17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

102. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Það er nokkuð langt síðan 2. umr. fór fram um þetta mál, sem þá varð ekki lokið. Þá var lýst hér 2 brtt., sem nú eru komnar á prent og útbýtt hefur verið fyrir nokkru.

Um brtt. á þskj. 188, frá hv. þm. A-Sk., er það að segja, að ég tel hana óþarfa, því að eins og l. eru nú framkvæmd á þessu ári, þá er í þessari gr. skýrt tekið fram, að sjúkrabætur samkvæmt III. kafla hinna almennu tryggingal. skuli svo vera. Og um þetta atriði hefur verið leitað álits þriggja lögfræðinga, sem ber saman um það, að enda þótt framkvæmd þessa kafla sé frestað, þá sé þetta ákvæði í gildi, enda hafa l. verið framkvæmd eftir þeim skilningi. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að engin hætta sé á því, að þeir, sem njóta eiga þessa styrks, verði fyrir neinu tjóni, þó að þessi brtt. verði ekki samþ. Hún er alveg þýðingarlaus og algerlega óþörf, og vildi ég mælast til þess, að hv. þm. vildi taka hana aftur.

Þá er brtt. á þskj. 187, frá hv. 2. þm. Rang., við 1. gr. frv. og gengur út á það, að í stað 25% í 4. lið komi 90%. Mér þykir einkennilegt, að þessi brtt. skuli koma fram. Þegar l. um almannatryggingar voru til umr. 1946, var því mjög haldið fram, bæði af framsóknarmönnum og n., sem fjallaði um málið, og fleiri hér á Alþ., að þessi lagasetning um almannatryggingar væri mjög hæpin og mundi reynast ákaflega erfið í framkvæmdinni, það mundi verða erfitt að standa undir öllum þeim skuldbindingum fyrir skattþegna landsins. En málið var sótt af kappi, og þrátt fyrir öflug mótmæli var frv. um almannatryggingar samþ. sem lög frá Alþingi.

Það mun vera óhætt að segja, að þótt þessi löggjöf sé ekki búin að vera í gildi nema eitt ár, þá geri ég ekki ráð fyrir, að hv. Alþ. sjái sér fært að afnema þá löggjöf aftur, því að l. fela í sér svo miklar réttarbætur fyrir ýmsa menn, eins og gamalmenni og öryrkja og slíkt fólk, að ég tel, að ekki megi gera l. óstarfhæf. En það fullyrði ég, að ef þessi brtt. verður samþ., þá verða l. óstarfhæf næsta ár. Hér er farið fram á að nema úr gildi háan tekjustofn, sem ég viðurkenni, að er ranglátur að ýmsu leyti og þarf að breyta, eins og alltaf er verið að, en að nema hann úr gildi án þess að nein tekjuöflun komi í staðinn tel ég ekki vera fært, því að það er vitað, að vegna þessarar gr. rennur til trygginganna um 12 millj. kr., og er það þá augljóst mál, hvernig hægt væri að standa í skilum með greiðslur samkvæmt tryggingal., ef þessi liður væri felldur niður. Eins og ég lýsti, þá liggur fyrir till. um, að þetta lækki um 25% á II. verðlagssvæði og að auk þess fái þeir, sem á því svæði eru, endurgreidd þessi 25% af því, sem þeir borguðu á yfirstandandi ári. Þetta er mikil réttarbót og ekki nema sjálfsögð. Og auk þess hefur verið ákveðið með reglugerð, eins og ég lýsti hér um daginn, að störf unglinga, sem vinna hjá foreldrum sínum og lítið kaup taka, skuli gagnvart iðgjaldagreiðslum þessum metin til vinnuvikna þannig, að ársdvölin jafngildi 13 vikum og skemmri vinna á sama hátt 1/4 dvalartímans. Auk þess liggur nú hér fyrir brtt., sem ég lýsti við 2. umr., um það, að öll börn, þó að þau séu 20 ára og hvaða kaup sem þau fá, skuli koma undir sömu ákvæði og unglingar 16 til 20 ára að því er þessi l. snertir. Og þetta er stórmikil réttarbót frá því, sem er. En ég tel, að þetta gjald eigi með öllu að falla niður. Og það verður gaumgæfilega athugað við endurskoðun l., sem fram fer á mesta ári. En fyrir þá, sem ekki vilja gera almannatryggingal. óhæf til að framkvæmast á næsta ári, tel ég varasamt að samþykkja þessa brtt. svona án þess að gera ráð fyrir neinum tekjustofni á móti. — Í frv., sem ekki er komið verulega til umr., frá hv. þm. V-Húnv. o.fl., er gert ráð fyrir að fella þessa gr. alveg niður, en flm. þess frv. benda þó í frv. á tekjustofn, sem á að gefa tekjur a.m.k. að einhverju leyti til uppbótar á þeirri niðurfellingu. Hvað um þetta frv. verður, skal ég ekki um segja. Það hefur verið sent til umsagnar nokkurra aðila og liggur hjá heilbr.- og félmn., en n. er ekki búin að taka afstöðu til þess máls. Hver sú afstaða verður, skal ég ekki fullyrða um að svo stöddu. Ég er fylgjandi ýmsum ákvæðum, sem þar er farið fram á að lögfesta, og eins, að 112. gr. verði felld niður. En þá verður líka að koma með einhverja tekjustofna á móti. — En ef á að samþykkja svona till. eins og þá, sem ég gat um, við frv., sem hér liggur fyrir, og ekkert kemur á móti, þá væri það nákvæmlega sama og ef við 3. umr. fjárl. kæmi fram og væri samþ. till. um að nema úr gildi t.d. tekju- og eignarskatt eða verðtoll eða eitthvað þess háttar, sem yrði mjög vinsælt hjá almenningi í landinu. En það er bara ekki fært. Alveg sama er um tryggingalöggjöfina. Það er búið í sambandi við hana að gera fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, þar sem reiknað var með þessum tekjustofni. Og það verðum við að gera okkur ljóst, að et á að samþykkja svona breyt. alveg út í bláinn án þess að benda á nokkurn tekjustofn á móti, þá er það sama og að gera almannatryggingal. óstarfhæf, með öðru móti en því að draga stórlega úr greiðslum til bótaþega, sem með þeim h eru ákveðnar. Ég mælist því til þess, að hv. flm. þessarar brtt. taki hana aftur til 3. umr., svo að hægt verði að ná samkomulagi um það, hvernig eigi að ná tekjustofnum á móti þessari skerðingu á tekjum trygginganna og hvernig þessu verði bezt fyrir komið.