08.12.1947
Neðri deild: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

102. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. á þskj. 155, sem er um almannatryggingar og breytingar á l. um þær. Eins og kunnugt er, þá er þetta frv. flutt af n. samkvæmt ósk félmrh. Eins og kunnugt er, átti III. kafli l., um heilsugæzlu, að koma til framkvæmda 1948. En eins og getið er um í grg. frv., þá hefur ekki enn náðst samkomulag við ýmsa aðila, sem nauðsynlegt þótti, svo að hægt yrði að framkvæma III. kafla þessara l. Í þeim kafla er gert ráð fyrir, að ríkisstj. ráði lækna, sem verði fastlaunaðir starfsmenn við stofnunina. Enn þá hefur ekkert samkomulag náðst milli læknanna og tryggingastofnunarinnar um laun og kjör, og ekki fyrirsjáanlegt, að samkomulag um þau efni náist fyrir n.k. áramót. Af þessum o.fl. orsökum er lagt til að fresta þessum þætti almannatrygginganna.

Breytingar þær, er hér er farið fram á, eru í 11 liðum í sömu gr. Aðalbreyt. felst í 1. gr. 1. Tölul., þar sem það er lagt til að heimila ríkisstj. að ákveða, að frestað verði um eitt ár framkvæmd III. kafla l., þ.e. um heilsugæzlu og sjúkrahjálp. Breyt. frá því, sem nú er, eru ekki miklar. Gert er ráð fyrir, að sjúkrasamlög starfi áfram eins og undanfarin ár með þeim breytingum, að hámark framlaga ríkissjóðs og sveitarsjóða hækki úr 12 kr. í 18 kr. fyrir hvern meðlim. Þegar l. voru sett, árið 1943, þá voru öll gjöld lægri en nú, því að nú á síðari árum hafa þau hækkað sökum almennrar dýrtíðar og vegna þess, að sjúkrakostnaður hefur hækkað mikið. Eins og kunnugt er, er samkvæmt þeim l. ríkissjóði og sveitarsjóðum skylt að greiða frá á móti samlagsmeðlimunum. Nú er svo komið, að iðgjöld ýmissa samlaga eru komin upp í 10–15 kr. á mánuði. Þetta hámark á eingöngu að gilda um Reykjavík og kaupstaði, því að í sveitum úti um land eru mörg samlög með 5 kr. gjöld á mánuði, og er þá ekki ætlazt til, að hámarkið verki hjá þeim, heldur eingöngu hjá þeim, sem eru komnir upp t 10 kr. og þar yfir.

Í öðrum tölul. er ríkisstj. heimilað að greiða sjúkrasamlagsiðgjöld fyrir gamalmenni og þá öryrkja, sem fá meira en helming tekna sinna úr tryggingasjóði. Það þykir rétt, að tryggingastofnunin greiði iðgjöld fyrir öryrkja og gamalmenni, og er þess vegna hér farið fram á að greiða iðgjöld, sem nema um einni millj. kr. á ári. Enn fremur er gert ráð fyrir í 3. tölul. að veita fé úr tryggingasjóði til læknisvitjanasjóða samkv. 1. frá 1942, sem talið er, að nemi 300 þús. kr., og þykir ekki fært sökum mikils kostnaðar við sjúkraflutninga að fresta framkvæmdum í þessu efni.

Það er eins og kunnugt er mikil óánægja með ýmis atriði tryggingal. Eins og vitað er, eru margar raddir, sem komið hafa viða að, um að breyta þurfi l. mikið, sérstaklega 12. gr., sem er mikill þyrnir í augum ýmsum félagssamtökum í landinu, því að það gjald, sem þar er krafizt, hið svo kallaða atvinnurekendagjald, þ.e.a.s. gjald, sem allir atvinnuveitendur inna af hendi af öllum þeim aðilum, er hjá þeim vinna fyrir kaupi, hefur þótt nokkuð hátt og óréttlátt. Eins og kunnugt er, eru allar greiðslur mun lægri á 2. verðlagssvæði en fyrsta. Því er lagt til að lækka iðgjöldin um 25% á öðru verðlagssvæði. Enn fremur, að heimilað sé að endurgreiða á árinu 1948 25% af þeim gjöldum, sem innheimt voru 1947, og endurgreiðist þau, þegar þinggjöld verða innheimt á árinu 1948. Nemur sú lækkun um 50% fyrir þetta ár. Ég skal geta þess, að það er ekki eins mikið og margur mundi óska, því að það er almennur vilji fyrir því, að þetta gjald verði afnumið til fulls. Ég skal ekki segja, hvað Alþ. gerir í því, því að það er töluverð lækkun, sem þarna er farið fram á á næsta ári fyrir þá, sem þetta gjald inna af höndum.

Þá er það 5. tölul. Þar er gert ráð fyrir, að miðað verði við 315 vísitölustig, og er þá miðað við það, sem ætla má, að meðalvísitalan fyrir árið 1947 verði. Er þá áætlað að innheimta með því öll gjöld, eins og gert hefur verið undanfarið. Þá er lagt til, að heildarframlag sveitarfélaganna verði lækkað um 900 þús. kr. í grunnupphæð, vegna þess að heilsugæzlan kemur ekki til framkvæmda á árinu.

Um aðrar breyt. þarf ég ekki mikið að segja. Þó vil ég aðeins minnast á tölul. 11. Þar er gert ráð fyrir, að á síðari hluta næsta árs liggi fyrir skýrslur og reikningar fyrir árið 1947, og þá ætti einnig að vera hægt að fá sæmilegt yfirlit yfir a.m.k. fyrra missiri ársins 1948. Því er haldið fram, og það mun vera rétt, að ekki sé gott að endurskoða l. fyrr en búið sé að fá reynslu á framkvæmd þeirra. Enn þá er engin reynsla fengin fyrir árið 1947. En á árinu 1948 verður búið að fá gert upp fyrir 1947, og þá sést, hvernig framkvæmdin hefur orðið, og þá er hægt að átta sig á því og gera breyt., þegar það uppgjör liggur fyrir.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt og að allir séu því fylgjandi, að endurskoðun sé lokið fyrir árslok 1948.

Það munu vera mjög háar raddir um að fá l. breytt, og liggur hér þegar fyrir Alþ. frv. um að breyta þeim. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara út í það. Fundartíminn er nú rétt búinn, og þessu frv. liggur á og nauðsynlegt, að það verði afgr. á þessu þingi fyrir miðjan þennan mánuð, því að það þarf miklar breyt., ef sjúkrasamlögunum er ætlað að hætta störfum um áramót. En ef þetta verður að l., þá er því öllu breytt og því nauðsynlegt, að þessu verði komið í kring fyrir áramót.

Ég skal ekki að svo komnu máli hafa þetta lengra nú, en óska, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. að þessari lokinni. Þar sem frv. er flutt af n., sé ég ekki ástæðu að vísa því til nefndar. N. mun athuga það milli umr.

Ég óska svo, að frv. verði vísað til 2. umr. og þdm. sjái sér fært að afgreiða það sem fyrst, því að það þolir enga bið, úr því sem komið er.