15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætlaði ekki að blanda mér inn í þessar umr., en ræða hv. 1. Þm. N-M. gefur mér tilefni til að segja nokkur orð. Ef á að skilja tal hans hér sem andstöðu við frv., þá er sú andstaða eitthvað dulbúin. En mér skilst nú samt, að þetta sé líkara tilraun til gagnrýni á frv. en beinni andstöðu. Eins og komið hefur fram hjá hv. flm. í þessum umr., þá er hér aðeins um tilraun að ræða. Það er alveg ástæðulaust að vera að krefjast þess, að inn í frv. verði sett skýr ákvæði um það, hverjir eigi að reka togarann, því að það er óbeinlínis sagt í frv. Í grg. er ætlazt til þess, að skipið verði notað til fiskirannsókna, en slík starfsemi fer ekki fram nema á vegum ríkisins. Þar er og gert ráð fyrir björgunarstarfsemi, en hún er einnig á vegum ríkisins. Þetta tvennt bendir til þess, að ætlunin í frv. sé sú, að ríkið hafi allan veg og vanda af rekstrinum. Ég tek undir það með hv. flm., að ef skipið á að rannsaka og leita að fiskimiðum, þá er ekkert eðlilegra en að ríkið standi straum af þeim rannsóknum, sem eru til hagsmuna fyrir þjóðarheildina. Þegar ég tók afstöðu til þessa máls, réð miklu um sú skoðun mín, að brýn nauðsyn væri öflunar nýrra fiskimiða. Við þörfnumst nauðsynlega fiskirannsóknaskips, og þetta skip gæti hæglega haft slíkt starf með höndum.

Hv. þm. var að tala um, að ríkið hefði svo margt á sinni könnu, að hæpið væri, að það gæti staðið undir þeim fjárútlátum, sem hér er krafizt. Það væri svo margt ógert, sem ríkissjóður yrði að standa straum af. Það má alltaf segja sem svo, en ég hef ekki orðið var við annað en að hv. þm. — og þá hv. 1. þm. N-M. ekki síður en aðrir — hafi gert kröfur um fjárframlög úr ríkissjóði, þótt aðrar kröfur væru fyrir. Ég held, að við Íslendingar verðum alltaf hvað atvinnuveg snertir dæmdir sem fiskveiðaþjóð. Því meiri framkvæmdir og framfarir sem verða í þessum atvinnuvegi okkar, því meiri nýjungar sem við tökum upp, verður það til þess að vekja eftirtekt og aðdáun hjá öðrum þjóðum á þessari litlu þjóð. Mér þykir hryggileg afstaða hv. 1. þm. N-M., ef skilja á mál hans hér áðan sem andstöðu við frv. Það er eins og þegar talað var um smíði hinna 30 nýju togara, að þá andaði köldu til þessa úr sömu átt. Ég sagði þá þessum hv. þm., sem kunningi, að honum væri hollara að vara sig. Nú er komið á daginn, að það, sem þá var gert, var gert á réttum tíma, því að nú hefur skipaverð hækkað gífurlega frá því, sem þá var, svo mikið, að við megum prísa okkur sæla. Ég er þeirrar skoðunar, að ekkert beri að spara til þess að við fáum sem fullkomnasta togara, því að þeir munu verða okkar lífakkeri í framtíðinni. Reynslan mun sýna það. Það væri kaldhæðni, ef maður úr flokki bænda mundi nú setja sig upp á móti lagafrv., sem miðaði að bættum togaraflota, bættu öryggi fyrir sjómenn og meiri vinnuafköstum, þegar bændur sjálfir skilja það mætavel, að þessi atvinnuvegur lyftir undir þeirra eigin atvinnuveg, og eru því hlynntir því, að hagur útvegsins verði sem beztur.

Ég vona að lokum, að þetta frv. fari umræðulítið gegnum þessa hv. d. Ég er sannfærður um, að við munum hafa sóma af þessari tilraun. Við lifum á tímum tækni og framfara, og þótt eitthvað sé fullkomið í dag, getur annað orðið fullkomnara á morgun. Það er alltaf eitthvað nýtt að koma fram, og lífið sjálft heimtar, að tekið sé fullt tillit til allra nýjunga.

Ég vil loks segja það, að ég hef tekið persónulega afstöðu til þessa máls, en allur þorri umbjóðenda minna er því sammála. Það er af sérstökum ástæðum, að ekki hefur verið hægt að halda fund um málið. Menn geta ekki verið á móti því að skapa eins fullkomið öryggi og unnt er. — Ég vænti þess, að þm. skilji, að þetta er ekki mál til að pexa um, og vona, að málið gangi fram.