16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

113. mál, stýrimannsskírteini og vélstjóraskírteini

Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. flytur þetta frv. að beiðni hæstv. samgmrh., og er það um að veita tilteknum manni stýrimannsréttindi á íslenzkum skipum. Þessi maður hefur tekið sjóliðsforingjapróf í Danmörku og hefur því hlotið þá menntun, sem íslenzk l. krefjast. Við umr. um þetta mál í n. kom fram, að ýmsir menn hefðu álitið heppilegra, að inn í l. um atvinnu við siglingar væri sett heimild handa ríkisstj. til að veita íslenzkum ríkisborgurum, sem líkt stendur á um, slíkan rétt, án þess að um það þurfi að setja sérstök l. En þar sem upplýst var frá kennslumrh., að hann hefði þegar skipað menn til að endurskoða l. um atvinnu við siglingar, taldi n. eftir atvikum rétt að láta það bíða, þangað til sú endurskoðun lægi fyrir, í trausti þess, að þetta mál yrði þá tekið til athugunar. Ég hef leitað umsagnar skólastjóra stýrimannaskólans um málið, og mælir hann eindregið með, að þessum manni verði veitt þessi réttindi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, því að það liggur ljóst fyrir, að sú menntun, sem þessi íslenzki ríkisborgari hefur hlotið, er langtum meiri en sú, sem krafizt er í stýrimannaskólanum fyrir sams konar réttindi.