30.10.1947
Efri deild: 11. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Þetta mál er sjálfsagt eftirtektarvert og merkilegt að mörgu leyti, og hugmyndin, sem hér er nú færð í frumvarpsform, mun hafa verið uppi hér á landi allt frá því að efnt var til þessarar samkeppni af hálfu Samtryggingar íslenzkra botnvörpunga um tillögur um „Botnvörpuskip framtíðarinnar“. Ég hef nú enga aðstöðu til þess að dæma um það, hvort hér er um þær framfarir að ræða, sem séu jafnnauðsynlegar og hv. flm. hefur lýst. Það er líklegt, að reynslan ein muni geta úr því skorið á sínum tíma, hvort þeim tilgangi yrði náð, ef út í það yrði farið, sem stefnt er að. Ég veit. að flm. hefur mikið um þetta hugsað og mikla vinnu í það lagt, og enginn efast um það, að hann ber þetta mál fram af heilum hug og að hann hefur borið það mjög fyrir brjósti í mörg ár. Hitt er annað mál, að svona tilraun hefur náttúrlega mikinn kostnað í för með sér, og færi nú svo, að svona tilraun mistækist, yrði það ákaflega dýrt.

Ég skal taka undir það, sem hv. flm. sagði, eða ég vildi nú orða það þannig, að sennilega væri áhættuminnst að sameina þessa hugmynd við einhverja aðra, þannig, eins og hann komst að orði, að ef út af bæri með nothæfni skipsins sem togara, væri stutt í land til þess, að þess yrðu not á öðrum vettvangi. Ég býst við. að sjútvn. taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, og vil vænta þess, að hún afli sér eins góðra upplýsinga um málið og í hennar valdi stendur, og að höfð séu ráð hinna beztu manna hérlendis varðandi þessa hugmynd, sem hér er á ferð. og framkvæmd hennar.

Að lokum vildi ég benda n. á það, að eins og nú er komið með fjáröflun til allra hluta, líka þeirra fyrirtækja, sem ríkið á að standa straum af, þá teldi ég eðlilegt, að lögin væru heimildarlög, ef þetta á annað borð yrði að lögum, þannig að það væru heimildarlög fyrir ríkisstj. að gera þetta, því að það er óviðkunnanlegt, ef samþykkt eru bein lagafyrirmæli um, að þetta skuli gert, ef svo einhverra hluta vegna ekki yrði hægt að framkvæma það. Nú sem stendur er einmitt talsverð hætta á, að erfitt sé að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir af ríkisins hálfu til viðbótar öllu því, sem búið er að stofna til á undanförnum árum, nema sérstaklega úr greiðist um útvegun lánsfjár. Ég bendi á þetta bara svona til athugunar fyrir hv. n., en síður en svo af því, að ég sé með því að leggja neinn stein í götu málsins við þessa umr. eða á þessu stigi. því að ef það er yfirlýst og af öllum aðilum viðtekið. líka þeim, sem sjútvn. Alþ. kynnu að fá sér til ráðuneytis um væntanlega nothæfni slíkra skipa, og það yrði þannig samþ. á Alþ.,ríkisstj. væri heimilað að gera þetta, þá tel ég ekki, að það út af fyrir sig þyrfti að vera neinn hemill á málið né framgang þess, ef unnt væri að fá fé til þessara hluta. En á hinn bóginn gæti lánsfjárleysi orðið hemill á málið, jafnvel þó að 1. gr. yrði samþ. óbreytt. Væri leiðinlegt, a.m.k. fyrir Alþ., að leggja skyldur á herðar framkvæmdastjórnar til þess að framkvæma hluti, sem mjög er óvíst um, hvort hún getur náð í fé til. Af þessum ástæðum teldi ég heppilegra, að það væru heimildarlög, sem afgreidd yrðu frá þinginu, ef málið nær samþykki þingsins.