21.11.1947
Efri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

53. mál, ullarmat

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í Nd. af hv. landbn. samkvæmt ósk ráðuneytisins og er að nokkru leyti flutt til þess að leiðrétta misskilning, sem virðist gæta nokkuð, um það, hver laun ullarmatsmanna skuli raunverulega vera. Fyrir stríð fengu þeir upprunalega 800 kr. og 400 kr., en við það bættist síðar 25% hækkun og þar á eftir 33% hækkun. Laun ullarmatsformanna voru þá komin upp í 1400 kr., en laun ullarmatsmanns í 600–700 kr. Svo komu launalögin nýju og breyttu þessu, svo að laun allra þessara manna lækkuðu, því að þá gleymdist að taka till. til 25% og 33% launahækkananna. Vitanlega hefur þetta ekki verið meiningin, og til þess að leiðrétta þetta er frv. nú flutt eftir beiðni ráðh.

Nú leggur landbn. til, að laun ullarmatsformanns skuli vera 1600 kr. yfir árið, en laun annarra ullarmatsmanna 900 kr. Mér finnst rétt, að þau verði þetta há, en í raun og veru er það nokkur hækkun, eins og menn sjá af því, er ég áður sagði. Þá vildi ég fá að vita hjá hv. stjórn um dagpeninga þessara manna og hve háir þeir eiga að vera, áður en ég tek afstöðu með frv. Ullarmatsmenn eru oft alllangan tíma fjarri heimilum sínum og þurfa að ferðast um, og eins og menn vita, þá kostar það ærið fé. Allir opinberir starfsmenn, sem ferðast um í embættiserindum, fá greiddan ferðakostnað úr ríkissjóði og dagpeninga að auki fyrir fæði. Nú er það svo, að dagpeningar eru geysimismunandi, allt frá 15 kr. upp 125 kr. á dag, og áður en ég tek endanlega afstöðu til frv. þessa, vildi ég fá að vita, hversu háir dagpeningar eru ætlaðir þeim mönnum, sem hér um ræðir. Ég hef fengið að vita það, að í fyrstu voru þeim greiddar 7 kr. á dag, síðan 18 kr. og að lokum hafi dagpeningarnir verið komnir upp í 33 kr., og með tilliti til þess verðlags, sem nú gildir í landinn. þá er það tæplega til að borga fæðiskostnaðinn yfir daginn. Mér fannst rétt að vera með frv., þó að ég skrifaði ekki skilyrðislaust undir það, og n. var sammála um að samþykkja það, en ég vildi aðeins skjóta því til hv. formanns fjvn., að hv. n. tæki til athugunar og samræmingar dagpeninga opinberra starfsmanna, og mundi rétt að gera um það samþykkt á þingi. Allir hljóta að sjá, hversu óviðunandi er það misræmi, sem gildir um dagpeninga, því að það er jafndýrt fyrir ullarmatsmann að borga mat og kaffi á veitingahúsum eins og fyrir flugmálastjóra, vegamálastjóra eða hvern sem er, og þess vegna ætti að sjálfsögðu að vera samræmi í dagpeningagreiðslu til allra þessara manna. Ég vil sem sagt skjóta því til hv. formanns fjvn., að hann taki þetta til athugunar, en ég tek það fram, að skoðun mín varðandi dagpeningana stendur ekkert í vegi fyrir frv. sjálfu og n. var sammála um að samþykkja það óbreytt.