03.12.1947
Efri deild: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

72. mál, dýralæknar

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Eins og kunnugt er, hefur því verið hreyft á síðasta þingi og síðustu þingum, að nauðsyn bæri til að auka og efla dýralæknastarfsemina hér á landi. Sú hvatning og sá vilji, sem þar er fyrir hendi, hefur orðið tilefni til þess, að landbrh. skipaði n. manna til að athuga þessi málefni og síðan að undirbúa frv., og er þannig komið, að slíkt frv. hefur nú komið fram í Nd., hefur náð þar samþykki og er svo hingað komið til 2. umr. Breytingin og aukningin er náttúrlega nokkuð víðtæk og þá sérstaklega það, sem er aðalatriðið, að dýralæknum, eins og frv. ber með sér, er töluvert fjölgað, þar sem læknisumdæmin skulu nú vera 9 og þannig lögmælt, að dýralæknar í landinu skuli í rauninni vera 11 samkvæmt frv., því að auk hinna 9 læknishéraða er um að ræða yfirdýralækni og svo einn dýralækni sem skal vera sérfræðingur við tilraunastöð háskólans í meinafræði á Keldum í Mosfellssveit. Það getur náttúrlega orkað tvímælis um takmörk þau, sem læknishéruðunum eru sett í frv., en því máli er þannig háttað, að það er í lengstu lög ágreiningsmál, en sker sig ekkert út úr, þannig að n. þætti ástæða til að hrófla við því, þó að alltaf kunni að vera álitamál um slík takmörk. Auk þess eru í frv. sett ákvæði, sem lúta að aukinni starfsemi, svo sem kjötskoðun, gleggra eftirliti héraðsdýralækna um mjólkurmeðferð. athugun á fjósum og hreinlætisháttum og heilnæmi vörunnar og þar fram eftir götunum, sem er þannig háttað, að ef það á ekki að verða handahóf eitt, þá er það svo mikið starf, að vissulega er ofætlun, að dýralæknar, með svo stór héruð sem enn eru, komist yfir það. Þá er og ákvæði um það, sem horfir til breyt., að ef það vantar lækni til skipunar í ný umdæmi, þá er sú skyldukvöð lögð á herðar nágrannalækni að anna því í bili eftir reglum, sem nánar eru settar. Enn fremur er sú skylda lögð á yfirdýralækni að þjóna hér í næstu sveitum Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þá er sú nýlunda í 13. gr., að ef hörgull er á hinum lærðu og prófuðu dýralæknum, þá má láta hæfa menn og vana því að hjálpa sjúkum dýrum gegna þeim störfum, og hlutaðeigandi yfirvöld geta kvatt þá til þess og fengið til þess styrk, eins og ákveðið er í frvgr. Frv. ber það með sér, að það er reynt á töluvert viðtækan hátt að styrkja þessa merkilegu starfsemi í landinu og haga því að öllu leyti þannig, að heildarstarfið verði aukið og á ýmsan veg nánar ákveðið starfssvið og reglur en áður var um að ræða, og þar sem það sætir svo litlum mótmælum sem raun er á hér á Alþ. og litlar breyt. hafa komið fram í landbn. Nd. þá sýnir það, að einingin er nokkuð almenn og rík hér á Alþ. um þetta mál. Eins og ég gat lauslega um, þá varð sama niðurstaðan hjá landbn. þessarar d., og ber hið fáorða nál. það með sér, þar sem í því stendur það eitt, að n. geri það að till. sinni, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, og vil ég þar með fyrir hönd n. lýsa þeirri till. og óska, að svo megi verða.