11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

74. mál, nafnbreyting Vinnuveitendafélags Íslands

Flm. (Hallgrímur Benediktsson):

Herra forseti. Um frv. það, sem ég flyt hér á þskj. 91, varðandi nafnbreytingu á Vinnuveitendafélagi Íslands, get ég verið mjög fáorður, því að hér er um að ræða formsatriði, en eigi efnisatriði. Get ég að mestu leyti vísað til grg. þeirrar, er frv. fylgir, en vildi þó aðeins taka það fram, að Vinnuveitendafélagi Íslands hafa verið veitt ýmis réttindi, og vildi ég þar sérstaklega benda á vinnulöggjöf þá, sem um ræðir í l. nr. 80 11. júní 1938, en í 39. gr. þeirra laga er Vinnuveitendafélagi Íslands veittur réttur til þess að skipa einn dómanda félagsdóms. Félagið hefur ástæðu til að ætla, að það mundi glata þeim rétti sínum, ef það breytti nafni, án þess að sett yrðu l. á þann hátt, sem um ræðir í frv. Ég vil minna á það, að nafnbreyting þessi er aðeins formsatriði, en ekki um að ræða neina efnislega breyt. Nafnbreytingin er aðallega fram komin fyrir tilmæli sérgreinafélaga innan félagsins, sérstaklega fyrir tilmæli Félags íslenzkra iðnrekenda, og þær smábreyt., sem gera þyrfti á l. í sambandi við þetta, yrðu, eins og ég hef áður tekið fram, ekki nema formsatriði. Ég vildi því mælast til, að frv. nái fram að ganga, og leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta og hv. þm., hvort senda beri málið til n. Að öðru leyti vísa ég til grg. og vænti góðrar fyrirgreiðslu frv. varðandi.