03.12.1947
Efri deild: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

72. mál, dýralæknar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. og tel það mikla réttarbót frá því, sem nú er. Það er í öllum aðalatriðum svipað og koma fram í því sömu sjónarmið og í þeim till., er ég lagði hér fram í fyrra, en þá voru felldar.

Þó er það ekki þetta, sem gaf mér tilefni til að standa upp, heldur hitt, að ég vil benda á það og beina því til sessunautar míns, sem er form. fjvn., að samhliða því, sem þetta frv. verður að l., þarf að taka til rækilegrar endurskoðunar þann lið í fjárl., sem nú er ætlaður sem styrkur til ólærðra manna til að stunda dýralækningar. Það hefur orðið tilviljun, hverjir hafa fengið þessa styrki. Eins og menn vita, hefur fjvn. ekki fengizt til þess undanfarið að láta þm. vita, hvaða menn það væru, sem fengju þessa styrki, heldur sent yfir þá lista í stjórnarráðið. Ég sá seint í sumar, þegar ég fór upp í stjórnarráð til að athuga, hvort einn maður, sem ég hef tekið móti styrk fyrir, hefði fengið styrk, að sumum var ætlaður styrkur, sem ekki eru lengur í tölu lifenda, og aðrir, sem ætlaður var styrkur, höfðu ekki tekið hann í fleiri ár, af því þeir hafa ekki bugmynd um, að þeim hafi verið ætlaður hann. Nú, þegar þetta frv. kemur til framkvæmda, þá fellur það í hlut viðkomandi sýslunefnda að ákveða, þar sem ekki eru dýralæknar, hverjir eigi að fá þennan styrk, og þá liggur það í hlutarins eðli, að Alþ. getur ekki annað en ákveðið ákveðna upphæð á fjárl. til úthlutunar til þeirra manna, sem viðkomandi héraðsyfirvöld ráða sem aðstoðardýralækna, að fengnu leyfi yfirdýralæknis. Það er bara þetta, sem ég vildi benda hv. fjvn. á að athuga, þegar hún fer að ákveða fjárl. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. verði samþ., því að það er enginn ágreiningur um það nú, sem betur fer.