16.12.1947
Efri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég get ekki fallizt á brtt. þm. N-M., og liggja til þess tvær ástæður. Í fyrsta lagi hefur orðið samkomulag um þetta mál í sjútvn. á þeim forsendum, að því yrði hraðað, og einn nm. beinlínis sett það sem skilyrði fyrir sínu samþykki. En auk þess er ljóst af brtt., að þm. N-M. hefur alls ekki sett sig inn í þetta mál, og ég leyfi mér að efast um, að hann hafi lesið þskj., eða hafi hann gert það, hefur hann algerlega misskilið innihald þess. Hins vegar er ljóst, að brtt. er fram komin ákaflega mikið vegna þess, að þessi hv. þm. hefur ekki sett sig inn í þessi mál, hvorki lesið málsskjölin né tekið eftir því, sem sagt hefur verið um málið hér í hv. d. Hann heldur því fram, að ég hafi sagt, að tæknilegur undirbúningur undir þetta mál muni taka tvö ár. En ég sagði, að tæknilegum undirbúningi í þessu máli ætti að ljúka á árinu 1948. Og öll framkoma þessa hv. þm. í málinu mótast af því, að hann hvorki les þau gögn, sem liggja fyrir um málið, ná hlustar á umr. um það, svo að hann afvegafærir alla vega atriði málsins og kemur ekki nærri sannleikanum um það. — Ég vil í sambandi við tæknilegan undirbúning þessa máls taka fram: Í fyrsta lagi er það einn liður í tæknilegum undirbúningi að leita tilboða um smíði skipsins. Nú skulum við athuga það, að ef till. eins og sá, sem hér liggur fyrir, yrði samþ., gæti það tafið málið mjög mikið, því að frá því að tilboð er gert, sem er einn þáttur í tæknilegum undirbúningi málsins, af fá tilboð, og þangað til þing kemur saman og samþykkir frv. um málið, getur liðið alllangur tími. Þetta er því fjarstæða, sem hv. 1. þm. N-M. heldur fram. En ef hins vegar tilboð, sem fengist í byggingu slíks skips, sýndi, að ráðh. og þeir, sem hann ræddi um þetta mál við, álitu ekki heppilegt, annaðhvort vegna fjárskorts eða af öðrum ástæðum, að láta smiða skipið samkvæmt því tilboði, mundi ráðh. sjálfsagt aldrei nota heimildina. Og það er einkum með þessum skilningi hjá sjútvn. og mér sem flm. frv., að lagt er til, að frv. verði samþ. þannig, að ráðh. láti framkvæma þetta svo fljótt sem ástæður leyfa.

Um það, sem hv. þm. sagði, að í öðrum löndum væri verið að byggja sams konar skip, vil ég taka fram, að ég hef fylgzt vel með því, sem gert hefur verið í þessu efni í Englandi. En þær tilraunir fóru nokkuð inn á aðrar brautir. Hins vegar er mér ekki kunnugt um, hvað gerzt hefur í þessu efni í Þýzkalandi. En ég sé ekki ástæðu til að bíða ettir því að sjá, hvað þar gerist í þessu máli, m.a. af því, að sú þjóð er hneppt í fjötra og á þess vegna kannske ekki eins frjálsar hendur um þessi efni.

Ég legg til, að brtt. á þskj. 199 verði felld, en frv. eins og það er á þskj. 195 verði samþykkt.