15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

103. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Við höfum áður rætt þetta mál, og mér skildist, að síðast, þegar við ræddumst við hér, hefði hv. þm. Barð. verið búinn að sætta sig við það, að þetta frv. yrði samþ., og skilið það, að hér er verið að herða á þeim ákvæðum, sem nú gilda, og að engum sé leyfður innflutningur dýra nema stjórnarráðinu. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. með rökst. dagskrá ætlar að ná því, sem hann vill, að banna allan innflutning, því að þá yrði að nema l. úr gildi. Það kemur að vísu fram, ef hún yrði samþ., vilji Alþingis, og mætti segja, að stjórnin væri að einhverju leyti bundin við hann, siðferðislega a.m.k., en eins og hv. þm. veit, þá hefur rökst. dagskrá ekkert gildi, komi hún í bága við lög. Ég er hv. þm. sammála, að innflutningur á dýrum eigi ekki að eiga sér stað nema til sæðisflutninga frá eyjum og vera að öllu leyti í höndum ríkisstj., hennar sé vandinn eingöngu, og þess vegna er það, að ég tel, að frv., eins og það er nú, skapi öryggi hvað skepnur snertir, sem til landsins eru fluttar, öryggi, sem er öruggt, ef ekki er út af brugðið, og miklu meira öryggi en er um annan þann flutning, sem hugsanlegt er, að veiki geti borizt með, því að veiki getur borizt með mönnum og ýmiss konar dóti. Ég tel sjálfsagt, þó að búið sé að setja vísi að því að skerpa öryggið með þessu frv. og eigi að setja varnir gegn því, að veiki geti borizt með mönnum og flutningi, með því frv. um dýralækna, sem nú liggur fyrir, þá sé fjarri því, að því öryggi sé náð, sem ná þarf, þó að mikið sé til bóta, þar sem nú er á báðum stöðunum galopið, en með þessu frv. er reynt að byrgja þó fyrir á öðrum staðnum.