26.02.1948
Efri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

103. mál, innflutningur búfjár

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Við umr. þessa, þegar henni var frestað, þá fór ég fram á, að landbn. gæfist kostur á að athuga þetta mál í heild sinni. Landbn. hefur nú athugað málið, og varð hún sammála um, að í raun og veru hefði málið fengið þá afgreiðslu hjá hv. Nd., sem hefði verið til lítils gagns fyrir frv. sjálft, en fremur til hins lakara. En að öllu samanlögðu taldi þó n., að það mundu ekki vera þeir megingallar á frv., eins og það er nú, þegar því hefur verið breytt í hv. Nd., að ástæða væri til þess að hrekja það til hv. Nd. aftur. Í hv. Nd. hafa þær breyt. orðið á frv. að taka það fram fyrir landsmönnum, að fuglar tilheyrðu dýrum. Þetta álitum við í hv. Ed., að væri ákveðið í þeim dýrafræðum, sem við höfum lesið. — Annað, sem breytt hefur verið, sem við teljum vera til hins lakara, er það, að í staðinn fyrir, að ráðh. var heimilað einum að flytja inn fénað, þá getur hann eftir frv., eins og það er nú orðið, gefið öðrum leyfi til þess. En þar sem ríkið á eftir þessum l., ef frv. verður samþ., að annast þetta þannig, að það hefur sína móttökustöð fyrir allan fénað og lítur eftir innflutningi búfjárins, þá sáum við ekki, að þessi breyt. á frv. gerði sérstakan skaða. — Af þessum ástæðum töldum við rétt að láta málið afskiptalaust og greiða atkv. með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.