15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

103. mál, innflutningur búfjár

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ræddi nokkuð þetta mál við fyrri umr., og var þá viðurkennt af hv. frsm., að við hefðum fengið til landsins með innflutningi búfjár hundapest, hænsnapest, nautapest, svínapest fyrir utan hinar alræmdu sauðfjárveikitegundir, mæðiveiki og garnaveiki, sem ekki þarf að lýsa, hversu feiknarlegan kostnað og tjón hafa haft í för með sér, þar sem þær hafa svo að segja lagt að velli hálfan búpening landsmanna. Ég vil því leyfa mér að bera fram till. til rökst. dagskrár, svo hljóðandi:

„Með því að vitað er, að með innflutningi búfjár hefur borizt til landsins margvísleg búfjárveiki, er valdið hefur bændum og ríkissjóði þegar tugmilljóna króna skaða og engan veginn er enn séð fyrir, hve mikill muni verða um það er lýkur, lítur deildin svo á, að stöðva beri nú þegar og framvegis allan innflutning dýra, hverju nafni sem nefnast, og í trausti þess, að ríkisstjórnin geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að svo verði gert, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Hv. þdm. er kunnugt um þetta mál, hvernig það stendur meðal þjóðarinnar. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða málið frekar, nema tilefni gefist.

Ég vil svo afhenda hæstv. forseta þessa rökst. dagskrá og óska þess, að hún verði borin upp.