15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig hefði mjög langað til þess, að hæstv. sjútvmrh. hefði verið hér viðstaddur, því að ég þarf að beina til hans ýmsum spurningum í sambandi við þetta mál, en kannske vill hæstv. utanrrh. svara þeim fyrir hans hönd eða flytja þær til hans, þannig að hann geti svarað þeim síðar.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að ríkið láti byggja togara af sérstakri gerð sem eins konar tilraunaskip. Vil ég biðja hæstv. forseta velvirðingar á því, þótt ég tali nokkuð vítt um málið, því að ég talaði ekkert við 1. umr. þess. — Það eru nú liðin 20 ár síðan ég hélt því fram í nokkrum blaðagreinum, sem ég skrifaði í Dag, að ekki gæti hjá því farið, ef skipin héldu áfram að safnast saman á hrygningarstöðvar nytjafisksins, að þá hlyti veiðin að ganga til þurrðar smám saman, og ég hélt því einnig fram, að ef ekki yrðu gerðar ráðstafanir til þess að friða ákveðin hrygningarsvæði og helztu uppeldissvæðin, hlyti það að stuðla að eyðingu fiskistofnsins. Út af þessu átti þá mig lifandi að drepa, og þótti slíkt gersamlega vanhugsað, þar sem viðkoma hvers fisks næmi mörgum hundruðum þúsunda. Nú hefur mér heyrzt hin síðari ár, að allt annað hljóð sé komið í þá menn, sem mest réðust á mig fyrir þessa skoðun, og nú skilst mér, að stefnt sé meir og meir að því að nytja þann fisk, sem aflast, sem allra bezt, og að það byggist m.a. á minnkandi veiði, og mér skilst, að smíði þessa togara eigi að vera ein tilraun í þessa átt. Hins vegar er það nú svo, að í fyrra var verið að tala um stækkun landhelginnar og því máli þá vísað til hv. utanrmn., en nú hefur ekki verið haft svo mikið við allan þann tíma síðan þ. kom saman í haust að kalla þá n. saman til að kjósa form., og því siður hefur hún athugað þetta mál, enda þótt mér sé kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hafi rannsakað það og undirbúið að nokkru. Ég verð því að segja það, að mig grunar, að um þetta mál, sem hér liggur fyrir, fari á sömu leið. Ég er að sjálfsögðu ekki á móti þessu máli, því að ég tel, að við þurfum að stefna að því að nytja aflann sem allra bezt, en láta ekki mikinn hluta hans verða verðlausan eins og nú er gert. Hins vegar mælir þetta frv. svo fyrir, að þetta skuli framkvæmt með því, að ríkið kaupi togarann og taki til þess lán, og mitt viðhorf til málsins mótast í fyrsta lagi af þeirri spurningu, hvort ríkið hafi nóg fé til þess arna eða nokkra möguleika til lántöku. Nú er það svo, að á ríkinu hvíla ógreiddar kvaðir, sem nema mörgum tugum milljóna. Það er t.d. ljóst, að þegar ríkisstj. lét búnaðarráð kaupa upp kjötbirgðir í landinu vorið 1946, þá átti ríkisstj. þar með kjötið, því að hún kostar búnaðarráð. Kjötið seldist fyrst núna í haust, en kostnaðurinn, sem á þetta féll, hefur enn ekki verið greiddur af ríkissjóði, og þó var þarna ekki um neina stórupphæð að ræða. Í fögum um nýbýli o.fl. er svo ákveðið, að 1. júlí 1947 eigi ríkissjóður að greiða Búnaðarbankanum 5 millj. kr. í byggingarsjóð. Það er ekki enn farið að greiða þetta fé, en bankinn hins vegar hættur að lána mönnum, af því að hann hefur ekkert handbært fé til byggingarlána. Það er mælt svo fyrir í ræktunarsjóðsl., að árlega skuli leggja sjóðnum hálfa milljón króna í 10 ár, en auk þess 10 millj. í stofnfé. Það er ekki enn búið að greiða þetta og búið að loka sjóðnum, eða hætt að lána úr honum, af því að ekkert fé er til. — Það var samþ. hér á Alþ. að byggja svo kallaðan Austurveg og ákveðið að taka til þess 20 millj. kr. lán, sem greiðast átti á 7 árum. Nú eru liðin 2 ár síðan þetta var ákveðið og ekkert meir á þetta minnzt. — Þá var ákveðið á Alþ. að byggja hótel, er ríkið legði 5 millj. til. Höfðu 2 hlutafélög verið stofnuð til að reisa hér hótel, sem átti að verða miklu stærra en Hótel Borg, en þá lá ríkinu svo á að hlaupa í þennan rekstur, að ákveðið var, að það legði fram 5 millj. kr. í þessu skyni og byggði hótelið í samfélagi við bæinn og Eimskip. Það er ekki enn farið að framkvæma þau l. Ég held ég geti talið þannig upp yfir 100 millj. kr. til ýmissa framkvæmda, sem ríkið á annaðhvort ógreiddar eða hafa verið greiddar með því að taka bráðabirgðalán hjá bönkunum til að bjarga málunum. Nú geri ég ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi haft fullkominn vilja á að hlýða landsl., t.d. l. um landnám og nýbyggðir, og hafi viljað greiða þessar 5 millj., er greiða átti 1. júlí 1947, og sömuleiðis að borga þessa 1/2 millj. í Ræktunarsjóð, en ímynda mér, að hún hafi ekki haft kringumstæður til þess, þannig að féð sé fast í öðru eða að hún hafi ekki getað fengið lán. — Það er því mín fyrsta spurning í sambandi við þetta mál, hvort rétt sé að bæta ofan á þá fúlgu, sem fyrir er, með því að ætla ríkisstj. að taka lán til að byggja þennan togara, áður en farið er að fullnægja þeim skuldbindingum, sem löngu áður er búið að leggja á hana og hún hefur ekki séð sér fært að framkvæma. Ég er sjálfur ekki víss um, að slíkt væri rétt, og ég er a. m. k. þannig gerður sem prívatmaður, að ég vil láta eldri skuldbindingar, sem ég hef tekið að mér, ganga fyrir, áður en ég tek að mér nýjar, og finnst mér, að sú regla ætti að gilda yfirleitt.

Þá kem ég að hinni spurningunni: Hver á að reka þennan togara? Muni ég rétt, þá hefur sá flokkur, sem hv. flm. frv. stendur að, ávallt verið mjög mótfallinn ríkisrekstri í öllum hans myndum og jafnvel, að ríkið hefði með höndum sölu á tóbaki og víni, þótt flm. hafi að vísu ekki verið á þeirri skoðun. Nú á ríkið að láta byggja þennan togara samkvæmt frv., en hins vegar er þar ekkert sagt um það, hverjir eigi að hafa rekstur hans með höndum, en maður gæti búizt við því, að það lægi næst, að ríkið ætti að reka hann. Nú veit ég að vísu, að það hefur orðið nokkur stefnubreyting í þessum efnum hjá flokki hv. flm., sérstaklega hvað snertir bæjarútgerð. Kemur þetta t.d. fram í því, þegar slegið er upp veizlu til að fagna bæjarrekstri Ingólfs Arnarsonar. Svona mikil sinnaskipti hafa átt sér stað í þessum efnum, því að ekki eru ýkja mörg ár síðan þessi flokkur talaði um bæjarútgerð Hafnarfjarðar sem eitthvert dæmalaust glapræði, og minnist maður hinna gulu seðla í því sambandi. Og nú er þetta frv. kannske hugsað svo, að eitthvert bæjarfélagið eigi að fá þennan togara til þess að reka hann eða eitthvert hlutafélagið, því að hér er ekki um stóra upphæð að ræða frá sjónarmiði útgerðarmanna, og hefur verið talað um, að togarinn muni kosta um 4 millj. kr. Og ef það liggur svo mikið á að láta smiða svona togara í tilraunaskyni, sem ég tel, að stefni í rétta átt, væri ákaflega auðvelt fyrir hin stærri útgerðarfélög að mynda hlutafélag til þess að kaupa hann og reka. Og nú vil ég leyfa mér að spyrja: Hvernig stendur á því, að þeir menn, sem fremstir standa í útgerð hér á landi og alltaf eru að mynda ný og ný hlutafélög, taka ekki þetta þarfa mál á sínar herðar og reka þennan togara sem nokkurs konar tilraunaskip fyrir sig? Ég tel, að það vanti algerlega í frv. ákvæði um það, hvernig eigi að reka togarann. Það er ekkert gagn að því fyrir ríkið að láta byggja og eiga skip, sem svo situr í þurrkví. Það verður einnig að hugsa fyrir því, hvernig á að afla þeirrar reynslu, sem af togaranum fæst, og það verður að mínum dómi að koma skýrt fram í frv. Það, sem mig því langar til að heyra frá hæstv. fjmrh. eða hæstv. utanrrh., ef hann vill svara fyrir hans hönd, er í fyrsta lagi þetta: Er fjárhag ríkisins svo komið, að öruggt sé, að ríkissjóður geti fengið lán í þessu skyni, og ef ríkið er fært um þetta, hvers vegna hefur það ekki lagt fram fé til annarra framkvæmda, sem ríkissjóður er búinn að lofa að greiða?

Í öðru lagi: Hvers vegna er ekki hugsað um það í frv., hvernig og hverjir eigi að reka togarann? Tel ég það alveg sjálfsagt skilyrði, að ákvörðun sé tekin um þetta strax. Ég vil því belna því til viðkomandi ráðh., að hann upplýsi, hvernig hann hugsi sér þetta, því að ég geri ráð fyrir því, að hann hafi aðstöðu til að líta lengra fram í tímann en þm., eins og flm. og ég, og hafi þess vegna nú þegar, ef hann er frv. meðmæltur, gert sér grein fyrir því, hvernig eigi að hafa rekstur þessa togara. þá langar mig til að spyrja, hvernig stendur á því, að útgerðarmenn, sem alltaf eru að mynda hlutafélög, geta ekki myndað hlutafélag til að koma þessu máli í framkvæmd, ef þeir hafa trú á því. Er það bara af því, að þeir vilja ekki ríða á vaðið, heldur vilja bíða eftir, hver árangurinn af þessu verður, án þess að þeir beri af því neina áhættu?

Að lokum vil ég svo minnast á það, að fyrir nokkrum dögum las ég það, að hinir nýju togarar, sem nú eru að koma til landsins og ríkisstj. samdi um smíði á í Bretlandi, væru beztu togarar í heimi og mundu á næstu áratugum skara fram úr öllum öðrum togurum. Ef þetta er rétt, höfum við þá ekki beztu togara heimsins, og þarf þá nokkru þar við að bæta? Og af því að ég hef ekki séð þessu mótmælt, þætti mér gaman að heyra álit hæstv. ráðh. og flm. á þessu.