09.12.1947
Efri deild: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

103. mál, innflutningur búfjár

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þegar við þessa umr. lýsa yfir, að ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með þessu frv. Það er alltaf að koma skýrar og skýrar í ljós, hvílík fásinna það var, sem átti sér stað, þegar farið var að flytja erlendan fénað til landsins, því að það hefur bakað ríkissjóði milljónaútgjöld, t.d. hátt á 5. millj. kr. á þessu ári, og því verður ekki á móti mælt, að þessi ófarnaður stafar af innflutningi erlends fjár, sem ekki var gætt nægilega mikilfar varúðar við. Meðan Magnúsar Einarssonar dýralæknis naut við, var það eitt af hans mestu áhugamálum og baráttumálum að standa á móti því, að erlent fé yrði flutt til landsins. Honum tókst líka að forða landinu frá því stórkostlega tjóni, sem varð á síðari árum, eftir að gefið var eftir um þessar reglur, mest í tíð Hannesar Jónssonar dýralæknis. Nú segir í þessu frv., að það skuli gæta sterkrar varúðar, féð verði einangrað o.s.frv., en það er sjáanlegt, að ef það bregzt, þá er voði fyrir höndum. Reynslan hefur sýnt, að engin plága, sem komið hefur yfir Ísland, hefur orðið því eins dýr og þessar sauðfjárdrepsóttir, sem kosta landið árlega 5–10 millj. kr., og er þar að auki búin að eyðileggja helming þeirrar atvinnu, sem íslenzkur landbúnaður byggist á. Og þegar þannig er komið, þá kalla ég, að það sé mikill kjarkur, að menn skuli leyfa sér, og það heil n., að flytja inn dýr, til þess að ríkið þurfi að setja upp stofnun og standa undir, kannske til að viðhalda þessu ástandi í áratugi.

Ég vil aðeins benda á í sambandi við 6. gr., að þar er gert ráð fyrir að flytja inn hunda og refi og rækta rándýr. Ég veit ekki betur en bannað sé að hafa hér hunda. Ég skil ekki, hvaða ástæða er til, að ríkið fari að leggja í kostnað við að einangra hunda og eyða gjaldeyri í að flytja þá inn, meðan okkur vantar nauðþurftir vegna gjaldeyrisskorts. Sama er að segja um refina. Að vísu er hér loðdýrarækt, en árangurinn hefur ekki orðið sá, að æskilegt virðist að flytja áfram refi inn í landið. Um minkana þarf ekki að tala. Þeir eru komnir um allt land, og nú er talað um að greiða mikil verðlaun fyrir hvern villtan mink, sem drepinn er, vegna þess tjóns, sem hann gerir á fugli og fiski, og á sama tíma er ríkið að tala um að standa undir því að flytja slík dýr inn.

Ég skal ekki fjölyrða um málið frekar, en vil lýsa yfir, að ég er eindregið á móti frv.