11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

72. mál, dýralæknar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að láta fylgja þessu frv. nokkur orð. Ég hygg, að frv. sé mikið til bóta og getur gefið tilefni til þess að feila saman í eina heild öll þau l., sem nú gilda í þessum efnum.

1. gr. fjallar um það að fjölga dýralæknum úr 5 upp í 9. Flestir hafa séð nauðsynina á þessu, en margir verið tregir til, en ég hygg, að það stafi að mestu leyti af misskilningi og vanþekkingu á málum þessum. En þeim, sem sáu lengra, skildist, að hér var ekki um neina bruðlun að ræða. þó að embættum þessum væri fjölgað. Og þótt ekki væru nú þegar menn fyrir hendi í öll umdæmin, þá gæti það orðið ungum mönnum hvatning til að leggja út í hið erfiða og langa nám, ef þeir hafa tryggingu fyrir að fá embætti strax að því loknu.

Hvort skipting sú, sem gert er ráð fyrir í frv., er rétt eða ekki, skal ég ekkert um segja, en gert er ráð fyrir að bæta við einu nýju umdæmi, Rangárvallaumdæmi, og nær það yfir Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, og er það vafalaust til mikilla bóta, því að þar er um að ræða eitt dýraríkasta hérað landsins og því mikil nauðsyn á dýralækni. Yfirleitt virðist mér skiptingin vera nærri lagi, þó að ég hafi enn ekki athugað það nákvæmlega.

Eins og getið er í frv., er gert ráð fyrir því, að auk þessara 9 dýralækna skuli vera einn yfirdýralæknir og sé embætti hans sérstakt embætti. Það hefur verið draumur okkar dýralæknanna að hafa þetta þannig, enda hjá flestum eða öllum nágrannaþjóðum okkar. Sá maður, sem þessu starfi gegndi, væri nokkurs konar ráðunautur ríkisstj. um heilbrigðismál dýra og nokkurs konar „fysikus“. Hann hefði engan praksís, enda hefði hann nóg annað að starfa. Ég tel mikla þörf á yfirdýralækni. en hins vegar nokkuð hart að skipa sérstakan mann til þess að gegna þessum störfum, meðan dýralæknislaust væri í sumum skepnuríkustu héruðum landsins. Gert er ráð fyrir, að yfirdýralæknir hafi með höndunum kjötskoðun í Reykjavík og Hafnarfirði og ýmislegt fleira eftirlit, sem um getur í frv., og er honum með því séð fyrir nokkrum aukatekjum.

Hvað snertir 8. gr. frv. vil ég sérstaklega benda hv. landbn. á ákvæðin um skýrslugerðina. Þegar um er að ræða næma búfjársjúkdóma, þá er það alls ekki nægilegt, að dýralæknar sendi yfirdýralækni skýrslu um sjúkdómana einu sinni á ári, eða fyrir 1. febr. ár hvert, eins og ráð er gert fyrir í frv. Skýrsla um næma sjúkdóma þyrfti að koma út mánaðarlega, svo að hægt sé að fylgjast með þeim, og væru þessar skýrslur einnig sendar úr landi. við höfum í höndum áskoranir frá Norðmönnum þetta varðandi, og mér er nær að halda, að Danmörk sé einnig á leiðinni með slíkar áskoranir, svo að þessar þjóðir geti fylgzt með þeim sjúkdómum, sem hér herja búpeninginn. Við fáum skýrslur um þessi efni frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, svo að það ætti að vera okkur hvatning til þess að koma viðunanlegri og sjálfsagðri skipun á þetta mál.

Ég lýsi mig sem sagt fylgjandi þessu frv. Ýmislegt smávegis þarf kannske að laga, en ég treysti mér engu að síður til að mæla með því.