30.10.1947
Efri deild: 11. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram frv. á þskj. 56 um smíði tveggja þilfara togara í tilraunaskyni. Samkv. 1. gr. frv. er ætlazt til þess, að ríkissjóður láti smíða í tilraunaskyni einn tveggja þilfara dieseltogara með öllum nýtízku vélum og útbúnaði til fullkominnar hagnýtingar á fiski og vinnuafli, þannig að hirða megi allan afla, hverju nafni sem nefnist, og breyta honum í sem verðmætasta vöru á skipsfjöl, og að undirbúningur undir þetta verk sé hafinn nú þegar og smíði skipsins lokið fyrir árslok 1949. Einnig, að til þessara framkvæmda verði ríkisstj. heimilað að taka til láns 4 millj. kr. fyrir hönd ríkissjóðs. En það mun, eftir því verðlagi, sem nú er á skipum, nægilegt til þess að standa undir þessum kostnaði.

Það þykir kannske einkennilegt að bera fram frv. sem þetta, þegar ríkisstj. stendur fyrir því að láta smiða yfir 30 nýtízku togara, sem sumir eru komnir til landsins og sumir koma í lok þessa árs eða á næsta ári. sérstaklega þegar komið hefur á daginn, að þessi skip eru ekki aðeins langtum betur útbúin en nokkur önnur skip, sem við höfum átt, heldur eru þau betur útbúin en nokkurrar annarrar þjóðar togarar. Vil ég fara hér nokkrum orðum um ástæðurnar fyrir þessu, að þetta frv. er þrátt fyrir þetta allt borið hér fram.

Þegar ensku tilboðin komu 1945 um smíði 30 togara fyrir okkur Íslendinga, voru þessi tilboð byggð á því allra bezta, sem þekktist um smíði togara í Englandi. Það var tekið þar upp í þeim tilboðum allt, sem þá hafði bezt þekkzt á þessu sviði meðal brezkra útgerðarmanna. Og þeir menn, sem önnuðust þessi tilboð í Bretlandi, höfðu enga þekkingu, sem ekki var heldur von, til þess að geta dæmt um, hvort það gæti fallið inn í kröfur og þarfir okkar Íslendinga að smíða togara fyrir okkur á þann veg. Þeim var ekki falið annað en að fá tilboð um það bezta, sem fáanlegt væri í því landi, og tryggja stöðvar til þess að framkvæma smíði togaranna. Strax og þessi tilboð komu til Íslands, lét ríkisstj. tilnefna ákveðna menn, sem færir væru til þess að dæma um þessi tilboð með tilliti til útbúnaðar skipanna og þar með íbúða skipverja og þægindi. Þessi nefnd varð sammála um það, að eins og tilboðin lægju fyrir, væri ekki hyggilegt að taka þeim, ekki vegna verðsins á skipunum, heldur vegna útbúnaðar og aðbúnaðar á skipunum. Það var því ákveðið af þessari sömu ríkisstj. að senda sérstaka menn til þess að fá þessu breytt, ekki til þess að afla tilboða heldur til þess að fá skipunum breytt á þann veg, sem við gætum við unað og hægt væri að bjóða íslenzkum sjómönnum og samræma skipin við íslenzka staðhætti. Það var miklum erfiðleikum bundið yfirleitt á því stigi málsins að fá komið fram þeim breyt., sem viðkomandi nefnd hafði gert till. um og varð sammála um. Þessar till. til breyt. voru komnar fram sumpart fyrir reynslu þeirra manna, sem bezt þekktu til þessara mála á síðustu árum, en sumpart teknar upp úr þeim till., sem komu fram í samkeppninni, sem Samtrygging íslenzkra botnvörpunga efndi til um teikningu á framtíðar togurum fyrir landsmenn. Allar umbætur, sem fram koma á þessum nýju togurum frá eldri gerðum, eru teknar upp úr till., sem komu fram í þessari samkeppni. Erfiðleikarnir á að fá þessum breyt. framgengt voru tvenns konar. Annars vegar vegna þess, að fyrir utan dyrnar hjá þessum mönnum, sem tóku að sér smiði togaranna, voru aðilar, sem kepptust um að fá byggð eins mörg eða fleiri skip eftir aðferðum Englendinga. Og það út af fyrir sig var miklu auðveldara að fullnægja óskum þeirra aðila en að fara inn á nýjar leiðir. Hins vegar lágu erfiðleikarnir í því, að verksmiðjurnar töldu, að hér væri af Íslendingum farið fram á svo mikla byltingu í smiði skipanna, að þeir, sem verksmiðjunum stýrðu, þorðu ekki að taka ábyrgð á því, að slíkar breyt. gætu orðið með fullum árangri fyrir kaupendur eða þá, sem stóðu að smíðinni. Þeim var að vísu kunnugt um það, að þetta átti að gera á ábyrgð kaupenda. En samt sem áður var þeim ljóst, að ef smíðaðir væru 30 togarar, sem mistækjust, — ekki einn, heldur allir, — þannig að ekki væri hægt að fá þann árangur, sem ætlazt var til, þá mundi ekki vera hægt að selja þessa togara til annarra þjóða og vafi væri á því, hvort íslenzka þjóðin gæti þolað það áfall, að togararnir mistækjust. Og þeir vildu ekki vera með í þeim leik, ef svo skyldi fara. Samt sem áður tókst að fá samkomulag um þessar breyt. við byggjendur skipanna. Og niðurstaðan af því er sú, að til landsins hafa komið þessi skip með þeim árangri, að togararnir eru fyrir þessar breytingar langglæsilegustu togarar, sem til eru í veröldinni og með hvorki meira né minna en tveggja tonna minni olíueyðslu á dag en sams konar togarar að öðru leyti en því, að byggðir eru eftir enska kerfinu. Og með tilliti til sjóhæfni eru þessir togarar okkar þannig gerðir, að þeir eru öruggari en gömlu fleyturnar, af því að þeir hafa miklu meira borð fyrir báru og því hæfir til þess að vera ekki með fulla hleðslu, þótt þeir séu hlaðnir jafndjúpt niður í sjó og gömlu togararnir fullhlaðnir, og hafa því meira burðarmagn en gömlu togararnir í veðri og vindi.

Þó að þetta sé nú þannig í dag um okkar nýjustu togara, er ekki þar með sagt, að hér eigi að stanza og fara ekki lengra í að gera umbætur á gerð togara okkar. Þegar litið er til baka og athuguð sjóhæfni íslenzkra togara, þá er óhætt að fullyrða, að strax árið 1907, þegar Íslendingar hyggðu sitt fyrsta skip, þá fóru þeir svo langt fram úr því, sem annars staðar var bezt gert í því efni, að útgerðarmenn erlendis hópuðust til hafnar til þess að skoða „Jón forseta“, til þess að læra af því, sem Íslendingar höfðu farið fram á og fengið framgengt um umbætur á smíði togara. Og þegar Íslendingar fengu svo byggð slík skip síðar, bæði 1914, 1915, 1920, 1925 og 1930, fóru þeir einnig þannig fram úr því, sem áður þekktist um smíði togara, að aðrir togaraeigendur tóku sér til fyrirmyndar. Má í þessu sambandi nefna ýmsa okkar togara, sem á þessum árum voru byggðir, svo sem Þórólf, Skallagrím, Venus og Garðar og fleiri okkar beztu togara. Íslendingar hafa haft vel opin augu fyrir þessari þróun. Og þeim var ekki sársaukalaust, þegar árið 1945 var farið inn á það að kaupa yfir 30 skip, að þurfa um lengri tíma að loka augunum fyrir þróun í endurbótum á smíði togara. Því að það var ekki hægt að fá samkomulag um annað en að byggja yfirleitt alla togarana af sömu gerð. Þó voru tveir þessara togara byggðir með dieselvélum, sem á þeim tíma voru miklir erfiðleikar á að gera, í stað gufuvéla. — Ég tel ekki rétt og ekki ástæðu til nú að slá því föstu, að stöðvazt sé á þeirri braut að fá fram endurbætur á smiði íslenzkra togara. þó að svo sé komið, að við höfum náð þeim árangri með breytingum á smiði togara, sem ég hef lýst. Ég tel, að sérstök ástæða sé til að halda áfram á þeirri þróunarbraut, til þess að nota þá þekkingu, sem fram hefur komið og fengizt hefur af reynslunni. Og ég tel, að það sé sérstök skylda ríkissjóðs að standa undir þeim tilraunum, sem gerðar eru til þess að ná enn meiri árangri í að byggja sem bezta togara, sem henta íslenzkum staðháttum.

Ég gat um það áðan, að um mjög mikið af þeim endurbótum, sem fengizt hafa frá því sem áður gerðist á þessum skipum, sem komin eru til landsins, hafi komið fram tillögur í þeirri samkeppni um teikningu nýtízku togara, sem ' Samtrygging íslenzkra botnvörpunga efndi til árið 1943. M.a. komu þá einnig fram till. um tveggja þilfara togara. Sú till. þótti 1943 svo mikil fjarstæða, að dómnefndin — þó að hún fordæmdi ekki till. — treysti sér ekki til þess að samþykkja þá stórfelldu byltingu í smiði togara, þannig að hún yrði látin gilda um smíði hinna 30 togara, sem við erum að fá nýja. Í þessari till. um tvö þilför á togurum var farið fram á, að efra þilfarið væri frá hvalbak og næði alveg aftur úr og gerði þannig skýli yfir alla menn, sem á skipinu starfa. Þetta hefði þann kost í för með sér í fyrsta lagi, að það væri miklu meira öryggi fyrir skipið sjálft. Ef svona væri til hagað, væri útilokað, að skipið gæti sokkið vegna sjóa, sem yfir það kæmu. Og með öllum þeim hólfum, sem þá væru í skipinu, mætti það heita undur, ef skip þannig útbúið sykki, hvort sem það yrði fyrir sjóum eða öðrum áföllum. Það mætti heita mjög furðulegt, ef samtímis yrðu svo mörg hólf í slíku skipi fyrir þeim áföllum, að skipið gæti sokkið. Eins og nú er, eru togarar þannig, að þegar vont er veður og skipið fær yfir sig sjói, svo að fyllir milli stafns og skuts, þá eru milli 300 og 400 tonn af sjó á skipinu. En þetta veldur því, að vafi er á því mikill, að skip, sem veitur fyrir slíkri báru. reisi sig við aftur. Ég hef í slíkum kringumstæðum verið á togara, þegar öll skipshöfnin var innilokuð klukkustundum saman og ekki stóð annað upp úr sjó af skipinu en stýrishúsið, og menn gátu ekki vitað, hvort endirinn yrði, að skipið færi upp eða það færi niður. Mörg dæmi eru um það, að menn hafi skolazt út í slíkum kringumstæðum. — Allt þetta hefur leitt okkur, sem starfað höfum að þessum málum, til að fara inn á þá braut að reyna að finna leiðir til þess að fyrirbyggja slíka hættu. Og þá hefur komið fram till. um að auka öryggið á skipunum með því að gera skipin tvíþilja. sem mundi fyrirhyggja þá hættu, að skipin færust af því að þau fyllti á þann hátt, sem ég hef lýst. Því að með því að hafa skipin tvíþilja þá er fríborð skipsins orðið sex fetum meira en það er nú á togurum, þannig að sjóar gætu ekki gengið yfir skipið og fyllt það eins og nú er, en mundu þá aðeins ganga yfir efra þilfarið og fara út samstundis, þar sem engin væri fyrirstaðan. Og þegar sú hætta er fyrirbyggð, þá er hitt einnig fyrirbyggt, að menn geti skolazt út af neðra þilfari.

Í öðru lagi hefur komið fram í þessum till. till. um þá breyt. að í staðinn fyrir að draga upp veiðarfæri í mastri, eins og nú er gert, þar sem mikinn fjölda manna þarf til þess, oft móti vindi og veðri, þá verði breytt til og hafður sérstakur krani, sem geti tekið veiðarfærin og fært þau vélrænt, án þess að mannshönd snerti á öðru en að stjórna honum. (HV: Eru þeir ekki í nýju togurunum?). Þeim hefur ekki verið komið í nema tvo. Þessir kranar yrðu, eftir till., sem ég gat um, á efra þilfari. Þetta mundi spara mannafl á skipunum við vinnu og gera verkin hægari fyrir þá, sem þar ynnu.

Einn mikill kostur er enn í sambandi við að hafa togara með tveimur þilförum, — sá, að menn ynnu þá alltaf í skjóli á skipinu. Þeir þyrftu aldrei að vinna undir veðri og vindi, þannig að þeir þyrftu þá ekki heldur að vinna í þungum sjóhlífum og þungum stígvélum og gætu unnið eins og í húsi, ef þeir hefðu efra þilfar yfir sér og væru fullkomlega innilokaðir. Afköst við vinnuna yrðu þá meiri hjá hverjum manni og þá annaðhvort hægt að fá meiri afköst almennt hjá jafnmörgum mönnum og nú eru á togurunum eða það þyrfti færri menn til vinnunnar með sömu afköstum og almennt gerist. Auk þess væri mikið rúm á efra þilfari, sem nota mætti til þess t.d. að salta þar afla eða flaka eða annað að gera við hann, og hefði tveggja þilfara fyrirkomulag alveg sérstaka kosti í sambandi við að hagnýta allan aflann þannig, að unnið væri fiskimjöl úr úrganginum.

Hvað snertir aðra vinnu á skipunum. þá vil ég sérstaklega minnast á fyrirkomulag á togvindum. Það er ákaflega eftirtektarvert, að í öllum þeim umbótum, sem gerðar hafa verið á hinum nýju togurum, hafa minnstar umbætur verið gerðar á togvindunum. Stafaði það af því, að talið var, að enskar verksmiðjur væru ekki færar um að gera þær breyt. á þessum tíma, en þá hefði orðið að biða lengur eftir skipunum, ef breyt. hefðu verið gerðar í þessu efni. Vanalega er togið dregið upp með togvindu, sem stendur fyrir framan stýrishús. Hún dregur það í flækju fram og aftur eftir þilfarinu og er það látið leika á rúllum, og fólkið er innan um alla þessa víra. Það hefur þráfaldlega komið fyrir, að fólk hefur meira og minna slasazt undir þessum kringumstæðum. Hafi rúlla eða vírar bilað, hefur ekki legið annað fyrir en að þeir, sem staðið hafa í bugðunni, hafi misst líf eða limi, og menn. sem þar hafa verið, hafa stundum misst fætur eða skorizt jafnvel í sundur þvert yfir. Þetta hefur ekki verið hægt að fyrirbyggja, að kæmi fyrir í slíkum tilfellum. Hvað sem reynt hefur verið til að gera bæði rúllur og annað í þessu sambandi traust, líður varla svo nokkurt ár, að ekki verði slys af bilunum á þessum hlutum. Úr þessu töldu menn, að mætti bæta með því að setja í skipin tvo krana, einn að framan og annan að aftan, sem gætu unnið án þess að hafa nokkuð af vírum, sem fólkið þyrfti að vinna við á þann hátt, sem nú er gert. Og væri þá útilokað, að slys gætu orðið af þessu.

Ég tel, að þetta sé nægilegt til þess að benda á, hversu sjálfsagt sé að veita þessu máli mikla athygli.

Ríkisstj. hefur verið ásökuð fyrir það, að ekki hafi verið settar fiskvinnsluvélar í nýju togarana, sérstaklega þá, sem lengdir voru frá þeirri upphaflegu stærð, sem ákveðin var. En ég vil í þessu sambandi benda á, hvers vegna þetta var ekki gert. Í fyrsta lagi var aðalástæðan sú, að það var ekki hægt að fá enskar verksmiðjur til að afhenda þær vélar á sama tíma og skipin sjálf. Það þarf samt í dag tveggja ára afhendingartíma fyrir fyrsta settið og vafasamt, hvort fá má meira en 5–6 sett á ári. Í öðru lagi hljóta þessar vélar alltaf að taka rúm og burðarmagn frá skipinu. Meðan þungar vélar, um 20 smálesta, eru í skipinu, verður það rúm ekki til neinna annarra nota. Það hefur verið undanfarið þannig, að menn hafa talið sér meiri hag í því að hafa þetta rúm til þess að setja í það sérstakan fisk til útflutnings en að hafa í því vélar, sem e.t.v. væri ekki eins hagkvæmt fyrir þá að nota í dag eins og þegar tímarnir breytast. Nú er fullkomin reynsla fengin fyrir því, að á erfiðum tímum eru þessar vélar nægilegar til þess að bera uppi mismuninn á kostnaðinum til þess að reksturinn beri sig, og því hlýtur það að verða svo í framtíðinni, að skip okkar verða að vera útbúin með fiskimjölsvélum. Mér hefur reiknazt svo til, að skip af þessari stærð gætu aflað um 3000 punda í hverri ferð. Og þegar búast má við því annars vegar, að fiskurinn falli, og hins vegar, að takmarkað sé það magn, sem við fáum að selja, og í þriðja lagi, að ekki sé hægt að fylla skipin af góðfiski, verða að vera skip, sem geta tryggt það, að allt, sem kemur inn, sé gert verðmætt og að engu sé fleygt, og er því nauðsynlegt að fá settar fiskimjölsvélar í hvert einasta skip.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að ég sá núna grein í tímaritinu Ægi, þar sem Þjóðverjar eru að fara inn á þessa stefnu. Þeir eru að hugsa um að gera alla sína togara tveggja þilfara, meðfram vegna þess, að Bretar og Bandaríkjamenn vilja ekki leyfa þeim nema ákveðna lengd, og því ætla þeir að nota sér þetta, sem sýnir, að hugmyndin sjálf er að festa rætur meðal þessara manna, sem starfa að þessu. Þjóðverjar voru fyrir stríðið hinir leiðandi menn í öllum framförum í togarabyggingum, og þar lærðum við mest af því, sem við þurftum að vita í þessum efnum.

Það mætti kannske segja, að útgerðarmenn gætu sjálfir lagt út í slíkar tilraunir einir sér, en ég geri ráð fyrir, að þess sé kannske ekki að vænta, meðan málin standa á þessu stigi, að neinn útgerðarmaður vildi einn taka á sig þá áhættu, og auðvitað hafa menn mismunandi skoðanir á því, hvað er áhætta og hvað ekki. Ég fyrir mitt leyti hef þá föstu sannfæringu, að hér sé ekki um neina hættu að ræða. En þótt svo hér væri um áhættu að ræða, er ekki hægt að neita því með rökum, að ríkið ætti ekkert á hættu í málinu, því að slíkt skip sem þetta mætti nota sem fiskirannsóknaskip og eins hafa þess fullkomin not sem strandvarnaskips. Hvort tveggja þetta er fyrir hendi, þótt ekki mætti nota það sem togara, sem ég er viss um, að mætti, og því hef ég borið þetta fram, því að ég tel, að þetta sé hlutverk ríkissjóðs, því að til stendur að byggja bæði fiskirannsóknaskip og strandvarnaskip, og væri þá hér ekki verið að gera annað en byggja annaðhvort þessara skipa og gera tilraunina um leið.

Ég held, að í fjárlfrv., 20. gr., séu 850 þús. kr. ætlaðar til byggingar varðskipa. Ég mundi telja misráðið, ef þessari upphæð yrði varið til annars en að gera þessa tilraun. Og ég er viss um það. að þegar menn fara að athuga þetta mál og fyrsta skipið væri komið, mundi það leiða til þess, að í framtíðinni yrði ekki einasta engum íslenzkum sjómanni bjóðandi upp á aðrar tegundir fiskiskipa, heldur mundi enginn íslenzkur sjómaður fást til þess að vinna á annarri tegund skipa en hér um ræðir. (Fjmrh.: Hvernig færi með 30 skipin?). Það mundu nógu margar þjóðir kaupa þau skip fyrir meira verð en fæst fyrir þau nú, því að þau eru svo miklu betur útbúin en annarra þjóða skip. Ég hygg, að í framtíðinni verði það svo, þrátt fyrir það að þessir togarar eru stórvirk atvinnutæki, að hagnýta verði aflann að fullu og gefa fólkinu þá mestu og bezstu vinnuvernd, sem hægt er. Reynslan hefur sýnt, frá því að fyrst var byrjað að gera hér út togara, að því betur sem skipin voru útbúin og vinnuskilyrðin fyrir fólkið betri, því meira báru þau í þjóðarbúið og þeim mun meiri arð gáfu þau eigendunum, bæði í vondum árum og góðum. Hvaða útgerðarmaður sem væri spurður mundi telja það aukaatriði, hvort skipin hefðu kostað 100 þús. meira eða minna, heldur hitt aðalatriðið, að þau væru sem bezt útbúin. Ég vil benda á, að ein sú tækni, sem hér hefur verið farið inn á í togurunum, er vélrænn flutningur á lifrinni. Menn höfðu ekki trú á, að þetta væri hægt. Nú er víst erfitt að fá háseta á togara, þar sem ekki er vélrænn flutningur. Í hvaða höfn sem þeir koma í Englandi, eru komnir menn með teiknibækur til að teikna þetta og aðrar framfarir. Þetta er stórt spor í áttina, og næsta sporið er að gera þá tilraun, sem ég hef minnzt á.

Ég vænti því, að deildin taki undir þetta mál með velvilja og samþykki frv., annaðhvort eins og það liggur fyrir eða með þeim breyt., sem mættu verða til bóta fyrir málið.