi, eftir því hve flugvélarnar eru stórar. En mér skildist, að lendingargjald af hverri flugvél væri um 200 kr. Tíu aura gjaldið gamla, sem allar flugvélar greiða og hér er ekki farið fram á að hagga við, — það mun náttúrlega haldast. Flugvallastjóri sagði, að flugvélarnar tækju þetta frá sex til tíu þúsund lítra. Ef maður miðar við 7 þús. lítra, þá yrði það 630 kr. En 15 aura viðaukinn yrði 1050 kr., miðað við 7 þús. litra. Sennilega yrði hér um meira benzín að ræða að vísu, en ég hef miðað við 7 þús. lítra. Eru þá, eins og nú er, tekjurnar af hverri flugvél um 1880 kr. Og ef gert er ráð fyrir fjórum lendingum á dag, sem er víst hámark þess, sem verið hefur nú, þá er það um 7520 kr. á dag. En nú álítur flugvallastjóri — og byggir það á reynslu um rekstur annarra flugvalla við norðanvert Atlantshaf —, að við það, að þessi aukaskattur á benzíninu yrði afnuminn, mundi lendingum flugvéla fjölga svo, að vænta mætti, að þær gætu orðið 20 á dag eða fleiri. Og ef miðað er við 20 lendingar á dag og miðað við, að hver flugvél tæki 7 þús. lítra af benzíni, mundu tekjurnar á dag verða 16600 kr. eða um helmingi hærri en hámark þeirra er nú. Segjum, að þær yrðu helmingur af þessu, að lendingunum fjölgaði upp í 10. Þá yrðu tekjurnar á 9. þús. kr., og er það nokkru hærri upphæð en hámarkstekjurnar nú eru á dag. — Það hefur komið fram í ræðu minni fyrr, að þetta er engin vizka, sem fjhn. hafi af eigin hyggjuviti fundið út, heldur er þetta álit flugvallastjórans. En hvað sem þessu líður, þá er það hans örugga sannfæring, sem mér virðist hann hafa fært mjög sterk rök fyrir, að lendingum muni a.m.k. fjölga verulega, ef frv. þetta verður samþ., og þar af leiðandi ætti ekki að vera um neinn skaða — sízt mikinn skaða — að ræða fyrir ríkissjóð vegna samþykktar frv. — Á hinn bóginn er aftur á það að lita, að þetta mundi mjög styrkja innlent flug. Og hvað sem um það er að ræðst, hvort æskilegt sé út af fyrir sig. að útlendar flugvélar lendi hér eða ekki, hygg ég, að menn muni vera sammála um það, að það beri frekar en hitt að styrkja innlent flug og tryggja, að það geti haldið áfram. Því að hér í okkar landi, þar sem vegir eru oft ófærir, t.d. að vetrinum og oftar, þá mun það verða svo, að innanlandsflug er nauðsynlegra hér á Íslandi en í flestum öðrum byggðum löndum.

Það eru sem sagt tvær ástæður til þess alveg sérstaklega, að meiri hl. fjhn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef greint. Í fyrsta lagi að létta þessum útgjöldum af innlendum flugfélögum, til þess að styrkja innlent flug og þar með gera almenningi betur fært að nota sér flugferðir, þar sem slíkar ferðir mundu annars verða dýrari. Og í öðru lagi að haga okkur í þessu efni svipað og aðrar þjóðir gera, að vera ekki að hafa hér í þessu efni gjöld — og sízt há —, sem ekki eru hjá öðrum þjóðum. — Þykist ég þá hafa gert grein fyrir ástæðunum fyrir því, að n. gerir þá till., að frv. verði samþ. með greindri breyt.