12.12.1947
Neðri deild: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

102. mál, almannatryggingar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það má segja, að þetta frv. sé nokkur bót frá því, sem fyrir er. Þó eru mér það mikil vonbrigði, að þær breytingar, sem gera á, skuli ekki ná lengra. Einkum á ég þar við 112. gr., því að sannleikurinn er sá, að hún hefur hvílt svo þungt á mörgum, að þeir hafa vart undir risið. Ég tel því ekki aðeins þörf á, að þessari grein sé breytt, heldur eigi hún raunverulega að falla burt, og um þetta atriði verður að sverfa til stáls. N., sem hefur þetta mál til meðferðar, er að vísu ekki enn þá búin að skila sínum brtt., en eftir því sem frsm. n. skýrði hér frá, þá sér hún sér ekki fært að flytja till. um meiri lækkun en 25% á 112. gr., en það álít ég ekki fullnægjandi. En vegna þess, að ég geri ráð fyrir, að erfitt verði að fá 112. gr. alveg fellda niður, sem ég teldi þó æskilegast, þá leyfi ég mér að flytja skriflega brtt., að í stað 25% komi 90%, en með því verða aðeins 10% eftir, og ætti það að verða viðráðanlegt. Mér er ljóst, að enda þótt þessi brtt. verði samþ., þá er margt fleira í þessari löggjöf, sem þörf er að lagfæra, þó að þetta sé eitt veigamesta atriðið.