15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. utanrrh. flytji hæstv. sjútvmrh. þessar fyrirspurnir til þess að hann geti svarað þeim fyrir 3. umr. Annars skal ég einnig koma þessu áleiðis til hans sem frsm. þessa máls og flm. Ég skal hins vegar svara nú nokkrum atriðum, sem ég veit um þetta mál. Í fyrsta lagi tel ég ekki þessa ræðu hv. 1. þm. N-M. (PZ) sem andúð gegn sjálfu málinu, þótt niðurlag hennar benti til, að ræðumaður væri ekki hlynntur útgerðarmönnum yfirleitt.

Mér finnst ekki nema eðlilegt, að fram komi spurningar um það, hvort ríkið hafi fjárhagslega getu til þess að ráðast í þessar framkvæmdir og aðrar, þegar svo mörg verkefni eru óleyst, eins og hv. þm. benti á. En ég vil benda honum á í þessu sambandi, að það kunna að vera ýmis verkefni, sem meira ríður á að leysa en önnur og meiri rétt hafa til að ganga fyrir um fjárhagslega lausn en hin, þótt eldri séu, og er ég því í þessum efnum á allt annarri skoðun en hv. þm. T.d. getur verkefni eins og það, sem hér er um að ræða, orðið beinlínis til þess að skapa fé til þess að ljúka öðrum verkefnum, eins og Austurvegi o.fl., og er því sjálfsagt að láta slík verkefni ganga fyrir. Það hlýtur að sjálfsögðu að vera á mati ríkisstj. og Alþ. á hverjum tíma, hvaða verkefni eru mest aðkallandi og til hvers því fé sé varið, sem ríkissjóður hefur yfir að ráða á hverjum tíma, og hygg ég það ekki óviturlegt að láta þau verkefni, sem mest eru aðkallandi á hverjum tíma, sitja fyrir öðrum. þótt þau hafi áður verið ákveðin. Tel ég þetta mál mjög aðkallandi og að það eigi því að ganga fyrir öðrum um afgreiðslu og framkvæmd. Það kemur ekki aðeins til greina í sambandi við þetta mál varðandi útveginn, að reynslan hefur sýnt okkur, eins og hv. 1. þm. N-M. reyndist svo forspár um, að fiskurinn getur gengið til þurrðar og að við verðum að leggja áherzlu á að hagnýta aflann eins og hægt er, heldur hefur aðstaðan breytzt mjög síðan þetta mál var hér til umr. fyrir 20 árum. Menn hafa komizt að raun um, að hægt er að hagnýta meira af aflanum en nokkur gerði sér í hugarlund fyrir 20 árum, og það er hægt að hafa miklu meira verðmæti upp úr honum en þá var hægt. Auk þess hafa menn komizt að raun um, að það sé ekki hagkvæmt fyrir fiskimiðin, að niður sé kastað miklu af fiskúrgangi, þar sem mörg veiðiskip eru á sömu slóðum, og svo margt fleira hefur reynsla síðustu 20 ára kennt okkur.

Þá spurði hv. þm. um, hver ætti. að reka þennan togara. Það er sjálfsagður hlutur, að svo lengi sem skipið er í eigu ríkisins, á ríkið það og enginn annar, enda eru skipinu ætluð svo margvísleg verkefni, sem ekki væri unnt að inna af hendi, ef skipið væri rekið af einstaklingum. T.d. er því ætlað að hafa með höndum hafrannsóknir, og hélt ég, að skylda væri ekki lögð á herðar öðrum en ríkinu að halda uppi slíkum vísindastörfum. Hitt veit ég, að hv. þm. er ljóst, að það eru lögð þung útgjöld á útvegsmenn til þess að standa undir alls konar opinberum kostnaði í sambandi við sjávarútvegsmál. T.d. eru lögð ákveðin gjöld á allar útfluttar sjávarafurðir. Það getur vel verið, að fiskimálasjóður reyndi að reka slíka útgerð. Það hefur verið farið inn á slíka braut áður, að fiskimálan. hefði á hendi leit að fiski. Þetta er bara þróun á þessum málum, sem á að kosta af því opinbera. Ef þessi togari reyndist eins og vonir standa til sem fiskiskip, þá er ekkert í veginum fyrir því, að ríkinu verði fengin heimild til að framselja hann einhverjum til rekstrar. En það er ríkissjóður, sem á að kosta tilraunirnar á því, hvort slíkt skip sem þetta er betra en önnur til fiskveiða eða annars. það er miklu eðlilegra og sjálfsagðara en útvegurinn geri það, sem stendur undir miklum rekstrarbúskap og hefur tekið stærri blóðtökur en t.d. Búnaðarbankinn á sínum tíma, því að hann sá meiri nauðsyn á að byggja höll yfir sig, fyrr en hann lánaði bændum, sem þurftu á fé að halda.

þá minntist hv. þm. á, að það væri ekki langt síðan hann hefði heyrt, að útvegsmenn hefðu skotið saman einni milljón til að bjarga félaga sínum. Ég veit ekki, hvaðan hann hefur það, en held, að hér sé eitthvað málum blandað. Mér er kunnugt um einn útgerðarmann, sem einmitt vegna skattpeninganna komst í þá aðstöðu, að ekki var um annað að ræða en að bankarnir gerðu hann upp miskunnarlaust eða að hann fengi hjálp. Útvegsmenn hjálpuðu, og það án þess að fórna nokkru, hvorki einni milljón né öðru. Annars kemur þetta ekkert því máli við, sem hér er til umræðu.

Ég skal ekki ræða um það atriði í ræðu hv. 1. þm. N-M., hve miklu fé sé varið í veizlur við móttöku nýju togaranna. Það er algerlega einkamál milli hans og þeirra, sem standa fyrir þeim veizlum. Annars held ég, að þær séu. ekki kostaðar af ríkinu og kemur því þessu ekkert við.

Hv. þm. spyr, hvernig standi á því, að útvegsmenn taki ekki þetta togaramál upp á sína arma. Ég vil í því sambandi endurtaka það, sem ég sagði áður, að ég er á þeirri skoðun, að ríkið eigi að standa straum af slíkum rannsóknum sem þessum, alveg eins og gert hefur verið í rannsóknum varðandi jarðræktarmál, og hefur hv. þm. ekki haft neitt á móti því. Ég skal ekki segja um það, hvort slíkar tilraunir geta ríkinu meiri arð. En sú tilraun, sem hér um ræðir, er hliðstæð öðrum tilraunum, sem gerðar haf'a verið einmitt í því augnamiði að rannsaka möguleika á, að ríkið fái meiri arð. Ég veit ekki betur en hv. 1. þm. N-M. sé á launum frá ríkinu til að gera vísindalegar tilraunir á sviði landbúnaðarins. Mér finnst því sem hér hafi orðið stefnubreyting hjá honum, því að ekkert hefur hann við það að athuga, og mér sýnist, að tilraunir sem þessar megi miða við fleira en kýr og hesta og gras.

Þá gat hv. þm. þess, að hann hefði heyrt fyrir fáum dögum því haldið fram, að nýsköpunartogararnir væru þeir beztu í heimi. Það er alveg rétt, og ég fullyrði, að svo sé, en ég er ekki svo steingerður, að ég haldi því fram, að hér eigi að nema staðar. Ég vil bara segja, að það er ekki rétt að fela slíkum manni rannsóknastörf í þágu landbúnaðarins, sem hættir öllum frekari aðgerðum, ef nytin úr einni kú verður meiri en nokkru sinni hefur áður þekkzt. Annars trúi ég ekki, að hv. 1. þm. N-M. sé þessarar skoðunar, að hann vilji hætta öllum frekari tilraunum til bóta, þótt hann nái góðum árangri. Í orðum hv. þm. fannst mér leggja kala til þessa máls, en hann fær engan í lið með sér, hann fær engan til að trúa því, að þótt íslenzku togararnir séu þeir beztu í heimi, þá sé nauðsynlegt að hætta öllum frekari tilraunum til bóta. Á sínum tíma vildi ég, að einn af nýsköpunartogurunum yrði úr garði gerður eins og hér er fjallað um, en það þótti þá ekki tímabært, en síðan hefur ýmislegt gerzt, sem réttlætir þetta frv. Þjóðverjar hafa farið inn á sömu braut og hér er gert ráð fyrir í frv. og Englendingar nokkuð. Þótt það sé á nokkuð annan veg, þá er það mjög skylt. En það, sem hér er þyngst á vogarskálinni, eru einkum tvö atriði: meira öryggi og vinnuvernd fyrir mennina. Ég trúi því ekki, að hv. 1. þm. N-M. meti það lítið öryggi sjómannanna, að hann vilji leggja stein í götu, svo að þeir verði ekki þessa öryggis aðnjótandi. — Hin ástæðan er sú, að öll rök renna undir, að það sé hægt að reka slíkt skip sem þetta með meira fjárhagslegu öryggi en önnur. Þar er hægt að koma fyrir fleiri vinnuvélum og hagnýta betur aflann. Það eru þessi sjónarmið ein, sem eiga að ráða. Vitanlega verður þetta að vera vel undirbúið, og það er á valdi ríkisins, hvenær undirbúningur hefst, hvort það verður strax eða síðar. Það er og sjálfsagður hlutur, að þarna verði kvaddir til færustu menn til athugunar og undirbúnings, sem ég geri ráð fyrir, að muni ekki standa skemur en eitt ár. Það væri þá hægt að flytja málið á ný fyrir þingið, ef eitthvað nýtt kæmi upp í sambandi við lántökur og fjárveitingar.

Ég tel það illa farið, ef hv. alþm. fara að sjá eftir því fé, sem á að auka öryggi íslenzkra sjómanna.