18.12.1947
Neðri deild: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

122. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Frv. þetta skýrir sig sjálft. Það er um það, að þau fríðindi, sem Færeyingum voru veitt, sem voru að vísu mjög óveruleg, um fiskveiðar við Ísland, verði framlengd fyrst um sinn, þó ekki lengur en til ársloka 1948. Meiningin er, að þau verði framlengd að minnsta kosti, meðan samningaumleitanir standa yfir milli Íslendinga og Dana í sambandi við skilnað landanna. Þeim samningaumleitunum varð ekki lokið nú þetta ár. Það var talað um, að þær yrðu teknar upp í haust. En þá stóð svo á, að menn áttu nú ekki heimangengt, sem upphaflega höfðu verið í samningan. Það hefur því orðið úr, að sendiherra Íslands, Jakob Möller, hefur verið falið að vinna að þessum samningum. Ég geri ráð fyrir, að eitthvað hafi dregið úr þessum samningaumleitunum af Dana hálfu vegna kosninga og stjórnarskipta, en eins og ég sagði áðan, hafa þessar viðmiður verið teknar upp að nýju.

Ég tel óviðkunnanlegt, að á meðan þessar samningaumleitanir standa yfir, verði þessi litla heimild til handa Færeyingum felld niður. Þetta tímatakmark er miðað við árslok 1948.

Ég held, að samþ. þessa frv. sé ekki nema rökrétt afleiðing þess tilsvarandi frv., sem samþ. var í fyrra, og við getum varla fellt heimildina niður á þessu stigi málsins. — Ég vil þess vegna leyfa mér að leggja til, að hv. d. samþykki þetta frv. óbreytt og helzt láti það ganga nefndarlaust áfram, svo að það sé öryggi fyrir því, að það verði samþ., áður en þingi er nú frestað, en til þess þarf sérstakan velvilja hæstv. forseta til þess að hrinda málinu áfram.