15.12.1947
Neðri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

111. mál, bráðabirgðafjárgreiðslu 1948

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þar sem þess er getið af hv. fjhn., að einstakir nm. megi koma með aths. við frv. þetta, þá kemur það engan veginn á óvart, þó að menn komi með aths. sínar. Hins vegar virðist mér, að hv. 2. þm. Reykv. velji hér of lítið efni sem tilefni til sinna stórpólitísku bollalegginga. Það er hægurinn á hjá hv. deild að breyta þessu, en það að ég setti þetta í greinina var með hliðsjón af reynslu frá fyrri árum og þar með s.l. ári, en hún hefur verið á þá leið, að alltaf hefur þurft að framlengja þessar heimildir um fjárgreiðslur, og hefur það orðið allkvabbsamt fyrir fjmrh. Það var átalið mjög s.l. ár af hv. 2. þm. Reykv. og flokksmönnum hans, að fjárlagafrv. hefði verið of seint lagt fram og að seint gengi að afgreiða það. Það hefur að vísu dregizt eitthvað um 3 vikur, og ég verð að játa, að á því voru ýmsir gallar, enda var það ekki að furða, þar sem varð að leggja það fram svo að segja í blindni. Vísitalan fór þá hækkandi og illt að ákveða margt í frv., meðan ekkert fast var til að ganga út frá í því efni. Þegar hv. 2. þm. Reykv. þykist nú alveg koma af fjöllum út af því, að ekki skuli enn vera búið að afgreiða fjárlög, þá lokar hann algerlega augunum fyrir augljósum staðreyndum, sem honum er vel kunnugt um eins og öðrum þm. Hann veit, að sleitulaust hafa farið fram samtöl og fundarhöld og að samningar og áætlanir hafa verið gerð í sambandi við verðlagsmál þjóðarinnar, og hann veit, að áður en á sæmilegan grundvöll er komið í þeim málum. er ekki hægt að taka fjárlagafrv. til endanlegrar athugunar og ákvörðunar.

Ég vil segja það við hv. 2. þm. Reykv. og aðra þá, sem trúa á fyrirframgerðar áætlanir um þjóðarbúskapinn, að hætt er við, að hinar stórfelldu sveiflur, sem sífellt verða í atvinnulífi og þjóðarbúskap, hljóti að gera þessar áætlanir loftkenndar mjög, og koma þær því að litlu eða engu gagni. Eitt tímabilið getur verið ótryggt og útlit hið versta, en svo getur það skyndilega breytzt til batnaðar, og sem betur fer, hefur svo orðið í þetta sinn. Margt af því, sem menn töldu með öllu glatað, hefur nú óvænt fundizt, og grundvöllurinn undir atvinnulífinu hefur óvænt breytzt til muna. Ég tek þetta til dæmis um þær sveiflur, sem alltaf geta orðið í atvinnulífi þjóðarinnar. Ég er, eins og ég hef áður sagt, sannfærður um, að notagildi þeirrar „planökónómi“, sem hv. 2. þm. Reykv. og flokksmenn hans eru fylgjandi og gera svo mikið úr, kemur ekki alltaf að gagni, þótt svo kunni stundum að vera. Þær áætlanir frá fjárhagsráði, sem hv. 2. þm. Reykv. var að inna mig eftir, hef ég ekki. Ég hef eina mikilvæga skýringu á drætti fjárlaganna, en hún er sú, að viðleitni allra flokkanna hefur miðað að því að finna fastan grundvöll fyrir atvinnulífið, en það hlaut og hlýtur að taka langan tíma, þar sem svo margs er að gæta og margt að athuga og framkvæma í verðlagsmálum þjóðarinnar. Þetta hljóta allir þm. að skilja. Þegar litið er á þetta og margt annað, þá er það byggt á öllum forsendum, að ekki gat talizt hyggilegt að flýta afgreiðslu né samningu fjárlagafrv.

Það er þess vegna ekki eins ámælisvert og hv. 2. þm. Reykv. og flokksmenn hans hafa viljað halda fram, að farið er fram á þessa heimild til bráðabirgðafjárgreiðslna. Hv. 2. þm. Reykv. veit það vel, að ríkissjóður hefur oft áður innt slíkar greiðslur af hendi, og hann veit einnig. að nú er nauðsyn á þessu, þótt hann hins vegar viðurkenni það ekki, af því að flokkur hans er nú ekki í stjórn.

Ég hef ekki fleira um þetta að segja nú, en vænti þess, að frv. komist til 2. umr. og að það geti orðið samkomulag um viðunandi afgreiðslu á máli þessu, eins og oft áður, þegar um slík mál hefur verið að ræða.