16.12.1947
Efri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að flytja brtt. við þetta frv., og er hún eðlilega skrifleg, þar sem málið er tekið fyrir áður en tími hefur unnizt til að fá till. prentaða. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. gr. 2. mgr. orðist svo: Skal tæknilegur undirbúningur hafinn svo fljótt sem verða má, en að honum loknum skal málið að nýju lagt fyrir Alþingi, er þá tekur nánari ákvarðanir um byggingu togarans og framtíðarrekstur.“

Þetta byggist á tvennu. Í fyrsta lagi liggur ekkert fyrir um það, hvort ríkissjóður hafi fé í þetta nú, og ekki heldur, hvort hægt sé að fá lán. En þegar hins vegar að því kemur, að tæknilegum undirbúningi er lokið, sem hv. þm. Barð. hefur sagt, að taka mundi 2 ár eða nálægt því, og málið þar með liggur ljóst fyrir, þá mun sjást betur, hvaða ástæður verða fyrir hendi til að framkvæma þetta.

Hin ástæðan fyrir þessari brtt. er sú, að nú er verið að byggja líka togara og hér er gert ráð fyrir í Englandi og hugsað til smíði á sams konar togurum í Þýzkalandi. Þegar tæknilegum undirbúningi þessa máls er lokið, eru miklar líkur fyrir, að nokkur reynsla verði fengin á þeim togurum, sem Englendingar eru að byggja og Þjóðverjar undirbúa að byggja, en sú reynsla gæti orðið okkur mikils virði.

Ég álít málinu ekki spillt, þó að það sé látið bíða, þar til tæknilegur undirbúningur hefur farið fram, og auk þess liggja þá þessi tvö atriði fyrir, sem málið byggist í raun og veru mikið á. Af þessum ástæðum leyfi ég mér að flytja þessa brtt. og vænti, að hún verði samþ.