16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

111. mál, bráðabirgðafjárgreiðslu 1948

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Eins og ég sagði við 1. umr. þessa máls, finnst mér rétt að takmarka þessa heimild. Ég vil vekja athygli á því, hvernig 1. gr. frv. er orðuð, en hún kveður svo á, að ríkisstj. skuli heimilt að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárl. fyrir 1947 öll venjuleg rekstrarútgjöld ríkisins og önnur gjöld, sem talizt geta til venjulegra fastra greiðslna. þótt þau séu aðeins ákveðin eða heimiluð til eins árs í senn. Þetta þýðir, að fjárl. eru framlengd í heild. Þessi ótakmarkaða heimild getur því þýtt, að verið sé að afgreiða fjárl. fyrir allt næsta ár. Mér finnst óviðfelldið að afgreiða þetta mál á þann hátt og tel þess ekki þörf. Ég hef því flutt skrifl. brtt. þess efnis, að aftan við 1. gr. bætist: „Heimild þessi gildir þó eigi lengur en til 1. marz 1948.“ Ég vil mælast til þess, að d. fallist á þessa till. mína, og bið hæstv. forseta að leita afbrigða.