17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

102. mál, almannatryggingar

Pétur Ottesen:

Mér þykir þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. og flutt er af hv. heilbr.- og félmn., bera dálítið einkennilega að í vissum atriðum. Löngu áður en hv. n. bar fram þetta frv. hafði verið vísað til hennar frv., sem 6 þm. í þessari d. standa að, um breyt. á almannatryggingal. En afgreiðsla á því frv. af hálfu n. hefur engin fengizt enn sem komið er. Hins vegar hefur þessi hv. n. tekið að sér flutning þessa frv., eins og tryggingaráð hefur búið það í hendur n. Að vísu stendur um þetta í grg. frv., að einstakir nm. áskilji sér rétt til þess að bera fram brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Þannig hafa hv. nm. um það fyrirvara, að þeir séu ekki bundnir við ákvæði þessa frv. frekar en verkast vill. Það er í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að mér skilst, aðeins í einu atriði komið inn á þau ákvæði, sem felast í frv. sexmenninganna í þessari hv. d., sem áður hafði verið vísað til hv. n., eins og ég minntist á. Og það er um ákvæðin í 112. gr. tryggingal. Í þessu frv. sexmenninganna er gert ráð fyrir, að þessi gr. falli niður, þ.e.a.s., að þau atvinnurekendaiðgjöld, sem þar er um að ræða, verði látin niður falla. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er því svarað með þeim hætti að fella niður eða heimila ríkisstj. að fella niður að einum fjórða hluta þessi gjöld á Il. verðlagssvæði fyrir árið 1948. Lengra nær það ekki. Eftir þennan tíma verður þetta gjald innheimt að fullu eftir þessu frv., sem fyrir liggur, því að það breytir ekki l. sjálfum. Enn fremur er talað um í þessari sömu gr. frv., að þessi 25% lækkun megi einnig ná til ársins 1947. Það er ekki fyrirskipun, að þetta skuli gera, heldur er þetta lagt á vald tryggingaráðs, og ef því sýnist svo, þá má það gera þetta. Og ég skal ekki segja um það, hver framkvæmd mundi á því verða. Frá mínu sjónarmiði er sú lækkun, sem felst í þessu til handa atvinnurekendum, allsendis ófullnægjandi. Ég skal ekki ræða um þetta sérstaklega. Það hefur verið gert mjög rækilega af 1. flm. frv., sem flutt hefur verið um að fella algerlega niður þessa gr., og það var enda viðurkennt af hv. 1. þm. Rang., að hann sé fylgjandi því, að 112. gr. tryggingal. verði felld niður. En honum þykir viðurhlutamikið að gera þetta, án þess að séð sé fyrir því fé, sem þarf að vera fyrir hendi, þannig að þetta valdi ekki verulegri skerðingu á þeim hlunnindum, sem tryggingalöggjöfin hefur upp á að bjóða. Þó virðist tryggingaráðið vera á því, að fært sé, án skerðingar á hlunnindum, að feila niður 25% af þessu gjaldi á næsta ári og einnig yfirstandandi ári. Þetta sýnir þó það, að það eru nokkuð rúm fjárráð þarna, þar sem tryggingaráð lítur svo á, að hægt sé að gera þetta án þess að nokkrar nýjar tekjur komi til. — Nú hafði okkur, sem stöndum að þessu sex manna frv. til breyt. á tryggingal., alls ekki komið til hugar að leggja til, að þessi gr. væri felld niður, án þess að nýir tekjustofnar væru fundnir í staðinn fyrir tryggingarnar. Það er þess vegna einn liðurinn í okkar frv. að leggja til. að nýr tekjustofn verði upp tekinn, sem er, að skattur, sem miðaður sé við tekjuskatt, 2% af tekjum umfram 5000 kr., sem hver maður verður að greiða, renni til trygginganna.

Þar sem þetta frv. frá sex hv. þdm., sem felur í sér breyt. á tryggingal., sem frá sjónarmiði okkar flm. er eðlilegt, að gerðar séu, liggur enn þá hjá n., þá vildi ég nú gera þá fyrirspurn til heilbr: og félmn., hvort hún sæi sér ekki fært að taka þennan 4. lið út úr þessu frv., sem hér liggur fyrir, og láta hann bíða aðgerða n. á sex manna frv., sem ég nefndi, og taka hann þar með. Og þá skilst mér, eftir því sem hv. frsm. hafa farizt orð, þar sem hann er því fylgjandi, að 112. gr. verði felld niður, ef tryggingunum sé séð sæmilega fyrir tekjum í staðinn, þá skilst mér, að hann gæti fallizt á að fella niður iðgjöld atvinnurekenda, sem ákvæði eru um í 112. gr. Ég vildi þess vegna skjóta því til hv. n., hvort hún vildi ekki taka þennan 4. lið út úr frv. þessu, sem fyrir liggur til umr.

Mér skilst, að þar sem í þessu frv., sem fyrir liggur til umr., séu ýmis ákvæði, sem bundin eru við áramót, þá sé nauðsynlegt, að þetta frv. að því leyti til verði afgr. nú fyrir áramótin. Og skal ég ekkert fara út í að ræða um þá breyt. á tilhögun trygginganna, sem að því leyti til felst í þessu frv. Það eru sjálfsagt mikilsverðar ástæður, sem liggja til þess, að þessi skipulagsbreyt. sé gerð, og ég ætla ekki að mæla gegn. Ég vil nú heyra ummæli hv. frsm. um þessi tilmæli frá minni hendi. Ég sé ekki, að það þurfi að koma í neinn verulegan bága við þá skipulagsbreyt., sem í þessu frv. að öðru leyti felst, þó að beðið væri með þetta ákvæði, sem í 4. lið frv. felst, þangað til afgr. væri frv. frá okkur sexmenningunum hér í hv. d.

Annað atriði vildi ég minnast á. Það er í 5. lið, þar sem gert er ráð fyrir að lækka nokkuð gjöld til trygginganna fyrir ógift fólk, eldra en 20 ára, sem dvelur á heimilum foreldra sinna. Þetta, að svona er heimilað að fara að, bendir til þess, að reynslan hefur sýnt, að tryggingasjóðurinn hafi nokkuð rúm fjárráð.

Enn annað vildi ég benda á. Það er það, að gert er ráð fyrir því, að miðað sé við vísitöluna 315 við innheimtu framlaga til trygginganna. Nú eru líkur til þess, að gengið verði frá löggjöf, þar sem vísitalan verði bundin í 300 stigum. Þess vegna skilst mér, að þessu ákvæði hljóti að verða breytt í samræmi við það. — Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta. En mér finnst, að eðlilegasta tilhögunin á afgreiðslu þessa máls væri sú, að afgreiðsla þess ákvæðis, sem felst í 4. lið þessa frv., sem fyrir liggur, væri látin bíða eftir afgreiðslu frv. á þskj. nr. 99, því að ég efast ekki um það satt að segja, að þetta þing muni taka til greina að meira eða minna leyti þær breyt., sem farið er fram á í því frv. að gera á tryggingal. Í þeim efnum virðist vera um svo augljósa annmarka að ræða á tryggingunum, að sjálfsagt sé að mæta þeim óskum, sem fram koma í því frv., um, að breyt. séu þar á gerðar. Ég viðurkenni það fullkomlega, sem fram kom hjá hv. frsm., að það sé viðurhlutamikið að gera svo stórstíga breyt., sem felst í því að fella niður iðgjöld atvinnurekenda samkvæmt 112. gr. l., án þess að séð sé fyrir nýjum tekjum í staðinn. En það er gert í því sama frv., þessar tekjur eru þar tryggðar, svo að þó frv. okkar sex þdm. yrði samþ., þá mundi það ekki draga úr gildi eða þýðingu trygginganna að því er þá tryggðu snertir.